Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 413  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hóf störf 8. október sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana. Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 33 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila, m.a. fulltrúa ráðuneyta og Ríkisendurskoðunar.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði bréflega eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu nema samtals 13.299,3 millj. kr. til lækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 466,4 milljarðar kr. sem er 11 milljarða kr. lækkun frá frumvarpinu. Heildarjöfnuður verður neikvæður sem nemur 34,1 milljarði kr. sem er 2,3 milljarða kr. minni halli en í frumvarpi.
    Nokkur mál bíða 3. umræðu en þau eru C-hluti, þ.e. 4. gr., og 5. gr. Auk þess bíða nokkur mál í A-hluta 3. umræðu. Má þar nefnda málefni er varða Sjúkrahús Vestmannaeyja, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands og Isavia.
    Hér á eftir fara skýringar á breytingartillögum meiri hlutans við sundurliðun 2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 6. des. 2010.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Árni Þór Sigurðsson.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Þuríður Backman.


Björgvin G. Sigurðsson.



Fylgiskjal I.


Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2011, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Elínu Guðjónsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Marinó Melsted, Björn Ragnar Björnsson og Eliisa Kaloinen frá Hagstofu Íslands, Markús Möller, Gunnar Gunnarsson og Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands og Tómas Brynjólfsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti.
    Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 gerir ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 36,430 milljarða kr., heildartekjur verði 477,370 milljarðar kr. og að skatttekjur nemi þar af um 445,544 milljörðum kr. Í endurskoðaðri áætlun ársins 2010 er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs í ár verði neikvæð um 74,537 milljarða kr., heildartekjur verði 470,754 milljarðar kr. og skatttekjur 414,822 milljarðar kr.
    Í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 15. júní 2010 sem liggur fjárlagafrumvarpinu til grundvallar er reiknað með að hagvöxtur á árinu 2011 verði 3,2%. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að endurmat á tekjuáætlun og endanleg afgreiðsla frumvarpsins fari fram að lokinni endurskoðun þjóðhagsspár. Endurskoðun þjóðhagsspár var birt 23. nóvember sl. og er þar gert ráð fyrir að hagvöxtur á næsta ári verði 1,3% minni en áður var talið, eða 1,9%. Er þetta nálægt mati Seðlabankans í nýjustu útgáfu Peningamála sem gerir ráð fyrir 2,1% hagvexti.
    Markmið fjárlagafrumvarpsins tekur mið af stefnu ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í rekstrarafkomu ríkisins eigi síðar en árið 2013. Farin hefur verið blönduð leið tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum en á þessu þriðja ári áætlunarinnar verður þungi aðgerðanna að mestu á útgjaldahlið frumvarpsins. Ráðstafanir til aukinnar tekjuöflunar eiga samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að nema 11 milljörðum kr. og 33 milljörðum kr. til samdráttar í útgjöldum. Í frumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum (þskj. 217, 200. mál) gefur að líta yfirlit um sérstakar tekjuöflunaraðgerðir árið 2011 og hvernig þau tekjuáform skiptast á milli einstakra tekjustofna. Er reiknað með að tekjurnar verði 10,3 milljarðar kr. Engar almennar breytingar eru þar fyrirhugaðar á helstu tekjuskattstofnum ríkissjóðs, svo sem tekjuskatti einstaklinga, virðisaukaskatti eða tryggingagjaldi, heldur segir að fremur sé horft til skatta á fjármagn og eignir með það að leiðarljósi að hafa sem minnst áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra sem minna mega sín.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að endurskoðuð hagvaxtarspá Hagstofunnar skýrist aðallega af frestun framkvæmda við stóriðju í Helguvík. Að öðru leyti væru ekki veigamikil frávik frá fyrri spá. Gert er ráð fyrir að einkaneysla vaxi um 2,6% í stað 3,4%, samdráttur samneyslunnar verði um 4,3% í stað 3,8%, að atvinnuleysi verði um 7,3% í stað 8,3% og að verðbólga verði um 2,3% í stað 3,5%. Miklum afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum er áfram spáð en óvissu gætir varðandi ýmsa þætti eins og uppbyggingu stóriðju, alþjóðlega efnahagsþróun, úrlausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja og kjarasamninga.
    Efnahags- og skattanefnd ræddi áhrif uppfærslu þjóðhagsspár á helstu liði skatttekna ríkissjóðs og óskaði eftir minnisblaði frá fjármálaráðuneyti þar að lútandi. Þar kemur fram að allir helstu liðir innlendrar eftirspurnar muni leggja minna til hagvaxtar en í fyrri spá. Forsendur tekjuáætlunar eru því verri en áður en á móti vegur að kaupmáttur ráðstöfunartekna helst nánast óbreyttur vegna minna atvinnuleysis og lægri verðbólgu. Fram kemur að neikvæð áhrif dekkri þjóðhagshorfa fyrir næsta ár á skatttekjur ríkissjóðs séu metin um 6 milljarðar kr. og eru áhrif á helstu liði útlistuð í minnisblaðinu sem fylgir áliti þessu. Í töflu sem einnig fylgir álitinu og kemur frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að breyttar tekjuhorfur við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins verði samtals neikvæðar um 11 milljarða kr. á rekstrargrunni en 12,3 milljarða kr. á greiðslugrunni.
    Meiri hluti efnahags- og skattanefndar gerir þann fyrirvara að enn séu óafgreiddar lagabreytingar í tengslum við tekjuöflunaraðgerðir næsta árs sem haft getur áhrif á niðurstöðu tekjuáætlunarinnar. Einnig hefur verið bent á að óvissuþættir um framgang áætlunarinnar lúti að aukningu einkaneyslu og efnahagsþróun í helstu viðskiptalöndum okkar.

Alþingi, 2. des. 2010.

Helgi Hjörvar, form.,
Álfheiður Ingadóttir,
Magnús Orri Schram,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Fskj. 1.

Breyttar tekjuhorfur við 2. umræðu fjárlagafrumvarps 2011 (m.kr.) Rekstrargr. Greiðslugr.
Arðgreiðslur 1.000 1.000
Endurskoðun á tekjugrunni 2010 6.400 3.100
Áhrif af lakari efnahagshorfum á skatttekjur -6.200 -6.000
Tekjuöflunaráform sem ganga ekki eftir -1.000 -1.000
Lækkun tekjuskatts v. yfirfærslu á málefnum fatlaðra -10.200 -9.400
Endurmat vaxtatekna -900 -1.100
Samtals breyttar tekjuhorfur -11.000 -13.400
    þar af frumtekjur -10.000 -12.300



Fskj. 2.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2011.
Áhrif uppfærslu þjóðhagsspár 23. nóvember 2010.

(Minnisblað frá fjármálaráðuneytinu.)


    Í þessu minnisblaði er lagt út frá samanburði á þjóðhagsspám Hagstofunnar frá 15. júní og 23. nóv. sl. og þeim breytingum sem þessi uppfærsla ein og sér veldur á áætlun um skatttekjur ríkissjóðs. Breytingar á tekjuáætlun sem eiga sér aðrar orsakir eru því ekki meðtaldar í þeim tölum sem hér koma fram.
    Vaxtatekjuáætlun ríkissjóðs verður einnig fyrir áhrifum af uppfærslunni en hún er hér aðgreind frá skatttekjuáætlun. Aðrar tekjur en skatttekjur og vaxtatekjur verða fyrir minniháttar áhrifum sem ekki er gerð grein fyrir hér.
    Vísað er til þjóðhagsspár Hagstofu Íslands sem birt var á vef Hagstofunnar 23. nóvember og kynnt á fundi efnahags- og skattanefndar 26. nóvember sl. Tekið skal fram að misjafnt er eftir hinum ýmsu tegundum skatta og gjalda hvaða liðir þjóðhagsspár eru lagðir til grundvallar áætlunum, og á hvern hátt. Fjármálaráðuneytið hefur farið yfir þjóðhagsspána og helstu óvissuþætti hennar með sérfræðingum Hagstofu með hliðsjón af efnahagsþróuninni og tekjuþróun ríkissjóðs á yfirstandandi ári, og því hvernig breytur spárinnar nýtast við að áætla þróun helstu skattstofna ríkissjóðs.

Helstu þættir þjóðhagsspár Hagstofunnar 23. nóv. 2010
og samanburður við fyrri spá.
Þjóðhagsyfirlit júní nóv.
Einkaneysla 3,4 2,6
Samneysla -3,8 -4,3
Fjármunamyndun 25,2 14,9
    Atvinnuvegir 44,9 23,5
    Íbúðarhúsnæði 9,1 20,8
    Starfsemi hins opinbera -23,5 -18,9
Þjóðarútgjöld 4,0 2,4
Útflutningur alls 1,8 1,0
Innflutningur alls 3,2 2,0
Verg landsframleiðsla 3,2 1,9
Minnisatriði
Vísitala neysluverðs 3,5 2,3
Gengisvísitala -0,6 -2,1
Atvinnuleysi (% af vinnuafli) 8,3 7,3
Launavísitala 5,2 4,4
Stýrivextir 7,6 5,4
Kaupmáttur ráðstöfunartekna 3,7 3,6
Mannfjöldi á vinnufærum aldri -0,7 -0,5
Unnin ársverk 0,8 0,8
VLF á nafnvirði (ma.kr.) 1.720 1.629


    Hagvaxtarhorfur eru nú lakari en í júní eða 1,9% í stað 3,2%. Allir helstu liðir innlendrar eftirspurnar leggja minna til hagvaxtar en í fyrri spá; einkaneysla og fjármunamyndun vaxa minna og samneysla dregst meira saman (sjá töflu). Tveir veigaminni undirliðir fjármunamyndunarinnar (í íbúðarhúsnæði og hins opinbera), leggja þó meira til en áður, svo og fjárfesting atvinnuvega í öðru en stóriðju. Fjármunamyndun atvinnuvega í heild verður hins vegar verulega minni en í fyrri spá vegna frestunar stóriðjuframkvæmda. Á vinnumarkaði verður atvinnuleysi minna og eftirspurn eftir vinnuafli meiri en í fyrri spá. Nafnlaun og ráðstöfunartekjur hækka minna en í júníspánni en verðbólga verður einnig minni og kaupmáttur ráðstöfunartekna nánast óbreyttur. Forsendur tekjuáætlunar eru því verri en áður en þó ekki verulega í þeim tilvikum þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna er talinn ráða miklu, svo sem um ýmis vörugjöld á vörur til heimilageirans. Lækkun tekjuáætlunar á nafnvirði verður ekki alfarið rakin til veikari skattstofna, þar sem almennt verðlag og nafnlaunastig verður lægra á næsta ári en í fyrri spá. Nafnvirði tekna af hinum ýmsu sköttum verður því minna, og á það við um alla stærstu skattana, þ.á m. virðisaukaskattinn. Krónutölugjöldin svokölluðu, svo sem gjöld á bensín og olíu, áfengi og tóbak, eru hins vegar ósnortnari af verðlagsþróuninni, en þau nema ríflega 10% af skatttekjunum.
    Áhrif uppfærslu þjóðhagsspárinnar á helstu einstaka liði skatttekna ríkissjóðs eru þau að tekjuskattur einstaklinga lækkar um 1,5 ma.kr. og tryggingagjöld samtals um 1,0 ma.kr., en nú er reiknað með 2,9% nafnvirðishækkun heildarlaunastofnsins milli áranna 2010 og 2011 í stað 4,4% áður. Tekjuskattur lögaðila á árinu 2011 miðast við hagnað ársins 2010 og uppfærslan hefur því óveruleg áhrif á hann. Neikvæð áhrif á tekjur af virðisaukaskatti eru 2,1 ma.kr.

Áhrif uppfærslu þjóðhagsspár 23. nóvember
á skatttekjur ríkissjóðs á árinu 2011
M.kr. Rekstrargr. Greiðslugr.
I Skatttekjur alls -6.160 -5.970
    Skattar á tekjur og hagnað -1.790 -1.740
    Tryggingagjöld -1.000 -960
    Eignarskattar -20 -20
    Skattar á vörur og þjónustu -3.310 -3.210
    Aðrir skattar -40 -40



    Alls eru neikvæð áhrif dekkri þjóðhagshorfa fyrir næsta ár á skatttekjur ríkissjóðs um 6 ma.kr. Þá eru ótalin áhrifin á vaxtatekjuáætlun ríkissjóðs. Hagstofan hefur lækkað spá sína um stýrivexti á árinu 2011 verulega síðan í júní og hefur það bein áhrif á áætlun um vaxtatekjur af banka-reikningum ríkissjóðs, sem er nú lækkuð um nálægt 1,5 ma.kr.



Fylgiskjal II.


Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2011, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



Forsendur fjárlaga.
    Þjóðhagslegar forsendur fjárlaga hafa breyst mikið frá þjóðhagsspá sem birt var í júní síðastliðinn. Þannig er nú gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,9% á næsta ári í stað 3,2%. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá kemur fram að fjárfesting mun dragast saman um allt að 10,3 prósentustig frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Stafar þessi samdráttur fyrst og fremst af því að ekki er nú lengur gert ráð fyrir framkvæmdum í Helguvík árið 2011. Innlend eftirspurn mun dragast saman um 1,6 prósentustig og útflutningur um 0,8 prósentustig frá fyrri spá, sjá töflu. Drifkraftar hagvaxtar virðast því verða afar veikir á næsta ári og lítið má út af bregða til að allt fari á verri veg. Fjárlagafrumvarpið virðist því hvíla á hnífsegg.

Endurskoðuð
þjóðhagsspá
(nóvember)
Forsendur
fjárlaga
(júní)
Breyting
Hagvöxtur 1,9% 3,2% -1,3%
    Fjárfesting 14 ,9% 25,2% -10,3%
    Einkaneysla 2 ,6% 3,4% -0,8%
    Samneysla -4 ,3% -3,8% -0,5%
    Útflutningur 1 ,0% 1,8% -0,8%
    Innflutningur 2 ,0% 3,2% -1,2%
Innlend eftirspurn 2,4% 4,0% -1,6%
Kaupmáttur 3,6% 3,7% -0,1%
Verðbólga 2,3% 3,5% -1,2%
Launavísitala 4,4% 5,2% -0,8%
Atvinnuleysi 7,3% 8,3% -1,0%
Heimild: Hagstofa Íslands

    Athygli vekur að þrátt fyrir að þjóðhagsforsendur séu nú mun verri en í júní er því spáð að atvinnuleysi muni dragast saman um 1 prósentustig. Þetta gerist þrátt fyrir að fjárfesting verði mun minni en gert var ráð fyrir í spánni í júní. Enn meiri athygli vekur að gert er ráð fyrir að kaupmáttur breytist óverulega og er það vegna hagstæðari verðlagsforsendna. Þannig var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga að meðalverðbólga yrði 3,5% á næsta ári en nú er gert ráð fyrir 2,3% verðbólgu. Það er mat 1. minni hluta að þessi spá gangi tæpast upp. Verri þjóðhagsforsendur ættu að öllu jöfnu að leiða til meiri samdráttar í eftirspurn en hér er gert ráð fyrir.

Áhrif verri þjóðhagsforsendna á fjárlagafrumvarp.
    Lakari þróun efnahagsstarfseminnar en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu hefur mikil áhrif á ríkissjóð. Þannig er það mat Samtaka atvinnulífsins að breyttar þjóðhagsforsendur leiði til 6,1 milljarðs kr. verri afkomu ríkissjóðs en ella, sjá töflu.

Fjárlagafrumvarp Endurskoðuð áætlun
VLF, fjárlagafrumvarp (milljarðar kr.) 1.720 1.696
Magnbreytingar milli ára (%) 3,2% 1,9%
Verðbreytingar milli ára (%) 3,8% 3,8%
Lækkun landsframleiðslu (milljarðar kr.) 23,4
Hlutfall skatttekna í VLF (%) 26%
Lækkun skatttekna (milljarðar kr.) 6,1
Heimild: Samtök atvinnulífsins

    OECD er svartsýnna á hagvöxt en Hagstofa Íslands og hljóðar hagvaxtarspá stofnunarinnar fyrir næsta ár upp á 1,5% sem er um 0,4 prósentustigum lægra en endurskoðuð spá Hagstofu Íslands. Vegna þessa metur OECD það svo að tekjur ríkissjóðs séu ofmetnar um 15 milljarða kr. á næsta ári. Þá spáir Evrópusambandið að hagvöxtur verði einungis um 0,7% á næsta ári. Ef sú spá rætist er ljós að ástand ríkisfjármála yrði mun verra en hér er gert ráð fyrir. Miðað við sömu forsendur og áður yrðu skatttekjur ríkissjóðs allt að 27 milljörðum kr. lægri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi.
    Minni hagvöxtur mun setja tekjuáætlun úr skorðum og þar með tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Ljóst er að bregðast verður við verri horfum ef halda á áætlun um viðsnúning í ríkisfjármálum. Það verður að gera með því að leggja áherslu á breikkun skattstofna. Auknar skattaálögur eða enn frekari niðurskurður munu festa efnahagslífið enn frekar í þeim vítahring sem það er fast í núna. Því varar 1. minni hluti við því að gripið verði til vanhugsaðra ráðstafana og bíður um leið fram krafta sína við að ná tökum á ástandinu. Einnig er lífsnauðsynlegt að leggja áherslu á að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins. Rétt er að taka fram að ekki er fjallað hér um áhrif minni hagvaxtar á útgjaldahlið frumvarpsins.

Langtímaáhrif minni framleiðslugetu.
    Langtímaáhrif af minnkandi framleiðslugetu íslenska hagkerfisins virðast vera vanmetin. Undanfarin tvö ár hafa um 22.500 störf tapast á vinnumarkaði. Um 13.000 einstaklingar er nú atvinnulausir. Hver atvinnulaus leiðir til um 3 milljóna kr. verri afkomu ríkissjóðs vegna bótagreiðslna og minni skatttekna. Heildaráhrif á ríkissjóð vegna atvinnulausra gætu því verið allt að 39 milljarðar kr. Um 9.500 einstaklingar hafa horfið af vinnumarkaði: þeir hafa sest í helgan stein, farið á örorkubætur, flutt búferlum úr landi eða farið í skóla. Áhrif af flutningi fólks eru enn alvarlegri fyrir afkomu ríkissjóðs en vegna atvinnulausra. Ríkissjóður verður ekki eingöngu af beinum skatttekjum heldur einnig óbeinum. Þá er rétt að benda á að langtímaáhrif af því að fólk fari í skóla eru jákvæð. Minni fjárfesting og minnkandi vinnumarkaður hefur óhjákvæmilega í för með sér minni framleiðslugetu íslenska hagkerfisins til lengri tíma. Því er líklegt að óbreyttu að langtímahagvöxtur verði minni en ef hægt hefði verði að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins og þar með verði grunnur ríkisrekstrar mun veikari enn menn hafa hingað til viljað viðurkenna. Jafnframt er hér komin skýring á því af hverju atvinnuleysi hefur ekki orðið jafnmikið á Íslandi og spáð var haustið 2008. Fólk hefur í miklum mæli horfið af vinnumarkaði. Þetta er ógnvænleg þróun að mati 1. minni hluta og full ástæða til að leita allra ráða til að snúa þessari þróun við. Þá ber að geta þess, þótt möguleikinn sé e.t.v. langsóttur, að ef framleiðslugetan minnkar mikið er hætta á að strax komi til framleiðsluspennu ef hagvöxtur tekur við sér af krafti með tilsvarandi háum vöxtum sem enn slær á möguleikann til að vinna upp tapaðan hagvöxt.

Aðferðafræði ríkistjórnarinnar.
    Í athugasemdum við tekjuöflunarfrumvarp fjármálaráðherra, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 200. mál, segir svo:
    „Frá haustinu 2008 hefur meginverkefni ríkisstjórnarinnar verið að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum veruleika með það að markmiði að endurreisa íslenskt efnahagslíf í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í skýrslu fjármálaráðherra sem lögð var fyrir Alþingi í júní 2009 var þetta verkefni útfært nánar sem áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Þar kemur skýrt fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni fela í sér hvort tveggja niðurskurð ríkisútgjalda og hækkun á tekjum ríkissjóðs. Sú blandaða leið niðurskurðar og tekjuöflunar sem ríkisstjórnin hefur haft að leiðarljósi til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum er þó í stöðugri endurskoðun og tekur mið af þeim árangri sem hvor leið skilar. Þannig er reynt að lágmarka það tjón sem niðurskurður á samneyslu veldur hagkerfinu og einnig þau neikvæðu áhrif er tekjuöflunaraðgerðir kunna að hafa.“
    Hér virðist ríkisstjórnin einblína á og sjá aðeins tvær leiðir til þess að laga stöðu ríkissjóðs – með skattahækkun og niðurskurði. Ríkisstjórnin hefur einnig heimilað útgreiðslu séreignarsparnaðar sem gefur nokkrar tekjur en skaðar eignastöðu heimila til framtíðar. Ríkisstjórnin virðist alfarið hafna þeirri leið að stækka skattstofna með því að örva efnahagsstarfsemina með lækkun skatta og einföldun á starfsumhverfis fyrirtækja. Þá gæti ríkisstjórnin farið út í arðbærar framkvæmdir á sviði orkumála sem skapa atvinnu og laða að erlenda fjárfestingu. Þá hefur verið bent á að aukning fiskveiðikvóta innan aflamarks mundi leiða til aukinna umsvifa.
    Stefnu ríkisstjórnarinnar, sem birtist í fjárlögum fyrir árið 2010, er haldið áfram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Stefnan felst fyrst og fremst í að hækka skatta enn frekar og þyngja enn byrðarnar á heimili og fyrirtæki. 1. minni hluti varaði fyrir ári síðan við þessari stefnu þar sem ekki er skynsamlegt að gera tilraunir með að skattleggja þjóðina út úr kreppu. Skattstofnar gefa eftir og einkaneysla dregst saman sem og fjárfesting við aukna skattlagningu. Í kjölfarið minnkar þjóðarframleiðsla og þar með versnar hagur heimilanna. Hagtölur hafa leitt í ljós að þessar viðvaranir 1. minni hluta voru á rökum reistar. Þannig sýnir endurskoðuð þjóðhagsspá Hagstofunnar samdrátt í landsframleiðslu á yfirstandandi ári og veikan vöxt á því næsta. Spár um mikinn samdrátt í fjárfestingu eru uggvænlegar en fjárfesting hefur bein áhrif á atvinnustig bæði í bráð og lengd. Samdráttur í fjárfestingu leiðir til stöðnunar og vítahrings brottflutnings, veikari skattstofna, halla ríkissjóðs og enn hærri skatta og niðurskurðar. Fjárlaganefnd verður að skoða nákvæmlega þau teikn sem blasa við og skoða hvort ekki sé skynsamlegt að hvika frá þessari helstefnu og einbeita sér frekar að því að endurheimta skattstofna. Nauðsynlegur niðurskurður ríkisútgjalda, sem óhjákvæmilega bitnar á störfum opinberra starfsmanna, leiðir til aukins atvinnuleysis þar sem einkamarkaðurinn getur ekki tekið við atvinnulausum opinberum starfsmönnum.

Niðurstaða.
    Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar um hagvöxt setur allar áætlanir ríkisstjórnarinnar um tekjuhlið fjárlaga úr skorðum. Líkur eru til þess að skattstofnar bregðist kröftugar við álögum en ríkisstjórnin gerði og gerir ráð fyrir og meira í samræmi við þau varnaðarorð sem undirritaðir létu falla fyrir ári síðan. Það ætti að vera enn ein ástæða fjárlaganefndar til að endurskoða þá stefnu sem mörkuð er með fjárlögum.

Alþingi, 2. des. 2010.

Pétur H. Blöndal,
Tryggvi Þór Herbertsson.




Fylgiskjal III.

Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2011, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Tekjuhlið fjárlagafrumvarps ársins 2010 stenst því miður ekki miðað við þær forsendur sem frumvarpið fól í sér við framlagningu þess. Hagstofa Íslands, OECD, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa öll bent á verri efnahagshorfur á árinu 2011 sem helgast af rangri stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hagstofan hefur lækkað spá sína um hagvöxt á næsta ári úr 3,2% í 1,9%. Slíkur samdráttur mun þýða hátt í 20 milljarða minni umsvif í efnahagskerfinu. Um helmingur þessarar upphæðar hefði átt að renna í formi tekna til ríkis og sveitarfélaga. Efnahags- og skattanefnd hefur langt í frá lokið sinni yfirferð yfir tekjuforsendur fjárlagaársins enda er umræðu um fyrri bandorm ríkisstjórnarinnar ekki lokið (þskj. 217, 200. mál) og seinni bandormurinn hefur ekki verið ræddur við 1. umræðu í þinginu. Þetta vinnufyrirkomulag er gagnrýnisvert – enda á efnahags- og skattanefnd að gegna veigamiklu hlutverki við ákvörðun fjárlaga ársins 2011.
    Í nýlegri spá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er athygli vakin á því að landsframleiðslan hafi dregist saman um 6,8% á árinu 2009 og að hún muni dragast saman um 3,5% á þessu ári. Ekki séu uppi skýr teikn um hvort efnahagsbatinn sé hafinn en í opinberri umræðu hefur því verið haldið fram að viðsnúningur hafi orðið á öðrum helmingi þessa árs. Sérstökum áhyggjum valdi mikil skuldsetning einkageirans sem komið hefur fram í miklum samdrætti einkaneyslu, fjárfestingu og atvinnuleysi. Vegna umfangs skuldavandans og flækjustigs við úrlausn hans búist framkvæmdastjórnin við því að efnahagsbatinn verði mun hægari en Hagstofan gerir ráð fyrir. Því má svo við bæta að síbreytilegt skattaumhverfi með hækkandi sköttum hefur að mati framkvæmdastjórnarinnar haft verulega neikvæð áhrif á fjárfestingu sem mikil þörf er á við núverandi aðstæður.
    Eftir yfirferð með nokkrum hagsmunaaðilum hefur komið í ljós að niðurskurður og skattahækkanir eru mun meiri en upphafleg kynning ríkisstjórnarinnar gaf í skyn. Áætlaðar skattahækkanir með fyrri bandormi gera ráð fyrir 10,3 milljörðum í auknar skatttekjur, þar af er gert ráð fyrir að skattlagning af úttekt séreignarlífeyrissparnaðar muni skila ríkissjóði 3 milljörðum króna aukalega vegna rýmri heimilda almennings til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Sá rökstuðningur ríkisstjórnarinnar um að ekki megi skattleggja inngreiðslur af séreignarsparnaði, sem þýði í raun „lántöku inn í framtíðina“, fellur með þessari aðgerð þar sem almenningur er í dag að greiða fyrir áætlaðan tíma skatta af sínum sparnaði. Rétt er að benda á að hér er ekkert um neitt sérstakt góðverk ríkisstjórnarinnar að ræða þar sem almenningur gengur nú hratt á sinn sparnað. Því miður hafa mörg heimili nú þegar klárað allan sinn séreignarsparnað til að ná endum saman. Hver verður staða þeirra heimila á næsta ári?
    Ofan á þessar skattahækkanir verða bótaflokkar almannatryggingakerfisins ekki uppfærðir í samræmi við verðlag. Einnig verða barna-, vaxta- og húsaleigubætur skertar. Auk þess verða skattleysismörkin ekki uppfærð skv. samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við launafólk og spara það útgjöld ríkissjóðs um 8 milljarða króna. Þessi frysting veldur því að lágtekjufólk mun verða fyrir enn frekari kjaraskerðingu en ella. Þessi niðurskurður ásamt skattahækkunum vegur á milli 24–25 milljörðum kr.. Að auki hækka skuldir heimilanna með gjalda- og skattahækkunum um 2,4 milljarða kr. Helmingur heimila hefur átt erfitt með að ná endum saman sl. 12 mánuði skv. könnun Hagstofunnar. Hver verður staða heimilanna á árinu 2011 ef enn á að hækka skatta, gjöld og skerða bætur um leið?
    Stórfelldar skattahækkanir og blóðugur niðurskurður er ekki leiðin út úr kreppunni. Ríkisstjórnin heldur enn áfram á þeirri leið án þess að huga að því að breikka skattstofna. Ef fram heldur sem horfir mun kreppan dýpka til muna og stefnubreytingar er þörf. T.d. hefur ríkisstjórn Írlands gefið út að á næsta ári verður að taka erfiðar ákvarðanir í efnahagsmálum, þó kemur ekki til greina að hækka skatta á atvinnulífið. Í því atvinnuleysi sem ríkir í dag er ekki hægt að auka álögur á íslenskt atvinnulíf. Rúmlega 13.000 Íslendingar eru án atvinnu auk þess sem 10 Íslendingar flytja úr landi á hverjum degi. Frá hruni hafa 22.000 störf glatast í íslensku samfélagi. Meðfylgjandi álitinu er minnisblað frá Samtökum atvinnulífsins sem sýnir í raun hvað stjórnvöld áætluðu að hærri skattar myndu skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs – en í raun hafa áætlaðar tekjur ekki skilað sér.
    Í þessu ljósi er nauðsynlegt að skoða eftirtalda þætti til að auka tekjur ríkis, sveitarfélaga ásamt því að fjölga störfum í samfélaginu:
          Að inngreiðslur séreignarlífeyrissjóða verði skattlagðar.
          Að auka fiskveiðiheimildir.
          Að örva erlenda fjárfestingu í stað andúðar.
          Nýta orkuauðlindirnar til atvinnusköpunar.
          Að efla innlenda matvælaframleiðslu.
    Með hærri sköttum og gjöldum munu lán heimilanna hækka enn frekar. Skuldavandi heimilanna er orðinn að alvarlegum greiðsluvanda sem hamlar innlendri eftirspurn. Það mun leiða til minni hagvaxtar og tekna ríkissjóðs og sveitarfélaga. Þannig hefur skuldavandi heimilanna þau áhrif á kreppuna að hún dýpkar og lengist til mun en ella þyrfti. Lækkun vaxtabóta, barnabóta, húsaleigubóta ásamt bóta í almannatryggingakerfinu mun leiða til enn minni eftirspurnar í hagkerfinu og enn meiri vanda þeirra heimila sem hvað lakast standa í dag.
    Það sem sérstaka athygli vekur eru ólíkar forsendur um tekjuþróun næsta árs. Í tekjuhlið kemur fram að gert er ráð fyrir hækkun launa um rúm 5% sem eykur tekjur ríkissjóðs verulega. Í útgjöldum er hins vegar gert ráð fyrir að launhækkanir opinberra starfsmanna verði engar. Hér er um að ræða ótrúverðuga spá og sýnir enn og aftur fram á óraunsæi í áætlanagerð ríkisstjórnarinnar.
    Neðanjarðarkerfið blómstrar um þessar mundir. Með hækkandi sköttum og frekari tekjutengingum eykst enn frekar hvatinn til að stunda svarta vinnu, slíkt færist verulega í aukana sem færir ríkissjóði engar tekjur. Enn á að hækka álögur á áfengi og tóbak sem hefur nú þegar sýnt að leiði til minni eftirspurnar eftir þeirri vöru á ÁTVR. Meira smygl og umfangsmikil bruggframleiðsla veldur því að umsvif ÁTVR minnka verulega og tekjur ríkissjóðs samsvarandi. Í framhaldinu þarf væntanlega að fækka útsölustöðum ÁTVR. Hér er um glórulausa stefnu að ræða sem mun verða ríkulegur áburður á neðanjarðarhagkerfið og vafalaust leiða til aukinnar notkunnar á ólöglegum vímuefnagjöfum sem nú þegar eru orðnir ódýrari í innkaupum. Fram hefur komið að afskipti lögreglunnar af landaframleiðslu hafi nær fjórfaldast í ár miðað við árið 2009. Þetta er skýr vísbending þess að stefna stjórnvalda er glórulaus.
    Búið er að hækka skatta á almenning án þess að gripið sé til aðgerða til að leiðrétta skuldir þeirra. Stökkbreyttar skuldir er ekki sök hins venjulega Íslendings – þvert á móti. Þeir aðilar sem buðu almenningi erlend lán, stóru bankarnir þrír, tóku á sama tíma stöðu gegn íslensku krónunni um leið og gengistryggðu lánin voru veitt. Er réttlætið það að heimilin verði að greiða allan þann reikning?
    Síðan er vandséð hvernig hægt er að skila inn umsögn um tekjuhliðina í ljósi þess að seinni bandormurinn er ekki kominn fram. Ekki er heldur búið að klára umfjöllun um bandorm hinn fyrri.

Alþingi, 2. des. 2010.

Birkir Jón Jónsson.


Fskj.

Samtök atvinnulífsins:

Áætlun um skatttekjur ríkissjóðs árið 2010 samkvæmt fjárlögum 2010
og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011.

(19. nóvember 2010.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Fylgiskjal IV.


Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2011, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



     3. minni hluti hefur farið vandlega yfir tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins og þær þjóðhagsforsendur sem liggja henni til grundvallar.
    Hvað varðar áhrif skattbreytingana á efnahagslífið alment og þjóðarhag telur 3. minni hluti að sá rökstuðningur gangi ekki upp við þær aðstæður sem uppi eru í íslenskum efnahagsmálum. Rökstuðningurinn byggist á keynesískum kenningum hagfræðinnar þar sem gengið er út frá því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu hafi örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu (samdrætti) og talið er til miskilnings að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram að aukning á útgjöldum ríkissjóðs muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi eru góð og gild við ákveðnar aðstæður og hafa reynst vel gegnum tíðina sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir og kenningin sem slík gengur upp í reynd þótt ýmislegt beri að varast við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun þeirra og varanleika.
    Undir þeim kringumstæðum sem íslenskt efnahagslíf býr við er þess hins vegar ekki að vænta að um verði að ræða samsvarandi eða meiri aukningu eftirspurnar en sem nemur skattheimtunni vegna bágrar skuldastöðu ríkissjóðs og takmarkaðs svigrúms til útgjalda. Stór hluti ríkisútgjalda fer í að greiða vexti af lánum og allar auknar tekjur sem falla til vegna hærri skatta fara beint í þann útgjaldalið. Einnig er á sama tíma um að ræða umtalsverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum starfsfólks í stórum stíl, þannig að í raun er æpandi þversögn í beitingu þessara aðferða sem í rökstuðningi frumvarpsins eru sagðar auka eftirspurn.
    Því er hætt við að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem þær þýða að ráðstöfunartekjur heimila munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu, þá er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem frumvarpið vill ná fram og hafa góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina eykst. Aukin skattheimta í dag hefur hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.
    Um það er ekki deilt að staða ríkissjóðs er mjög slæm og einhvern veginn þarf að reyna að brúa þann gríðarlega halla sem blasir við. Ríkisstjórnin hefur valið svokallaða blandaða leið þar sem útgjöld eru skorin niður og skattar hækkaðir á almenning og fyrirtæki, leið sem 3. minni hluti telur við þessar aðstæður bæði óheppilega og í raun óþarfa.
    Ljóst er að tekjuskattstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög og sumir allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð. Í því efnahagsástandi sem við búum við nú eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir og geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram.
    Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim og að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu sem getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga. Því telur 3. minni hluti brýnt að leita annarra leiða til að rétta við hag ríkissjóðs en þeirra sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpi. 3. minni hluti leggur því til að í stað þeirra tekjuskattshækkana og niðurskurðar útgjalda til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og frumvörpum um tekjuöflun ríkisins skuli leitast við að afla ríkissjóði tekna sem hér segir:
    Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á raforkusölu til stóriðju í stað sérstaks skatts af allri seldri raforku. Gjald þetta verði 1 kr. á kílóvattstund af seldri raforku. Miðað við tölur Orkustofnunar um raforkusölu til stóriðju gæti þetta gjald skilað tekjum upp á u.þ.b. 12,4 milljarða kr. á ári. Þar sem raforkusala til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er meitluð í stein hvað verðbreytingar varðar verði leitast við útfæra auðlindagjaldið sem hlutfall af útflutningsverðmæti verksmiðjunnar þannig að það nemi samsvarandi upphæð og 1 kr. á selda kílóvattstund. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhugaðri hækkun skatta og niðurskurði útgjalda til samræmis við þetta.
    Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á úthlutaðar aflaheimildir til fiskveiða. Gjald þetta verði að meðaltali 50 kr. á úthlutað kíló. Miðað við úthlutaðar aflaheimildir ársins 2009/2010 (366.627 tonn) gæti gjaldið skilað tekjum upp á u.þ.b. 18,3 milljarða kr. á ári. Lagt er til á móti að fyrirhuguð hækkun skatta falli niður og að því sem eftir stendur af tekjunum verði varið til styrkingar heilbrigðis-, velferðar- og menntamála.
    Slík skattheimta sem að ofan greinir er hlutlaus fyrir heimilin og leggst á þær greinar atvinnulífsins sem standa best allra í dag vegna hruns á gengi krónunnar. Hér er einnig um að ræða réttláta skattlagningu í þeim skilningi að þessar atvinnugreinar nota auðlindir landsins án endurgjalds, auðlindir sem eru sameign allrar þjóðarinnar. Auk þess er miklu auðveldara að innheimta auðlindagjald með þessum hætti heldur en með einhverjum hugmyndum um tekjuskatt eða veiðileyfagjald sem hlutfall af hagnaði.
    Þá eru breytingar sem fyrirhugaðar eru á vörugjöldum bifreiða með tengingu við kolefnislosun óraunhæfar og órökréttar þar sem gert er ráð fyrir 29 undanþáguflokkum þar sem þeir sem keyra mest sem og þeir sem menga mest eru með undanþágur. Hér er fjárálaráðherra búin að gefast algerlega upp fyrir sérhagsmunahópum og þessar breytignar eru til þess eins fallnar að stærri hluti þessarar tilteknu skattheimtu lendir á venjulegum almenningi sem þarf að keyra daglega til vinnu sinnar en atvinnutæki, flutningabílar sem menga gríðarlega og erlendir ferðamenn á bílaleigubílum verða undanskildir, auk fjölamrgra annarr
    3. minni hluti vill að lokum lýsa undrun sinni á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa við gerð fjárlaga, hvort sem um er að ræða efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd. Viðamiklar breytingar á viðkvæmum tímum eru mjög varasamar og ber ekki að afgreiða með þeim hætti sem gert er. Þótt erfitt geti verið að bæta úr því sem komið er mundu tillögur 3. minni hluta um nýja skattstofna gefa öllum hlutaðeigandi nægilegt svigrúm til að undirbúa betur breytingar á tekjuskattskerfinu og virka mun jákvæðar á almenning og fyrirtæki í landinu heldur en þær fyrirhuguðu skattahækkanir sem frumvörpin gera ráð fyrir.

Alþingi, 2. des. 2010.

Þór Saari.




Fylgiskjal V.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (00 Æðsta stjórn ríkisins, 01 Forsætisráðuneyti og 06 Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þá hluta frumvarps til fjárlaga sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010. Á fund nefndarinnar komu Karl M. Kristjánsson frá skrifstofu Alþingis, Óðinn Helgi Jónsson og Eydís Eyjólfsdóttir frá forsætisráðuneyti og Jón Magnússon frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.

Æðsta stjórn ríkisins.
    Nefndin fjallaði um æðstu stjórn ríkisins, Alþingi, stofnanir þess og dómstólana.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 2.107 m.kr. framlögum til Alþingis sem er 6,7% lækkun frá fjárlögum þessa árs og jafngildir 171,5 m.kr. lækkun að raungildi. Nefndin bendir á að á síðustu tveimur árum hafi verið dregið verulega úr starfsemi Alþingis og fjárveitingar til þingsins hefðu lækkað um 315 m.kr. eða 15% að raungildi árin 2009 og 2010, þrátt fyrir meira álag á þingið og starfslið þess en nokkru sinni áður. Alþingi gekk því á undan með góðu fordæmi í niðurskurði útgjalda sem fólu á þessum tveimur árum í sér að laun þingmanna voru lækkuð, dregið verulega úr kostnaði við alþjóðasamstarf þingmanna, kostnaðargreiðslur til þingmanna voru lækkaðar, móttökum erlendra gesta frestað og heimsóknir og risna á vegum forseta stórminnkuð og útgjöld skrifstofunnar lækkuð sem og laun starfsmanna. Meiri hlutinn telur að ekki sé unnt að ganga svo langt í niðurskurði eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpinu ef Alþingi á að geta sinnt margþættu hlutverki sínu með sóma. Þá bendir meiri hlutinn á að það sé ekkert sem bendi til þess að það aukna álag sem verið hefur síðustu ár muni minnka á næstu árum. Fyrir nefndinni kom fram að innan forsætisnefndar sé fullur vilji til að Alþingi leggi sitt af mörkum áfram til hagræðingar og sparnaðar og hefur forsætisnefnd því lagt til í tillögum til fjárlaganefndar að framlög til Alþingis verði lækkuð um 60 m.kr. til viðbótar við niðurskurð fyrri ára og telur meiri hlutinn þær tillögur raunhæfari en þær sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Nefndin fjallaði einnig um þær aukafjárveitingar sem lagðar eru til frumvarpi til fjáraukalaga vegna kostnaðar Alþingis við gerð skýrslu lögfræðistofunnar Mishcon de Reya um Icesave-málið, vegna kostnaðar við útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vegna kostnaðar við undirbúning stjórnlagaþings, þjóðfund og kosningar til stjórnlagaþings sem er á fjárheimild dómsmála- og mannréttindaráðuneytis.
    Þá fjallaði nefndin um raunlækkun til stofnana Alþingis, þ.e. umboðsmanns Alþingis sem er 8,4% og til Ríkisendurskoðunar sem er 8,4% frá fjárlögum ársins 2010. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þessar stofnanir sem gegna grundvallarhlutverki í að veita stjórnvöldum aðhald með vönduðu eftirliti fái nauðsynlega fjármuni til þess að rækja það hlutverk sitt.
    Meiri hlutinn styður endurskoðun á skipulagi dómstóla sem legið hefur fyrir í nokkur ár og tekur einnig undir þörfina á því að dómurum verði fjölgað til að mæta aukningu dómsmála sérstaklega í tengslum við bankahrunið haustið 2008 en fyrir liggur að eitt af þingmálum ríkisstjórnarinnar á komandi vetri er frumvarp sem felur í sér tillögu um fjölgun héraðs- og hæstaréttardómara. Fyrir nefndinni kom fram að verið er að vinna að því í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og forsætisráðuneyti að meta hve mikil þörf er á fjölgun dómara og aðstoðarmanna dómara. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir þeirri fjölgun eða frumvarpi til fjáraukalaga en fyrir nefndinni kom fram að verið er að vinna að tillögum sem munu koma til meðferðar fjárlaganefndar. Þá er einnig gert ráð fyrir því að fram komi breytingartillögur við frumvarp til fjáraukalaga vegna kostnaðar við störf saksóknara Alþingis.

Forsætisráðuneyti.
    Heildargjöld forsætisráðuneytis árið 2011 eru áætluð 936 m.kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur að fjárhæð 32 m.kr. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 904 m.kr. Niðurskurður hjá aðalskrifstofu ráðuneytisins er 7,6%.
    Fyrir nefndinni kom fram að verið er að ljúka vinnslu þeirra mála sem óbyggðanefnd var með til meðferðar þegar bankahrunið varð og ákveðið var að fresta því að taka ný mál til meðferðar. Starfsmenn nefndarinnar hafa verið færðir í önnur verkefni innan stjórnarráðsins til þess að halda í sérhæfða þekkingu þeirra.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
    Heildargjöld dómsmála- og mannréttindaráðuneytis árið 2011 eru áætluð 25.185 m.kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur að fjárhæð 1.678 m.kr. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 19.564 m.kr. og lækka um 302 m.kr. að raungildi frá fjárlögum þessa árs.
    Á fundum nefndarinnar gerði fulltrúi ráðuneytisins grein fyrir því hvernig ráðuneytið hygðist mæta hagræðingarkröfum frumvarpsins en heildarlækkunin á ráðuneytið nemur 7,3% af fjárlögum ársins í ár. Almenn markmið frumvarpsins miðast við 9% hjá stjórnsýslustofnunum og 5% í löggæslu og eru útfærð eftir forgangsröð og áherslum ráðuneytisins sem geta því falið í sér mismiklar skerðingar. Þannig er skorið niður um 3,6% hjá aðalskrifstofu ráðuneytisins, 8,1% hjá héraðsdómstólunum, 4,5% hjá Hæstarétti, 8% hjá Landhelgisgæslunni og 5% hjá lögreglunni.
    Nefndin hefur í álitum sínum til fjárlaganefndar jafnan lagt áherslu á að við þann niðurskurð sem nauðsynlegur er í ríkisútgjöldum sé mikilvægt að standa vörð um grunnþjónustuna í landinu, þ.e. dómstóla, löggæslu og fangelsismál sem eru grundvallarstoðir réttarríkisins. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir tímabundinni aukningu útgjalda til embættis sérstaks saksóknara, þ.e. úr 317 m.kr. á þessu fjárlagaári í 1.178 m.kr. á því næsta til þess að ljúka í árslok 2014 öllum rannsóknum og saksókn mála sem tengjast bankahruninu. Telur meiri hlutinn það mikilvægan hluta þess uppgjörs er fram þarf að fara vegna bankahrunsins og er því sammála þeirri áherslu að ljúka rannsókn mála er tengjast bankahruninu sem fyrst.
    Fyrir nefndinni kom fram að verið er að huga að endurskoðun gjaldtöku við þingfestingu mála og að gjaldtaka verði í meiri tengslum við þá fjárhagslegu hagsmuni sem eru í húfi við viðkomandi mál til þess að mæta þeim útgjaldaauka er hlýst af þeirri fjölgun mála sem ljóst er að munu koma til kasta dómstóla á næstu missirum. Þá kom fram að verið er að leggja mat á þörf á fjölgun dómara og aðstoðarmanna dómara.
    Síðustu ár hafa verið gerðar breytingar á skipulagi lögreglunnar sem og unnar tillögur að fleiri breytingum ásamt því að mikið hefur verið hagrætt í rekstri hennar. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að niðurskurður hjá lögreglunni sé minni en hjá öðrum stofnunum. Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að skoðað áfram hvort unnt sé að styrkja starfsemi lögreglunnar og þar með þjónustuna við borgarana og að við þá vinnu verði m.a. litið til skýrslu sem unnin var fyrir ráðherra um skilgreiningu á grunnþjónustu lögreglunnar.
    Nefndin fjallaði nokkuð um rekstur Landhelgisgæslunnar og kom fram að þrátt fyrir að mikill niðurskurður hefði átt sér stað og reksturinn hefði verið þungur væri staðan ágæt þar sem gæslunni hefur gengið mjög vel að afla tekna erlendis frá vegna sérverkefna sem gæslan hefði tekið að sér, m.a. fyrir Landamærastofnun Evrópu og eru það sértekjur upp á 7–800 m.kr. í ár sem mynda nálægt 300 m.kr. rekstrarafgang sem mun nýtast á næsta ári. Kom fram að það hefði m.a. gert gæslunni kleift að halda starfsfólki í þjálfun og komið í veg fyrir uppsagnir. Þá voru einnig hugmyndir um að nýta tekjuaukann til leigu á þyrlu svo að gæslan geti tekið að sér fleiri sérverkefni.
    Nefndin ræddi þær breytingar sem hafa orðið á liðnum Opinber réttaraðstoð en sá liður hefur að mestu færst til félags- og tryggingamálaráðuneytis með málum er varða greiðsluaðlögun sem hafa færst til nýs embættis umboðsmanns skuldara.
    Framsetning frumvarpsins er ekki í samræmi við þá lagabreytingu er gerð var í september sl. á lögum um Stjórnarráð Íslands og kveður á um sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis við samgönguráðuneyti í nýtt innanríkisráðuneyti um næstu áramót. Nefndin fjallaði ekki sérstaklega um þá sameiningu við meðferð fjárlaganna en fyrir liggur að verið er að vinna að undirbúningi þeirra breytinga hjá viðkomandi ráðuneytum auk þess sem gert er ráð fyrir því að í meðförum Alþingis verði lagðar til breytingar á frumvarpinu til samræmis við hana. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að stofnanaumhverfi viðkomandi ráðuneyta verði endurskoðað við sameininguna með áherslu á að efla þjónustuna við borgarana, auka skilvirkni og betri nýtingu fjármuna.
    Arndís Soffía Sigurðardóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 19. nóv. 2010.

Róbert Marshall. form.,
Arndís Soffía Sigurðardóttir, með fyrirvara,
Auður Lilja Einarsdóttir,
Valgerður Bjarnadóttir,
Þráinn Bertelsson.




Fylgiskjal VI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Menntamálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar og gert tillögu að skiptingu á einstökum safnliðum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010. Nefndin fékk á sinn fund Gísla Þór Magnússon, Auði B. Árnadóttur, Mörtu Guðrúnu Skúladóttur og Jenný Báru Jensdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Kristínu Ingólfsdóttur frá Háskóla Íslands, Ara Kristin Jónsson frá Háskólanum í Reykjavík, Magnús Árna Magnússon frá Háskólanum á Bifröst, Stefán B. Sigurðsson frá Háskólanum á Akureyri, Ágúst Sigurðarson frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Skúla Skúlason frá Háskólanum á Hólum, Hjálmar H. Ragnarsson frá Listaháskóla Íslands, Yngva Pétursson frá Menntaskólanum í Reykjavík, Má Vilhjálmsson og Hjördísi Þorgeirsdóttur frá Menntaskólanum við Sund, Gísla Ragnarsson frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Örlyg Karlsson frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og Hörð Ó Helgasson frá Fjölbrautaskóla Vesturlands, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Ragnar Bragasson, Björn Th. Árnason, Karen Maríu Jónsdóttur og Jón Rafnsson frá Bandalagi íslenskra listamanna og Stefaníu G. Kristinsdóttur og Þorvaldur Jóhannsson frá Þekkingarneti Austurlands.
    Heildarútgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2011 eru áætluð 63.846,7 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 7.351,7 m.kr., sem nema 11,5% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 56.495 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 54.894,1 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 1.600,9 m.kr. innheimtar af ríkistekjum.
    Útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins dragast saman um 3.899,9 m.kr. á verðlagi fjárlaga 2010 en þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum verðlags- og gengisbreytingum lækka útgjöldin um 3.868,3 m.kr. á milli ára eða sem svarar til 6,4%. Eins og fram kemur í frumvarpinu má skipta breytingum á útgjöldum í fjóra þætti. Í fyrsta lagi eru gerðar ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 3.627,5 m.kr. í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í öðru lagi koma til nokkrar nýjar útgjaldaskuldbindingar sem nema 349,3 m.kr. Í þriðja lagi falla niður tímabundin framlög til ýmissa verkefna að fjárhæð 621,7 m.kr. Að lokum bætast við verðlagsbreytingar ársins 2011, sem áætlaðar eru til hækkunar 486,3 m.kr. og til lækkunar, vegna gengisáhrifa, 454,7 m.kr. eða nettóhækkun sem nemur 31,6 m.kr. Rekstrargjöld mennta- og menningaráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 38.965,3 m.kr. og lækka þau frá gildandi fjárlögum um 1.906,9 m.kr eða 7,2% af rekstrarveltu að raungildi.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að nefndinni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur á síðustu árum gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um ýmis verkefni. Nefndin vekur athygli á að með hliðsjón af yfirvofandi niðurskurði er mikilvægt að standa vörð um starfsemi þekkingarsetra um land allt og hvetur til þess að samræmd stefna verði mörkuð um framlög til rekstrar þeirra. Nefndin bendir sérstaklega á að mikilvægt sé að treysta rekstrargrundvöll þeirra þekkingarsetra þar sem samningur við stjórnvöld rennur út um áramót en hefur ekki verið endurnýjaður.
    Heildarfjárveiting til háskóla og rannsókna lækkar um 1.539 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar verðlagsbreytingar sem nema 182,2 m.kr. Samkvæmt frumvarpinu eru fjárframlög til háskóla og háskólastofnana lækkuð á bilinu 5% til 9% en fjárlög í samkeppnissjóði á sviði rannsókna eru lækkuð minna, eða um 4%. Áform eru uppi um að auka samstarf og samnýtingu opinberu háskólanna og mynda svokallað samstarfsnet þeirra en aðrir háskólar eru einnig hvattir til að auka samstarf sín á milli. Menntamálanefnd styður viðleitni til samstarfs og sameiningar háskóla á Íslandi með það fyrir augum að bæta nýtingu opinbers fjár til háskólastigsins, auka sérhæfingu og verkaskiptingu háskólanna og efla háskólasamfélagið á Íslandi til framtíðar. Hins vegar lýsir nefndin yfir áhyggjum af niðurskurði fjárveitinga til háskóla, rannsóknarsjóða og rannsóknarstarfsemi sem eru grundvöllur nýsköpunar og forsenda endurreisnar hagkerfisins. Nefndin telur einnig brýnt að huga sérstaklega að eflingu verk- og raungreinamenntunar í landinu þar sem skortur er á vinnuafli með slíka menntun til starfa í helstu vaxtargreinum atvinnulífsins, ekki síst hugverkaiðnaðinum. Þrátt fyrir almennan niðurskurð á fjárlögum ársins 2011, vill nefndin leggja áherslu á að brýnt er að forgangsraða í þágu þeirra greina sem veitt geta samfélaginu viðspyrnu til nýrrar atvinnusóknar. Nefndin leggur jafnframt til að hugað verði að því að fjölga störfum í menningargeiranum með samstarfi stofnana, frjálsra félagasamtaka og einkaaðila við Atvinnuleysistryggingarsjóð þess efnis að aðilar sem ráða til sín starfsfólk af atvinnuleysisskrá fái endurgreiddan hluta af tryggingargjaldi, sem stendur undir fjármögnun sjóðsins.
    Heildarfjárveiting til framhaldsskóla lækkar um 1.197,7 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar og lækka framlögin að jafnaði um 5,8% frá fjárlögum 2010. Við útfærslu hagræðingar á framhaldsskólastigi var reynt að hlífa rekstri framhaldsskóla í því skyni að tryggja sérstaklega nemendum á fræðsluskyldualdri og nemendum á starfsbrautum inngöngu í framhaldsskóla. Þess í stað var gengið á safnlið málaflokksins með því t.d. að draga verulega úr framlagi til námsefnisgerðar og fella niður framlag til sjálfsmatskerfis í framhaldskóla. Nefndin hefur fjallað ítarlega um stöðu framhaldsskóla og ljóst er að niðurskurður undanfarinna ára hefur tekið sinn toll. Einnig telur nefndin að endurskoða þurfi þá miklu hækkun sem orðið hefur á leigusamningum við Fasteignir ríkissjóðs hjá þeim framhaldsskólum sem eru í húsnæði á vegum ríkisins en þessi hækkun eykur verulega á vanda framhaldsskólanna og skerðir enn það hlutfall fjárveitinga þeirra sem rennur til kennslu. Það er álit nefndarinnar að leita verði allra leiða til að draga úr niðurskurði á framlögum til framhaldsskóla, þar sem vandséð er að hægt verði að verja grunnþjónustu þeirra miðað við óbreyttar forsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Heildarfjárveiting til Lánsjóðs íslenskra námsmanna lækkar um 713 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar. Þessi lækkun skýrist af því að lánþegar á Íslandi reyndust vera 10% færri en áætlað hafði verið við gerð fjárlaga yfirstandandi árs.
    Heildarfjárveiting til málefnaflokka á sviði menningar, lista, íþrótta og æskulýðsmála lækkar um 632,1 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar og lækka framlögin að jafnaði um 9% frá fjárlögum 2010. Leitast var við að draga úr framlögum til styrkja og verkefna sem eru ekki lögbundin fremur en að skerða lögbundna starfsemi og grunnstarfsemi stofnana sem ríkið rekur. Menntamálanefnd leggur sérstaka áherslu á að framlög til Kvikmyndasjóðs Íslands verði endurskoðuð til hækkunar þar sem sjóðurinn varð fyrir mun meiri niðurskurði en flestar stofnanir menningargeirans í fjárlögum ársins 2010. Sjóðurinn er lífæð kvikmyndagerðar í landinu en styrkir úr sjóðnum eru jafnframt forsenda þess að íslenskir kvikmyndagerðarmenn geti sótt viðbótarfjármagn til útlanda. Athuganir kvikmyndaframleiðanda hafa leitt í ljós að hver króna sem veitt er til kvikmyndagerðar á Íslandi laðar til sín nærri tvöfalt meira fjármagn í formi erlendra styrkja með tilheyrandi veltuáhrifum fyrir hagkerfið, að ógleymdu mikilvægi íslenskra kvikmynda sem sýndar eru á erlendum vettvangi fyrir ímynd lands og þjóðar og aukinn ferðamannastraum til landsins.
    Menntamálanefnd vekur sérstaka athygli á því að framlög til verkefnisins Tónlist fyrir alla á lið 02-982-1.27 hafa verið felld niður. Nefndin vill eindregið hvetja til þess að sú ákvörðun verði endurskoðuð þar sem verkefnið hefur um árabil boðið grunnskólanemum upp á fjölbreytta tónlist í flutningi atvinnutónlistarfólks úr mismunandi greinum og á síðastliðnu ári nutu 10.000 þúsundur nemendur ríflega 100 tónleika víða um land. Nefndin vill árétta að mikilvægt er að styðja við bakið á kynningarmiðstöðvum listgreina og birtist það m.a. í tillögum nefndarinnar varðandi ráðstöfun fjármagns af safnliðum til kynningarmiðstöðva sviðslista, hönnunargreina og tónlistar.
    Nefndin leggur til að unnin verði fagleg úttekt á starfi æskulýðssamtaka á landinu er feli í sér yfirlit um ráðstöfun opinbers fjár til málaflokksins og mat á þeim árangri sem fjárveitingarnar hafa skilað ungu fólki á Íslandi. Nauðsynlegt sé að þeir fjármunir sem varið er til þessa málaflokks nýtist æsku landsins sem best.
    Nefndinni bárust 138 umsóknir um fjárveitingar af safnliðum og komu 49 umsækjendur á fund nefndarinnar. Nefndin áréttar það sem komið hefur fram í álitum menntamálanefndar um fjárlög síðustu ára að nauðsynlegt er að fyrirkomulag við úthlutun fjárveitinga af safnliðum verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Tryggt verði að úthlutun fjármuna verði byggð á faglegum forsendum, gagnsæi, svæðisbundnum þörfum og virku eftirliti með nýtingu fjármuna.
    Nefndin leggur til að 39 umsækjendur fái styrk. Mikill niðurskurður er á framlögum til safnliða, sem nemur um 42% milli ára, og er ljóst að ekki er hægt að verða við nema litlum hluta beiðna. Má þar til dæmis nefna safnlið 02-982-1.90, Listir framlög, þar sem einungis 11,6 m.kr. eru til ráðstöfunar en umsóknir nema 154,7 m.kr. Við mat á umsóknum lagði nefndin sérstaka áherslu á að styrkja verkefni sem stuðla að menntun og menningariðkun barna og unglinga og nýsköpun, eru ætluð almenningi, skapa atvinnutækifæri eða ýta undir verðmætasköpun. Einnig lagði nefndin áherslu á hve mikilvægt framlagið er fyrir framgang verkefnisins og hvort framlagið sé forsenda fyrir öðrum styrkjum. Nefndin vísar nokkrum umsóknum til frekari umfjöllunar og afgreiðslu í fjárlaganefnd. Þar ber fyrst að telja umsókn Leikfélags Reykjavíkur þar sem óskað er eftir margföldu ráðstöfunarfé nefndarinnar á sviði lista. Augljóst er að nefndin er ekki í fær um til að veita styrki af þeirri stærðargráðu og vísar umsókninni til afgreiðslu fjárlaganefndar. Nefndin vísar jafnframt til fjárlaganefndar umsókn Handverks og hönnunar sem sækir um 20 millj.kr. framlag af fjárlagaliðnum: Ýmis framlög þar sem 47,5 millj.kr. eru til ráðstöfunar. Þá vísar nefndin umsókn Iceland Airwaves til fjárlaganefndar með þeirri ábendingu að hún verði metin með hliðstæðum hætti og alþjóðlegar hátíðir á vegum annarra listgreina, svo sem Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF og Bókmenntahátíð í Reykjavík, þar sem lögð er áhersla á að kynna verk íslenskra listamanna ásamt úrvali erlendra listamanna, fyrir innlendum og erlendum gestum.
    Nefndin leggur áherslu á að móta þurfi stefnu um það á hvaða forsendum skuli meta umsóknir um rekstrarstyrki til félagasamtaka og annarra einkaaðila á sviði menningar, lista, æskulýðs- og íþróttamála. Nefndin telur að alla jafna eigi að leggja áherslu á verkefnastyrki fremur en styrki til almenns rekstrar. Hins vegar telur nefndin að þegar tilefni þykir vera til að veita rekstrarstyrki eigi að útfæra þá í sérstökum þjónustusamningum til nokkurra ára, þar sem réttindi og skyldur aðila eru útlistaðar. Slíkt fyrirkomulag hefur í för með sér aukið aðhald fyrir báða aðila og veitir viðkomandi styrkþegum svigrúm til að skipuleggja starfsemi sína lengra fram í tímann.
    Tillögur nefndarinnar um skiptingu safnliða koma fram í sérstöku fylgiskjali.

Alþingi, 22. nóv. 2010.

Skúli Helgasson,
Lilja Mósesdóttir,
Þráinn Bertelsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Oddný Harðardóttir, með fyrirvara,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.




Fylgiskjal VII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti).

Frá 1. minni hluta menntamálanefndar.



    Fyrsti minni hluti tekur að mestu leyti undir álit meiri hlutans. Hann getur þó ekki fellt sig við þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við gerð fjárlaga og þá einkum úthlutun á svokölluðum safnliðum sem hafa í gegnum árin ekki byggst á faglegum forsendum, verið tilviljunarkennd og jafnvel stjórnast af sérhagsmunagæslu.
    Fyrsti minni hluti leggur til að fyrirkomulag við úthlutun fjármuna af safnliðum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið verði endurskoðað og gerðar á því róttækar breytingar hið fyrsta svo að fagleg sjónarmið ráði för. Lagt er til að fjármunir á safnliðum 02-919-1.90, 02-919-1.98, 02-919-6.90, 02-919-6.45, 02-982-1.90, 02-983-1.11 og 02-999- 1.90 verði færðir í fjárlagaliði sjóða sem hafa það lögbundna hlutverk að styrkja lista- og menningarstarfsemi. Sjóðunum ber að meta umsóknir á faglegum forsendum og meta allar umsóknir á sama kvarða. Auk þess hafa sjóðirnir ákveðið eftirlitshlutverk og eiga að ganga eftir því að fjármununum sé varið í þau verkefni sem þeim er úthlutað til en eftirlit af hálfu menntamálanefnar hefur ekki verið fyrir hendi. Bókmenntasjóður styrkir til að mynda ekki útgáfu bóka sem koma ekki út.
    Sjóðirnir sem um ræðir eru bókmenntasjóður, safnasjóður, húsafriðunarsjóður, tónlistarsjóður, barnamenningarsjóður, fornleifasjóður og Kvikmyndasjóður en einnig má nefna starfsemi atvinnuleikhópa. Eins hafa verið gerðir menningarsamningar við sveitarfélög á landsbyggðinni og mætti nota þessa fjármuni til að efla þá.
    Í svari við fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra sem undirrituð lagði fram um útgáfuverkefni sem fjárlaganefnd hefur styrkt (þskj: 1118, 389. mál á 138. löggjafarþingi) kemur fram að óheyrilegum fjármunum hefur verið varið til ýmissa útgáfuverkefna sem aldrei hafa litið dagsins ljós og eftirlit og eftirfylgni með verkefnunum hefur verið í mýflugumynd.

Alþingi, 18. nóv. 2010.

Margrét Tryggvadóttir.




Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti).

Frá 2. minni hluta menntamálanefndar.



    Menntamálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar. Voru að venju einnig ræddar tillögur að skiptingu á einstökum safnliðum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010.
    Á fund nefndarinnar komu Gísli Þór Magnússon, Auður B. Árnadóttir, Marta Guðrún Skúladóttir og Jenný Bára Jensdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Kristín Ingólfsdóttir frá Háskóla Íslands, Ari Kristinn Jónsson frá Háskólanum í Reykjavík, Magnús Árni Magnússon frá Háskólanum á Bifröst, Stefán B. Sigurðsson frá Háskólanum á Akureyri, Ágúst Sigurðarson frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Skúli Skúlason frá Háskólanum á Hólum, Hjálmar H. Ragnarsson frá Listaháskóla Íslands, Yngvi Pétursson frá Menntaskólanum í Reykjavík, Már Vilhjálmsson og Hjördís Þorgeirsdóttir frá Menntaskólanum við Sund, Gísli Ragnarsson frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Örlygur Karlsson frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, Hörður Ó. Helgasson frá Fjölbrautarskóla Vesturlands, Kolbrún Halldórsdóttur, Ragnar Bragason, Björn Th. Árnason, Karen María Jónsdóttir og Jón Rafnsson frá Bandalagi íslenskra listamanna og Stefanía G. Kristinsdóttir og Þorvaldur Jóhannsson frá Þekkingarneti Austurlands.
    Heildarútgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2011 eru áætluð 63.846,7 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 7.351,7 m.kr., sem nema 11,5% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 56.495 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 54.894,1 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 1.600,9 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins dragast saman um 3.899,9 m.kr. á verðlagi fjárlaga 2010 en þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum verðlags- og gengisbreytingum lækka útgjöldin um 3.868,3 m.kr. á milli ára eða sem svarar til 6,4% lækkunar. Rekstrargjöld mennta- og menningamálaráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 38.965,3 m.kr. og lækka um 1.906,9 m.kr. eða 7,2% af rekstrarveltu að raungildi.
    Heildarfjárveiting til háskóla og rannsóknarstarfsemi lækkar um 1.539 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar verðlagsbreytingar sem nema 182,2 m.kr. Samkvæmt frumvarpinu eru fjárframlög til reksturs háskóla og háskólastofnana lækkuð um 5% til 9% en fjárlög í samkeppnissjóði á sviði rannsókna eru lækkuð minna, eða um 4%. Í máli gesta kom fram að þegar hefði verið gripið til sársaukafullra aðgerða hjá háskólunum vegna skertra fjárframlaga, námsbrautum lokað og álag aukist mjög á starfsfólk. Frekari niðurskurður mundi leiða til uppsagna starfsfólks.
    2. minni hluti lýsir yfir miklum áhyggjum af niðurskurði fjárveitinga til háskóla, rannsóknarsjóða og rannsóknarstarfsemi sem eru grundvöllur nýsköpunar og forsenda endurreisnar hagkerfisins. Í umræðum á Alþingi hefur komið fram skýr vilji þingmanna til sameiningar háskóla á Íslandi með það fyrir augum að bæta nýtingu opinberra fjárveitinga til háskólastigsins, finna nýjar leiðir til vaxtar og þróunar og efla tengsl menntunar og nýsköpunar. Mætti þá skoða sameiningu ríkisháskólanna og einkareknu háskólanna í samræmi við tillögur erlendrar sérfræðinganefndar eða sameiningu háskólanna á landsbyggðinni og háskólanna á höfuðborgarsvæðinu og fækka þeim þannig í tvo til fjóra. Setja þarf á stofn miðlæga stjórnsýslumiðstöð sem gæti þjónað háskólunum á hagkvæman máta. Einnig þarf að starfrækja einn rannsóknarnámsskóla til að brúa bilið á milli háskólanna og gera opinberum rannsóknastofnunum og atvinnulífinu auðveldara að þróa sameiginleg rannsóknarverkefni eða kennslu- og rannsóknarstöður. Nauðsynlegt er að efla tengsl opinberra rannsóknastofnana við háskólana. Framangreindar skipulagsbreytingar ættu að hafa aukna hagkvæmni sem meginmarkmið til að bæta menntun og rannsóknir í skólunum.
    2. minni hluti bendir á að erlenda sérfræðinganefndin taldi sérstaklega þrjú fræðasvið lofa góðu hvað varðar vöxt og sköpun nýrra starfa: jarðvísindi, lífvísindi og skapandi greinar/upplýsingatækni. Þau skilaboð sem felast í breyttu reiknilíkani menntamálaráðuneytisins, þar sem hugsanlega þarf að skerða framlag til verk- og raungreina, eru því illskiljanleg.
    2. minni hluti bendir á mikilvægi háskóla- og þekkingarsetra hringinn í kringum landið og hvetur til aukins samstarfs á milli þeirra og fræðslu- og símenntunarmiðstöðva til að styðja við menntun og atvinnuuppbyggingu í viðkomandi byggðarlögum.
    Heildarfjárveiting til framhaldsskóla lækkar um 1.197,7 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar og lækka framlögin að jafnaði um 5,8% frá fjárlögum 2010. 2. minni hluti telur að erfitt verði að viðhalda framboði og gæðum menntunar í framhaldsskólum nema ákveðnari skref verði tekin í þá átt að stytta nám til stúdentsprófs og endurskipuleggja starf skólanna. Slíkt verður að gerast í samráði við sveitarfélögin, sem fara með málefni grunnskólanna, og stéttarfélög kennara en kjarasamningar kennara stýra mjög miklu um skólastarf.
    Heildarfjárveiting til Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækkar um 713 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar. Þessi lækkun skýrist af því að lánþegar á Íslandi reyndust vera 10% færri en áætlað hafði verið við gerð fjárlaga yfirstandandi árs. 2. minni hluti bendir á að nauðsynlegt er að framfærslugrunnur LÍN verði samræmdur opinberum neysluviðmiðum sem til stendur að kynna nú í desember.
    Heildarfjárveiting til málefnaflokka á sviði menningar, lista, íþrótta og æskulýðsmála lækkar um 632,1 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar og lækka framlögin þannig að jafnaði um 9% frá fjárlögum 2010. Er leitast við að draga úr framlögum til styrkja og verkefna sem eru ekki lögbundin fremur en að skerða lögbundna starfsemi og grunnstarfsemi stofnana sem ríkið rekur. 2. minni hluti tekur undir áskorun meiri hluta menntamálanefndar um að framlög til Kvikmyndasjóðs Íslands verði endurskoðuð til hækkunar. Fyrir þinginu þingsályktunartillaga (þskj. 104 – 98. mál) um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar þar sem lagt var til að mennta- og menningarmálaráðherra endurnýjaði samkomulag um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar. Málið hefur enn ekki hlotið hlaut afgreiðslu.
    Við afgreiðslu safnliða skipti nefndin sér í hópa og tók viðtöl við aðila sem sótt höfðu um fjárveitingu af fjárlagalið 02-984-1.90. Enn og aftur var rætt um að endurskoða þyrfti vinnubrögð við afgreiðslu safnliða og breyta þeim. 2. minni hluti telur að sérfræðingar og/eða sjóðir ættu að vera fastanefndum Alþingis til ráðgjafar og aðstoða við afgreiðslu umsóknanna út frá áherslum sem fastanefndir ákveða. Þannig yrði betur tryggt að úthlutun fjármuna væri byggð á faglegum forsendum, gætt væri gegnsæis, hlúð að svæðisbundnum þörfum og virkt eftirlit með nýtingu fjármuna viðhaft.
    Við úthlutun var fjölda og upphæðum umsókna skipt niður á kjördæmi og skoðað sérstaklega hvort viðtöl skiptu máli við úthlutun styrkja. Um 80% þeirra sem fengu úthlutað höfðu komið í viðtöl. 2. minni hluti lagði einnig áherslu á að úthlutun endurspeglaði fjölda umsókna frá hverju kjördæmi og íbúafjölda hvers svæðis auk svæðisbundinna þarfa.
    2. minni hluti gerir ekki athugasemdir við tillögur meiri hluta nefndarinnar um skiptingu safnliða en ítrekar mikilvægi þess að núverandi fyrirkomulag verði endurskoðað fyrir vorið 2011.

Alþingi, 23. nóv. 2010.

Eygló Harðardóttir.




Fylgiskjal IX.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 21. október sl. Nefndin fékk á sinn fund Einar Gunnarsson og Pétur Ásgeirsson frá utanríkisráðuneyti. Nefndinni barst einnig minnisblað frá utanríkisráðuneytinu um þróun útgjalda ráðuneytisins frá haustinu 2008 og enn fremur greinargerð frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
    Í minnisblaði utanríkisráðuneytisins kemur m.a. fram hvernig brugðist hefur verið við niðurskurði síðustu ára með fækkun útsendra starfsmanna og lokun sendiskrifstofa. Frá árinu 2008 hefur útsendum starfsmönnum fækkað úr 62 í 54 og þremur sendiskrifstofum hefur verið lokað. Meiri hluti nefndarinnar telur óhjákvæmilegt við núverandi aðstæður að draga saman seglin í utanríkisþjónustunni en leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess fyrir Ísland að halda góðum tengslum við samstarfsþjóðir á alþjóðavettvangi, ekki síst á erfiðleikatímum eins og þeim sem nú ganga yfir.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að fjárveiting til utanríkisráðuneytis árið 2011 nemi um 10.933 m.kr. á rekstrargrunni sem samsvarar um 8% lækkun frá fjárlögum 2010. Í frumvarpinu segir að útgjaldabreytingum milli ára megi skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi verða gerðar ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 800 m.kr. í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin hefur sett í áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í öðru lagi er um að ræða ýmsar breytingar á útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2011 en þær nema 656,7 m.kr. Á móti því vega, í þriðja lagi, tímabundin framlög til ýmissa verkefna sem falla niður og nema 144 m.kr. Nettóhækkun vegna breytinga á útgjaldaskuldbindingum er því alls 512,7 m.kr. Loks bætast við verðlags- og gengisbreytingar ársins 2011, sem eru áætlaðar 665,3 m.kr. til lækkunar, þannig að heildargjöldin verða um 10.933 m.kr.
    Gert er ráð fyrir að framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) nemi um 1.235. m.kr. á næsta ári og nemur lækkunin um 10,5% frá fjárlögum 2010 samkvæmt frumvarpinu. Að sama skapi er gert ráð fyrir að framlög til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi nemi um 1.269 m.kr. sem er um 18,5% lækkun frá fyrra ári. Frá árinu 2008–2011 mun lækkun fjárveitinga til ÞSSÍ nema um 34%. Hafa ber í huga að allar skuldbindingar stofnunarinnar eru í bandaríkjadölum en ef litið er á þetta sama tímabil út frá gengi bandaríkjadals nemur lækkun fjárveitinga um 52%. Meiri hlutinn ítrekar það álit nefndarinnar sem fram hefur komið við vinnslu fjárlaga fyrir árin 2009 og 2010 að þrátt fyrir óhjákvæmilegan niðurskurð nú skuli leggja áherslu á að til frambúðar verði áfram unnið að því markmiði stjórnvalda að framlög til þróunarmála verði 0,35% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað sér er gert ráð fyrir að framlag Íslands til þróunarmála lækki í um 0,2% af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Meiri hlutinn telur að hér sé komið að sársaukamörkum og að ekki verði gengið lengra í niðurskurði til þróunarmála.
    Allnokkur aukning er á framlögum til alþjóðastofnana, sem m.a. helgast af gengisþróun og aukningu aðildargjalda. Sérstaklega er vakin athygli á aukningu útgjalda vegna hlutdeildar Íslands í NATO, einkum vegna nýrra höfuðstöðva bandalagsins, og telur meiri hlutinn rétt að stjórnvöld leiti leiða til að minnka þann kostnað í ljósi efnahagsaðstæðna hér á landi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 889 m.kr. fjárveitingu til Varnarmálastofnunar og nemur það 8,2% lækkun frá fjárlögum ársins 2010. Meiri hluti nefndarinnar telur að í ljósi þess að stofnunin verður lögð niður um næstu áramót samkvæmt lögum nr. 98/2010 beri að auðkenna þennan lið frumvarpsins varnarmálum en ekki Varnarmálastofnun. Meiri hlutinn telur að í ljósi fyrirheita um hagræðingu við niðurlagningu Varnarmálastofnunar séu það vonbrigði að ekki hafi náðst fram meiri sparnaður í málaflokknum og telur að ganga megi lengra í þeim efnum en frumvarpið gerir ráð fyrir. Meiri hlutinn minnir á að við flutning þeirra verkefna Varnarmálastofnunar sem áfram verður sinnt, t.d. til Landhelgisgæslu Íslands, lögreglunnar og Flugstoða, beri einkum að hafa fjárhagslegan ávinning að leiðarljósi. Því þarf að meta hvað einstakir valkostir í kjölfar niðurlagningar Varnarmálastofnunar skila mikilli hagræðingu áður en endanleg ákvörðun er tekin um framtíðarvistun verkefna. Meiri hlutinn leggur til að framlag til varnarmála í frumvarpinu verði lækkað um a.m.k. 65 m.kr. eða sem nemur upphæð viðbótarframlags vegna upplýsingamála í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sem nefndin gerir tillögu um, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 150 m.kr. fjárveitingu í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Það er lækkun um 100 m.kr. miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Nefndinni hefur borist afrit af bréfi utanríkisráðuneytisins til fjárlaganefndar frá 13. október sl. þar sem fjallað er um fjárframlög til frjálsra félagasamtaka vegna upplýsingagjafar um Evrópusambandið. Áréttað skal að í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu var lögð sérstök áhersla á mikilvægi upplýsingamiðlunar í samningaferlinu og að séð yrði til þess að fjármunir verði til ráðstöfunar þannig að félagasamtök sem málið varðar geti með beinum hætti tekið þátt í opinberri umræðu og miðlað upplýsingum um málið. Sérstakur upplýsingahópur skipaður fjórum nefndarmönnum úr utanríkismálanefnd hefur um nokkurt skeið unnið að því að móta tillögu um útfærslu á styrkveitingum til slíkra aðila. Tillaga hópsins er til umfjöllunar í nefndinni og á grundvelli hennar leggur meiri hlutinn til að 65 m.kr. framlagi verði varið til upplýsingamála í fjárlögum 2011 og að framlög til varnarmála verði lækkuð að sama skapi. Þessi tillaga er þó gerð með fyrirvara um að endanleg ákvörðun nefndarinnar um fyrirkomulag upplýsingamála verði í þessa veru.

Alþingi, 17. nóv. 2010.

Árni Þór Sigurðsson, form.,
Valgerður Bjarnadóttir, varaform.,
Helgi Hjörvar,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Birgitta Jónsdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir.




Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti).

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010.
    Markmið við gerð fjárlagafrumvarpsins um samdrátt í rekstrarútgjöldum 2011 voru að ná fram 9% lækkun á veltu stjórnsýslu- og eftirlitsstofnana, 7,5% hjá háskólum og 5% hjá framhaldsskólum, heilbrigðisstofnunum, stofnunum fyrir fatlaða og lögregluembættum.
    Nefndin fékk á sinn fund Arndísi Á. Steinþórsdóttur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Svein Margeirsson og Kristin Kolbeinsson frá Matís ohf., Karítas Margréti Jónsdóttur og Eyþór Björnsson frá Fiskistofu, Ólaf K. Ólafs og Skúla Bjarnason frá Lífeyrissjóði bænda, Kjartan Ólafsson og Jón G. Guðbjörnsson frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Jóhann Sigurjónsson og Vigni Thoroddsen frá Hafrannsóknastofnuninni og Jón Gíslason og Stefán Guðmundsson frá Matvælastofnun auk þess sem nokkur fjöldi gesta kom til fundar við nefndina vegna umsókna um fjárveitingu af safnliðum.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að heildarútgjöld sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis árið 2011 eru áætluð 20.380 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 1.742,3 m.kr. en þær nema 8,5% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 18.637,7 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 15.968,2 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 2.669,5 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 3.830,5 m.kr. og lækka því um 591,1 m.kr. milli ára. Rekstrarfjárveitingar flestra stofnana og verkefna sem heyra undir ráðuneytið eru lækkaðar alls um 349,1 m.kr. vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Við þessa hagræðingu hefur ýmsu verið forgangsraðað þannig að ekki er um flatan niðurskurð að ræða. Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 337,9 m.kr. og verða 14.662,8 m.kr. Loks er gert ráð fyrir að skuldbindandi samningar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gert nemi um 10.634,0 m.kr. á yfirstandandi ári, samtals munu samningarnir því nema um 53,9% af heildarútgjöldum ráðuneytisins á árinu 2011.
    Samkvæmt fjárlögum ársins 2010 fékk Lífeyrissjóður bænda framlög úr ríkissjóði samtals að fjárhæð 178 m.kr. Hefur sjóðurinn tekið við slíkum framlögum í árafjöld. Ekki er að sjá að sjóðnum sé ætlað framlag úr ríkissjóði á árinu 2011. Kemur þannig fram í athugasemdum við greinargerð frumvarpsins að gert sé ráð fyrir því að framlög til sjóðsins falli niður og að slík framlög hafi hingað til verið veitt án laga- eða samningsskyldu. Á fundi nefndarinnar kom fram hjá fulltrúum sjóðsins að framlög ríkissjóðs hafi staðið undir 8% lögbundnu framlagi launagreiðenda í sjóðinn. Þar sem slíkt framlag félli niður væri sjóðurinn tilneyddur til þess að innheimta 8% framlag launagreiðenda af bændum sjálfum og að bændum hafi þegar verið tilkynnt um að svo mundi málum verða háttað. Þá kom einnig fram að framlagið í sjóðinn hafi oft verið notað sem óformlegt gagngjald í við gerð búvörusamninga á milli ríkisstjórna og samtaka bænda. Telur sjóðurinn því að í frumvarpinu felist í raun að einhliða sé horfið frá samningsskuldbindingu af hálfu ríkissjóðs. Meiri hlutinn bendir á að fjárstjórnarvaldið er í höndum Alþingis og hafa dómstólar staðfest að samningar stjórnvalda sem fela í sér eigna- eða fjárstjórn eru, hvað gildi varðar, í raun gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þó telur meiri hlutinn rétt að nefna sérstaklega það sjónarmið sem fram kom hjá fulltrúum sjóðsins að bændur verði fyrir tekjuskerðingu sem nemur þeirri fjárhæð sem þeir þurfa nú að hefja að greiða í sjóðinn á grundvelli lagaskyldu. Þá telur meiri hlutinn verulega hættu á að tekjuskerðingin leiti út í almennt verðlag búvara sem hafi svo aftur áhrif á kjör heimila, beint í gegnum vöruverð og óbeint í gegnum verðbólgu og verðbætur. Loks vekur meiri hlutinn sérstaka athygli á því að fulltrúar sjóðsins telja hann fjárhagslega sterkan og að fall íslensku bankanna hafi komið minna við hann en marga aðra íslenska lífeyrissjóði. Af þeim sökum hafi sjóðurinn ekki þurft að skerða réttindi sjóðsfélaga.
    Framlög til Hafrannsóknastofnunarinnar lækka frá síðasta fjárlagaári um 123 m.kr. að raungildi samkvæmt frumvarpinu. Á fundi nefndarinnar kom fram hjá fulltrúum stofnunarinnar að mögulega yrði fyrirhuguðum niðurskurði fjárframlaga mætt með því að færa verkefni rannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar yfir á önnur rannsóknarskip og leggja Bjarna Sæmundssyni. Þetta mundi hafa í för með sér færri úthaldsdaga og þar með minni rannsóknir á uppsjávarfiski auk þess sem þátttöku í bergmálsmælingum á karfa í Grænlandshafi yrði hætt. Gert væri ráð fyrir að fækka í áhöfnum rannsóknarskipa um 10–12 manns auk þess sem laun annarra starfsmanna, er tengjast úthaldi skipa, munu lækka. Þá muni haustrall stofnunarinnar falla niður.
    Fjárveiting til Fiskistofu nemur 721,7 m.kr. samkvæmt frumvarpinu og lækkar að raungildi um 65,7 m.kr. frá fjárlögum 2010. Á fundi nefndarinnar kom fram að lækkuninni verði mætt með því að draga úr launakostnaði, m.a. með lækkun launa, og kostnaði við kaup á rekstrarfjármunum. Töldu fulltrúar Fiskistofu að stofnunin væri komin að þolmörkum hvað varðar fjölda starfsmanna í ljósi þeirra verkefna sem henni er skylt að inna af hendi, ekki væri ráðið í störf sem losnuðu og því væri verkefnum þeirra starfsmanna sem láta af störfum ráðstafað til annarra starfsmanna. Bentu fulltrúar stofnunarinnar á að þeir eygðu möguleika á að auka sértekjur stofnunarinnar með því að hækka gjöld fyrir útgáfu almennra veiðileyfa sem ekki hafa hækkað frá 1999 og því ekki fylgt breytingum á almennu verðlagi. Þá kom fram að niðurskurður stofnunarinnar mundi ekki koma niður á fjölda starfa á vegum hennar á landsbyggðinni.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2011 er gert ráð fyrir að fjárveiting til Framleiðnisjóðs bænda muni lækka um 133 m.kr. að raungildi frá fjárlögum 2010. Á fundi nefndarinnar kom fram að sjóðurinn hyggist mæta þessum mikla niðurskurði fjárframlaga með því að draga úr framlögum sínum til rannsóknartengdra verkefna og einbeita sér að nýsköpun í dreifbýli. Var á það bent að rannsóknartengd verkefni væru á málefnasviði menntamálaráðuneytis og því eðlilegt að framlög til slíkra verkefna færðust þangað. Töldu fulltrúar sjóðsins sig ekki hafa fengið upplýsingar um það frá stjórnvöldum hvort til stæði að leggja sjóðinn niður en færi svo að ekki yrði veitt fjármagn til hans næstu ár mundi starfsemi hans verða sjálfhætt. Í frumvarpinu kemur einnig fram að sértekjur sjóðsins muni á næsta ári nema 35,6 m.kr. Á fundi nefndarinnar kom fram hjá fulltrúum sjóðsins að þeim væri ekki kunnugt um hvað þarna byggi að baki. Töldu þeir að um arf frá fyrri tíð væri að ræða þegar til sjóðsins runnu svokölluð fóðurbætisgjöld en lagalegur grundvöllur slíkra gjalda væri ekki lengur til staðar og svo hefði verið um nokkra hríð. Vill meiri hlutinn benda á að gera verður breytingar á frumvarpinu hvað þetta varðar.
    Hvað varðar niðurskurð fjárveitinga til stofnana samkvæmt frumvarpinu vill meiri hlutinn árétta sérstaklega gífurlega mikilvægt hlutverk Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir framtíð Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar sem stundi sjálfbærar veiðar. Í máli fulltrúa stofnunarinnar kom fram að stofnunin hefði í raun verið í ákveðinni vörn hvað fjárveitingar varðar öll síðustu ár þar sem verkefni stofnunarinnar hefðu aukist hratt en fjárveitingar ekki fylgt. Þá bentu þeir á að stöðug hækkun olíuverðs hefði haft veruleg kostnaðaraukandi áhrif og íþyngt allri starfsemi. Telur meiri hlutinn rétt að vekja athygli á framangreindu og bendir sérstaklega á viðamikið hlutverk stofnunarinnar sem m.a. kemur fram í 17. gr. laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum. Telur meiri hlutinn að rétt sé að hafa sérstaklega í huga það vægi sem rannsóknir stofnunarinnar hafa við ákvarðanatöku um heildarafla sjávarafla en ekki síður þann grundvöll sem slíkar rannsóknir veita kröfum Íslendinga á alþjóðavettvangi, t.d. hvað varðar veiðar á makríl í fiskveiðilandhelginni. Hvetur meiri hlutinn til þess að við niðurskurð fjárveitinga til Hafrannsóknastofnunarinnar verði tekið tillit til mikilvægs hlutverks stofnunarinnar fyrir rannsóknir á ástandi fiskstofna sem leggja grunn að veiðiráðgjöf stofnunarinnar til stjórnvalda.
    Nefndin tók fyrir skiptingu safnliðar 04-190-1.90, Ýmis verkefni, samkvæmt beiðni fjárlaganefndar. Nefndinni bárust margar umsóknir og tók nefndin á móti nokkrum fjölda gesta í tengslum við safnliðina. Tillögur nefndarinnar um skiptingu safnliðar 04-190-1.90 eru í meðfylgjandi fylgiskjali og leggur nefndin til að safnlið 04-190-1.90 verði skipt samkvæmt sundurliðuninni sem þar er tilgreind. Nefndin ræddi mikilvægi þess að fé sé varið í verkefni sem ekki eru fjárfrek en eru líkleg til atvinnusköpunar og hafði nefndin þau sjónarmið að leiðarljósi við úthlutun. Þá taldi nefndin sér rétt og skylt að líta til þess að ætlunin virðist sú að nokkrum verkefnum verði veitt fé samkvæmt öðrum liðum frumvarpsins. Þannig kom fram í athugasemdum við frumvarpið að ætlunin væri að Beint frá býli, félagi heimavinnsluaðila, yrði úthlutað 6 m.kr. af liðnum 04-190-1.98, ýmis framlög sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þá er ætlunin að veita Vör, sjávarrannsóknarsetri í Ólafsvík 23,2 m.kr. og Sjávarlíftæknisetrinu BioPol ehf. 25 m.kr. af sama lið. Auk þessa er gert ráð fyrir að framlög til Veiðimálastofnunar verði 99,9 m.kr. samkvæmt lið 04-405. Nefndin vekur athygli á því að hún telur að verkefnin Austfirskar krásir og Blóm í bæ 2011 falli undir gildissvið svokallaðra menningarsamninga, samninga um samstarf menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Vestfjörðum, Suðurlandi og Suðurnesjum um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Því ættu umsóknir um fjárveitingar til verkefnanna betur heima hjá menningarráðum Suðurlands og Austurlands. Kýs nefndin að taka það sérstaklega fram að hún telur stöðu Kattavinafélags Íslands það sérstaka að ekki verði hjá því komist að veita fé til félagsins. Félagið á sér langa sögu og ber saga þess vott fórnfýsi og ósérplægni hvað aðbúnað og aðstæður katta varðar. Félagið hefur aldrei notið opinberra styrkja og hafa tekjur og sjálfstæð fjárframlög til félagsins farið minnkandi upp á síðkastið. Af framangreindum sökum sér félagið fram á lokun athvarfs fyrir ketti. Að lokum bendir nefndin á að hún telur að vistfræðirannsóknir á háhitasvæðum á vegum Veiðimálastofnunar eigi undir málefnasvið umhverfisráðuneytisins.
    Það er ljóst að á komandi missirum verður ekki dregið úr þeim niðurskurði sem frumvarpið gerir ráð fyrir og verður mörgum greinum erfiður. Meiri hlutinn ítrekar því mikilvægi þess að við niðurskurðinn sé lögð áhersla á að halda inni verkefnum sem eru mikilvægt framhald á þegar höfnum verkefnum, stuðla að nýsköpun og teljast atvinnuskapandi.
    Björn Valur Gíslason skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    

Alþingi, 15. nóv. 2010.

Róbert Marshall, form.,
Björn Valur Gíslason, með fyrirvara,
Helgi Hjörvar,
Arndís Soffía Sigurðardóttir,
Ólína Þorvarðardóttir.




Fylgiskjal XI.


Álit


         
um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti).

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Sérstaða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við fjárlagagerð felst í því að tveir þættir eru ráðandi í útgjöldum þess. Annars vegar búvörusamningarnir og hins vegar umfangsmikil rannsóknar og þróunarstarfsemi. Sú ákvörðun var lögð til grundvallar við fjárlagagerðina að ekki yrði hróflað við búvörusamningunum. Útgjöld vegna þeirra nema um 53% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Þá hefur almennt verið lögð áhersla á að verja rannsóknar- og þróunarstarfsemi við fjárlagagerðina þótt frá því sé vikið í ráðuneytinu að þessu sinni.
    Ákvörðun Alþingis um að sækja um aðild að ESB hefur veruleg áhrif á starfsemi ráðuneytisins. Ljóst er að málefni á sviði ráðuneytisins verða mjög til umfjöllunar í þeirri vinnu sem nú er hafin. Fjöldi fólks í ráðuneytinu og undirstofnunum þess verður uppteknið við undirbúningsstörf. Ekki er gert ráð fyrir fjármunum til þessa verkefnis. Fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar að þess í stað sé vinnan unnin að nokkru utan hefðbundins vinnutíma, án þess að sérstök greiðsla komi fyrir. Augljóslega mun þetta vinnuálag hafa í för með sér margvíslegan kostnað og öðrum verkefnum verður ekki sinnt á meðan.
    Matís hefur á undanförnum árum aukið umsvif sín. Þannig hefur velta fyrirtækisins aukist úr 800 millj. kr. árið 2007 í 1.200 millj. kr. á þessu ári. Framlög ríkisins jukust á þessum tíma um 60 millj. kr., sem segja okkur að fyrirtækinu hefur tekist að afla sér mjög umtalsverðs viðbótarfjár frá öðrum aðilum. Þetta er umtalsvert meira en hjá ýmsum sambærilegum stofnunum og fyrirtækjum.
    Ljóst er að Fiskistofa mun taka á sig skerðingu eins og aðrar stofnanir. Nauðsynlegt er að benda þó á að stofnunin getur að nokkru bætt sér tekjumissinn með auknum sértekjum sem þeir er þjónustunnar njóta, einkum útgerðirnar, munu þurfa að greiða. Þegar hafa verið kynnt áform í þessa veru.
    Varðandi Hafrannsóknastofnunina gerir frumvarpið ráð fyrir niðurskurði. Að óbreyttu er þá gert ráð fyrir að Bjarna Sæmundssyni verði lagt og dregið úr rannsóknum á uppsjávarfiski. Í þessu sambandi vekur minni hlutinn athygli á nauðsyn rannsókna sem fram fara í samstarfi við aðrar þjóðir, enda ljóst að þar er um að ræða mikla og beina þjóðarhagsmuni. Á þessu ári naut stofnunin talsverðra tekna af úthaldi skipanna utan kjarnastarfseminnar. Á þessu stigi er allt útlit fyrir að þetta breytist á næsta ári. Mikilvægt er að vekja athygli á að Hafrannsóknastofnunin hefur fengið verulegt fjármagn úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins á undanförnum árum. Ekki er ástæða til annars en að ætla að á því verði framhald. Þær upphæðir sem fást úr sjóðnum munu ráða úrslitum um rekstur stofnunarinnar.
    Hvað Matvælastofnun snertir er nauðsynlegt að vekja athygli á auknum kostnaði vegna nýrrar matvælalöggjafar. Fulltrúar stofnunarinnar sem fyrir nefndina komu telja þó að stofnunin muni halda rekstrarumfangi sínu óbreyttu og þurfi ekki að ráðast í teljandi aðhaldsaðgerðir.
    Mjög skýr stefna kemur fram í fjárlagafrumvarpinu varðandi Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Í raun boðar frumvarpið að sjóðurinn verði lagður niður. Fjárveitingar til sjóðsins verða skornar niður um tæp 90% eða um 133 millj. kr. og verða aðeins 15 millj. kr. Sjóðurinn býr svo vel að eiga peningalegar eignir sem nema um 100 millj. kr., sem ætlunin er að ráðstafa á þessu ári. Jafnframt verður gripið til aðhaldsaðgerða. Ekki verður ráðinn framkvæmdastjóri í stað núverandi framkvæmdastjóra sem lætur senn af störfum. Stjórn sjóðsins hyggst ráðstafa fjármunum sjóðsins á þessu ári til verkefna sem bændur standa fyrir, en framlög til rannsókna og þróunarverkefna á vegum háskólanna verða felld niður strax á næsta ári. Þetta mun því hafa áhrif strax á rannsóknarfé landbúnaðarháskólanna. Alvarlegast er þó að með þessari stefnumörkun er í raun horfið frá því að starfrækja sérstakan rannsóknarsjóð fyrir landbúnaðinn án þess að greinin eigi með skilgreindum hætti sérstakan aðgang að annarri fjármögnun til rannsókna- og þróunarverkefna á sviði landbúnaðar. Þessi stefnumörkun verður enn illskiljanlegri í ljósi þess að ekki verða neinir aðrir rannsókna- og þróunarsjóðir fyrir sambærilegri skerðingu. Ljóst virðist því að þessari stefnumörkun er einvörðungu beint gegn landbúnaðinum.
    Alvarlegasta niðurstaðan í fjárlagafrumvarpinu snertir Lífeyrissjóð bænda. Þar er stefnumótunin mjög skýr og afdráttarlaus og segja má að hnykkt sé á þeirri stefnu sem glitti í með fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Framlög ríkisins til lífeyrissjóðsins voru í fyrra skorin niður um 147 millj. kr. og síðan núna um 178 millj. kr. Alls er þetta niðurskurður á tveimur árum um 325 millj. kr. og er með honum fallið frá því að ríkið greiði mótframlag vegna inngreiðslna í Lífeyrissjóð bænda. Mikilvægt er að rifja upp að fjárframlög ríkisins inn í lífeyrissjóðinn eiga sér þá forsögu að þeim var ætlað að koma í stað tiltekinna hækkana á búvörum sem ella hefðu orðið. Nú er hins vegar horfið einhliða frá þessum framlögum. Þetta leiðir til þess að bændur þurfa að taka á sig 8,7% kjaraskerðingu umfram aðrar stéttir komi til þess að þessum greiðslum verði hætt. Þessi ákvörðun hefur ekki áhrif á Lífeyrissjóð bænda, heldur mun koma fram í lækkandi ráðstöfunartekjum bænda þar sem þeir þurfa að reiða fram þetta mótframlag sem greitt hefur verið úr ríkissjóði fram til þessa. Annars vegar er um að ræða 8% skerðingu vegna greiðslu mótframlags og hins vegar kemur til viðbótar 0,7% þynging við útreikning tryggingagjaldsins.
    Þetta er mikið áhyggjuefni. Afar hæpið er að bændur geti bætt sér þetta upp með hærra afurðaverði. Samkeppni er hörð á mörkuðum og þess má geta að dilkakjötsverð til bænda hækkaði lítið sem ekkert nú í haust. Ákvörðun um að fella niður framlög til lífeyrissjóðsins munu því koma beint niður á kjörum bændastéttarinnar.

Alþingi, 19. nóvember 2010.

Einar K. Guðfinnsson,
Jón Gunnarsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson.


Fskj.

Bréf frá Lífeyrissjóði bænda til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.
(12. nóvember 2010.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (07 Félags- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Félags- og tryggingamálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og bréf fjárlaganefndar, dagsett 21. október 2010.
    Nefndin fékk á sinn fund Sturlaug Tómasson, Einar Njálsson og Hermann Bjarnason frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Ástu H. Bragadóttur, Sigurð Erlingsson og Sigurð Geirsson frá Íbúðalánasjóði.
    Heildarútgjöld félags- og tryggingamálaráðuneytis og stofnana þess árið 2011 eru áætluð um 123.458 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 1.982 m.kr. en þær nema 1,6% af heildargjöldum ráðuneytisins. Að teknu tilliti til áhrifa af almennum verðlags- og gengisbreytingum lækka útgjöld ráðuneytisins um 7.352 m.kr. milli ára eða sem svarar til 6%.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 25.574 m.kr. og lækka um 722 m.kr. frá fjárlögum þessa árs. Ríkisstjórnin setti markmið um 5% samdrátt hjá velferðarstofnunum og nemur lækkun hjá félags- og tryggingamálaráðuneyti 5,4% af rekstrarveltu að raungildi en forgangsraðað var eftir stofnunum og verkefnum til að ná lækkuninni fram.
    Neyslu- og rekstrartilfærslur lækka um 6.408 m.kr. og verða 93.341 m.kr. en eru 99.749 m.kr. í fjárlögum ársins 2010. Ekki er áformað að lækka viðmiðunarfjárhæðir bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta en velta þessara liða svarar til um 20% af heildarveltu ríkissjóðs að frádregnum vaxtagjöldum. Almennir tilfærslustyrkir til félagasamtaka og úthlutunarliða lækka um samtals 2.298 m.kr., þar af 98 m.kr. hjá ráðuneytinu en 2.200 m.kr. á þremur stórum tilfærsluliðum. Þar af er 700 m.kr. lækkun á útgjöldum almannatrygginga, 500 m.kr. lækkun á útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og 1.000 m.kr. lækkun á útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs. Jafnframt lækka tilfærslugjöld um 3.996 m.kr. vegna endurmats á áætluðum útgjaldaskuldbindingum. Þar af lækka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 2.100 m.kr. í samræmi við spár um minna atvinnuleysi á næsta ári og útjgöld almannatrygginga lækka um 3.000 m.kr. en þar er tekið mið af þróun útgjalda þessa árs. Til hækkunar á almannatryggingum kemur áætluð 1.000 m.kr. útgjaldaaukning vegna skerðingar almennra lífeyrissjóða á greiðslum til lífeyrisþega.
    Í framsetningu frumvarps til fjárlaga 2011 er ekki gert ráð fyrir sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti sem samkvæmt lögum nr. 121/2010 tekur til starfa 1. janúar 2011. Í frumvarpinu kemur þó fram að tillögur um þær breytingar muni koma fram við 2. umræðu frumvarpsins.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að málefnasviði hennar og áréttar nefndin mikilvægi þess að velferðarkerfið sé sem skilvirkast og að í útgjaldasamdrætti séu þeir varðir sem minnst hafa og eru í mestri þörf fyrir velferðarþjónustu. Nefndin telur rétt að leitað verði leiða til að gera stjórnsýsluna skilvirkari og telur sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti vera til þess fallna að skapa svigrúm til endurmats og hagræðingar. Þá þurfi að horfa heildstætt á störf stofnana og skoða sameiningar þeirra. Jafnframt sé rétt að skoða færslu verkefna til sveitarfélaga sem skapar möguleika á samnýtingu þjónustuþátta og aukinnar hagræðingar auk þess sem mikilvægt er að tryggja nærþjónustu eins og unnt er. Yfirfærsla þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga bíður upp á möguleika til hagræðingar af þessu tagi auk þess sem þjónustan er færð nær notendum hennar. Nefndin hefur kynnt sér stöðu yfirfærslunnar. Samkomulag ríkis og sveitarfélaga liggur fyrir og hefur nefndinni verið tjáð að von sé á frumvarpi þar sem kveðið verði á um nauðsynlegar lagabreytingar vegna yfirfærslunnar. Þá segir í fjárlagafrumvarpi að samþykki Alþingi frumvarp um yfirfærslu málaflokksins verði lagðar til nauðsynlegar breytingar við fjárlagafrumvarpið við 2. umræðu þess.
    Nefndin hefur kynnt sér þær tillögur um niðurskurð í útgjöldum sem liggja fyrir er varða hlut félags- og tryggingamálaráðuneytis í fjárlagafrumvarpinu og telur aðhaldsaðgerðir frumvarpsins til samræmis við þann ramma sem mótaður hefur verið. Nefndin telur þó að frekari skerðingar í tilfærslukerfum séu varhugaverðar við þær aðstæður sem enn eru uppi og bendir á að útfærslur einstakra atriða liggja ekki ljósar fyrir. Nefndin vekur sérstaka athygli fjárlaganefndar á lækkun útgjalda til fæðingarorlofssjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs sem og lækkun til almannatryggingakerfisins. Nefndin varar við niðurskurði í þessum tilfærslukerfum þó hún útiloki ekki að til hans þurfi að koma. Varðandi lækkun greiðslna í tryggingakerfinu telur nefndin að mikilvægt sé að fullreyna samninga við lífeyrissjóðina til að útgjaldalækkun til almannatryggingakerfis þurfi ekki að koma til. Nefndin telur útilokað að skerða grunnfjárhæðir atvinnuleysisbóta og telur að forðast eigi skerðingar á tekjutengdu bótunum í lengstu lög. Enn er beðið eftir nýrri þjóðhagsspá en líkur eru á að atvinnuleysi samkvæmt henni verði minna en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga og að ekki þurfi að koma til skerðinga. Hvað varðar áætlaða 1.000 m.kr. lækkun útgjalda í fæðingarorlofssjóð áréttar nefndin að hún mun ekki styðja frekari skerðingar á fæðingarorlofi fyrr en búið er að meta þau áhrif sem fyrri skerðingar höfðu á töku fæðingarorlofs. Bendir nefndin í þessu sambandi á að 4. mars sl. samþykkti Alþingi beiðni um skýrslu frá félags- og tryggingamálaráðherra um fæðingar- og foreldraorlof þar sem m.a. skyldi tiltaka áhrif skerðinga hámarksgreiðslna fæðingarorlofs á orlofstöku, m.a. með tilliti til lengdar orlofs, kyns foreldris og tekna foreldris, þskj. 727, 411. mál á 138. löggjafarþingi. Nefndin sendi nýlega félags- og tryggingamálaráðherra bréf þar sem hún gerði grein fyrir þeirri afstöðu sinni að áður en farið yrði í umræðu um frekari skerðingar á fæðingarorlofi þyrfti framangreind skýrsla að liggja fyrir svo að unnt yrði að greina áhrif skerðinga á fæðingarorlofið og meta hugsanleg áhrif frekari skerðinga. Þá áréttar nefndin þá afstöðu sem fram kom í nefndaráliti meiri hluta á þskj. 441, 274. mál á 138. löggjafarþingi. Þar segir „Meiri hlutinn áréttar að haldi svo fram sem horfir þarf að taka fjármögnun fæðingarorlofskerfisins alls til gagngerrar endurskoðunar. Því kerfi sem lagt var upp með við gildistöku laganna árið 2000 var ekki tryggt nægt fjármagn og nauðsynlegt er að tryggja kerfinu fjármagn jafnt í góðæri sem kreppu. … Meiri hlutinn áréttar að setja þurfi skýrar reglur um fjármögnun fæðingarorlofs og tryggja hana hvernig sem árar í efnahag þjóðarinnar. Mikilvægt er að standa vörð um fæðingarorlofskerfið og þá sátt sem um það ríkir enda náðist mikilvægur áfangi í jafnréttisbaráttu þegar kerfinu var komið á.“
    Fjárbeiðnir, sem sendar voru til umsagnar félags- og tryggingamálanefndar vegna safnliðarins 07-999-1.90, voru samtals 51 og leggur nefndin til að 30 umsækjendur fá styrk, samtals 90,5 m.kr. Hefur nefndin horft til þess að veita aðkallandi verkefnum styrk og haft þau sjónarmið að leiðarljósi að tryggja dreifingu fjármuna í þá málaflokka sem heyra undir nefndina og leggja sérstaka áherslu á viðkvæma hópa, svo sem börn, ungmenni og hjálparsamtök. Nefndin gerir almennt ekki tillögu um styrk til nýrra verkefna nema sérstök sjónarmið liggi að baki. Nefndin telur nauðsynlegt að fyrirkomulag við úthlutun fjárveitinga af safnliðum verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Telur nefndin eðlilegt að fjármunum renni í sjóð eða sjóði sem vistaðir eru hjá ráðuneytum þar sem fari fram faglegt mat á umsóknum, gerðir samningar um verkefni og úthlutun fjármuna vegna þeirra og eftirlit haft með þeim fjármunum sem greiddir eru úr sjóðunum. Nokkuð misræmi hefur verið á því hvort gerðir hafa verið samningar vegna þeirra verkefna sem fá úthlutað af safnliðum auk þess sem eftirliti með verkefnum og úthlutuðu fé er með mjög misjöfnum hætti hjá ráðuneytum. Nefndin telur mikilvægt að samræma vinnubrögð og koma úthlutun fjármuna í samræmt horf þar sem tryggt er að fram fari mat út frá faglegum forsendum með tilliti til svæðisbundinna þarfa og jafnræði aðila og málaflokka. Slíkt verklag mun að mati nefndarinnar einnig auðvelda eftirlit með nýtingu fjármuna.
    Samfés sækir um styrk til nefndarinnar og telur nefndin eðlilegt að sveitarfélög styrki samtökin auk þess sem umsókn þeirra heyri fremur undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Múlalundur og Sjálfsbjörg sækja um styrk vegna viðgerða og viðhalds á húsnæði. Nefndin áréttar að safnliður 07-999-1.90 er ekki ætlaður til stofnkostnaðar og telur verkefnin heyra undir lið 07-795-5.21, Framkvæmdarsjóður fatlaðra, viðhald fasteigna.
    Nefndin áréttar jafnframt þá skoðun sína sem fram hefur komið í fyrri álitum nefndarinnar um fjárlagafrumvarp að verkefni tengd starfsendurhæfingu eigi heima undir sérstökum lið ráðuneytisins, 07-988-1.10. Stýring á ráðstöfun fjármuna í verkefni af þessu tagi eigi að vera hjá ráðuneyti þar sem fram fer faglegt mat á verkefnum og jafnræðis er gætt um dreifingu eftir landshlutum og verkefnum auk þess sem fylgt er stefnumörkun stjórnvalda og þeirri hugmyndafræði sem mótuð er í ráðuneytinu.
    Táknsmiðjan hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2009 en nefndin fékk upplýsingar um að von væri á honum að viku liðinni. Gerð er tillaga að úthlutun styrks en nefndin áréttar jafnframt að það sé gert með fyrirvara um skil á ársreikningi til fjárlaganefndar.
    Hagsmunasamtök heimilanna sækja um styrk en nefndin gerir ekki tillögu að styrkveitingu enda telur hún umsókn þeirra ekki samræmast þeim áherslum sem hafðar eru að leiðarljósi við skiptingu fjármuna. Nefndin áréttar þó að samtökin hafa beitt sér mjög í samfélagsumræðu, tekið virkan þátt í starfi með stjórnvöldum og veitt góðar ábendingar. Nefndin vísar erindi samtakanna því til fjárlaganefndar.
    Tillögur nefndarinnar um skiptingu safnliðarins koma fram í sérstöku fylgiskjali.
    Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal, Ásmundur Einar Daðason og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu álitsins

Alþingi, 16. nóvember.

Ólafur Þór Gunnarsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson,
Auður Lilja Erlingsdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir.




Fylgiskjal XIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (08 Heilbrigðisráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Heilbrigðisnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem snýr að málefnasviði hennar og gert tillögu að skiptingu á einstökum safnliðum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010.
    Á fund nefndarinnar komu Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra, Sveinn Magnússon, Anna Sigrún Baldursdóttir, Hrönn Ottósdóttir, Dagný Brynjólfsdóttir og Guðríður Þorsteinsdóttir frá heilbrigðisráðuneytinu, Björn Zoëga og Anna Lilja Gunnarsdóttir frá Landspítala, Sigríður Snæbjörnsdóttir, Elís Reynarsson, Þórunn Benediktsdóttir og Sigurður Þór Sigurðarson frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Lúðvík Ólafsson og Svanhvít Jakobsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Magnús Skúlason, Óskar Reykdalsson, Esther Óskarsdóttir og Anna María Snorradóttir frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Jón Helgi Björnsson frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Steingrímur Ari Arason frá Sjúkratryggingum Íslands, Elsa Friðfinnsdóttir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Birna Jónsdóttir og Sólveig Jóhannsdóttir frá Læknafélagi Íslands. Einnig átti nefndin símafundi með Vigni Sveinssyni, Sigurði E. Sigurðssyni og Ólínu Torfadóttur frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Konráð Baldvinssyni frá Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar og Einari Rafni Haraldssyni frá Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Heildarútgjöld heilbrigðisráðuneytis árið 2011 eru áætluð um 103.098 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 5.487 m.kr. en þær nema 5,3% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 97.611 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 96.977 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 634 m.kr. innheimtar af ríkistekjum.
    Vakin er athygli á því að framsetning á útgjöldum ráðuneyta í frumvarpinu hefur verið löguð að flutningi á verkefnum á milli þeirra sem gerð var í fjárlögum yfirstandandi árs m.a. í tengslum við breytta verkaskiptingu Stjórnarráðsins. Þannig hafa útgjaldatölur reiknings liðins ár verið lækkaðar sem nemur veltu verkefna sem fluttust frá ráðuneyti í ár en hækkaðar á sama hátt hjá ráðuneyti sem tók við verkefnum. Útgjöld heilbrigðisráðuneytis vegna þessa lækka um 10.344 m.kr. á árinu 2009 frá því sem fram kemur í ríkisreikningi 2009 vegna verkefna sem flutt hafa verið til annarra ráðuneyta. Er þetta gert til að gefa betri mynd af þróun útgjalda milli ára í viðkomandi ráðuneytum. Í frumvarpinu dragast útgjöld ráðuneytisins saman um 3.818 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2010, en að teknu tilliti til áhrifa almennra verðlags- og gengisbreytinga lækka útgjöldin um 4.762 m.kr. milli ára eða sem svarar til 4,7%. Útgjaldabreytingunum má skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi verða gerðar ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 4.785 m.kr. í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin hefur sett með áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í öðru lagi er um að ræða ýmsar breytingar á útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2011 en þær nema 1.173 m.kr. Þar af eru 9 m.kr. vegna breytinga á fjárheimildum verkefna sem fjármögnuð eru að fullu með ríkistekjum og hafa því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Á móti því vega, í þriðja lagi, tímabundin framlög til ýmissa verkefna sem falla niður og nema 206 m.kr. Nettóhækkun vegna breytinga á útgjaldaskuldbindingum er því alls 967 m.kr. Loks bætast við verðlagsbreytingar ársins 2011, sem áætlað er að lækki útgjöld um 944 m.kr., þannig að heildargjöldin verða 97.611 m.kr.
    Fjárveitingar til verkefna ráðuneytisins markast af því að gert er ráð fyrir umtalsverðum aðhaldsráðstöfunum í frumvarpinu í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Hagræðingarkrafa heilbrigðisstofnana og starfsemi sem telst til heilbrigðisþjónustu er þó þriðja árið í röð nálægt helmingi lægri en hjá almennum stjórnsýslu- og eftirlitsstofnunum. Einnig hefur ríkisstjórnin ákveðið að aðhaldsmarkmið í sjúkratryggingum verði mun lægra en í öðrum málaflokkum eða 3%. Engu síður kalla sparnaðaráformin á árinu 2011 á umtalsverðar hagræðingaraðgerðir og forgangsröðun verkefna. Aðhaldsráðstafanir nema samtals um 4,7% af heildarveltu ráðuneytisins. Ráðuneytið ráðgerir að ná þessu fram með margvíslegum aðhaldsaðgerðum sem ná til allrar starfsemi ráðuneytisins og með forgangsröðun verkefna, en ætlunin er að efla grunnþjónustu einkum á sviði heilsugæslunnar, m.a. með því að efla sálfélagslega þjónustu við börn og ungmenni, efla sjúkraflutninga og auka framlag til heimahjúkrunar þar sem hjúkrunarrýmum er fækkað og ráðgert er að draga úr starfsemi sjúkrasviða heilbrigðisstofnana.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 73.067 m.kr. og lækka um 3.891 m.kr. frá fjárlögum þessa árs þegar undan er skilin 1.199 m.kr. millifærsla fjárheimildar vegna S-merktra lyfja af tilfærslugjöldum yfir á önnur rekstrargjöld til leiðréttingar á rangri framsetningu í fjárlögum 2010. Rekstrarfjárveitingar tiltekinna stofnana og verkefna sem heyra undir ráðuneytið eru lækkaðar alls um 3.888 m.kr. vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Lækkun rekstrarveltu hjá ráðuneytinu nemur 5,1% að raungildi, en ríkisstjórnin setti markmið um 5% samdrátt í rekstrarveltu hjá velferðarstofnunum. Þótt markmiðin hafi verið sett miðað við veltu eru þau útfærð eftir forgangsröð og áherslum ráðuneytisins sem getur falið í sér mismikla skerðingu á fjárveitingum eins og fram kemur í umfjöllun um einstakar stofnanir og verkefni. Hins vegar er gert ráð fyrir auknum eða nýjum útgjaldaskuldbindingum í rekstri sem nema 121 m.kr. Þar munar mest um 89 m.kr. framlag til sjúkraflutninga. Á móti fellur niður fjárveiting sem veitt var til tímabundinna verkefna að fjárhæð 123 m.kr. Loks hækka fjárveitingar til rekstrar um 701 m.kr. vegna verðlagsbreytinga. Neyslu- og rekstrartilfærslur lækka um 708 m.kr. og verða 23.696 m.kr. en eru 24.404 m.kr. í fjárlögum þessa árs. Þar vegur þyngst 400 m.kr. lækkun á framlagi til almennra lyfja, 289 m.kr. lækkun á framlagi til hjálpartækja og 100 m.kr. lækkun á sérfræðilækniskostnaði. Viðhalds- og stofnkostnaður er áætlaður 849 m.kr. og er það 163 m.kr. lækkun milli ára. Framlög lækka um 101 m.kr. til að mæta áformum um samdrátt í ríkisútgjöldum en sett var markmið um 10% lækkun. Þar vegur þyngst 25 m.kr. lækkun á framlagi til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga og 25 m.kr. lækkun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að málefnasviði nefndarinnar og kynnt sér samdráttartillögur heilbrigðisráðuneytisins. Flatur niðurskurður á allar heilbrigðisstofnanir hefði gengið of nærri þeim stofnunum sem tóku á sig mikla skerðingu 2009 og 2010. Meiri hlutinn tekur undir þá forgangsröðun sem fram kemur í frumvarpinu að standa annars vegar vörð um grunnþjónustuna, þ.e. heilsugæsluna og hins vegar sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Meiri hlutinn hefur efasemdir um að sú aukning á fjárframlagi til sjúkraflutninga sem boðuð er í frumvarpinu muni nægja til að mæta aukinni þörf vegna aðhaldsaðgerða. Frumvarpið leggur til ákveðnar skipulagsbreytingar sem gera annars vegar ráð fyrir eflingu heilsugæslunnar eins og mögulegt er en hins vegar er dregið saman á sjúkrasviðum flestra sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Meiri hlutinn telur þó að samráð og frekari greiningar á stöðunni um allt land hefðu gert grunninn undir þá hugmyndafræði sem birtist í frumvarpinu traustari. Forsendur frumvarpsins byggjast á því að metin var þörf fyrir fjölda sjúkrarýma á hverri stofnun miðað við landsmeðallag og fjárframlög metin samkvæmt þeirri greiningu. Framlag á hvert sjúkrarými var samræmt og lækkað sem hefur mikil áhrif á heildarfjárveitingu til hverrar heilbrigðisstofnunar. Enn fremur er hjúkrunarrýmum fækkað og meiri áhersla lögð á heimahjúkrun. Á þeim stofnunum sem gert er að fækka hjúkrunarrýmum ber að gæta þess að sú áhersla skili sér í auknum framlögum til heimahjúkrunar á starfsvæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Meiri hlutinn áréttar að félagsþjónusta sveitarfélaga er mislangt á veg komin. Landfræðilegar, félagslegar og lýðfræðilegar aðstæður sveitarfélaga eru misjafnar og taka þarf tillit til þess þegar farið er í grundvallarbreytingar eins og þær sem frumvarpið leggur upp með. Uppbygging félagsþjónustu sveitarfélaga verður að fara saman við breyttar áherslur í heilbrigðisþjónustu og gefa verður sveitarfélögum svigrúm til að auka og þróa heimaþjónustu samhliða áætlaðri fækkun hjúkrunarrýma vegna aðhaldsaðgerða eða skipulagsbreytinga. Til þess að draga megi úr útgjöldum til heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að beina þjónustu á rétt þjónustustig. Fyrsta stigs þjónusta: heilsugæsla, svæðissjúkrahús, hjúkrunarheimili, hjúkrunarrými stofnana og heimahjúkrun. Annars stigs þjónusta: umdæmissjúkrahús, sérfræðingar og endurhæfingarstofnanir. Þriðja stigs þjónusta: háskóla- og kennslusjúkrahús. Öll þjónustustigin eru mikilvæg og vanti einn hlekkinn þá eykst álag á öðrum og oftast á dýrari þjónustu. Því er mikilvægt að þrátt fyrir fækkun sjúkra- og hjúkrunarrýma þá verði þess gætt að halda samþættingu og þeirri hagræðingu sem í henni er fólgin.
    Við umfjöllun nefndarinnar og í viðtölum við heilbrigðisráðuneytið sem og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana kom fram að nauðsynlegt sé að farið verði í gagngerar skipulagsbreytingar og stefnumörkun um heildstæða framtíðarskipan heilbrigðisþjónustu á landinu öllu. Með slíku endurmati er mögulegt að draga markvisst úr útgjöldum málaflokksins og halda jafnframt uppi gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Það er skoðun meiri hlutans að mikilvægt sé að hafa staðgóða þekkingu á starfsemi hverrar stofnunar fyrir sig, skilgreina hlutverk þeirra og hvað felist í því hlutverki. Óhjákvæmilegt er að flokka sjúkra- og hjúkrunarrými réttilega svo að niðurskurður eða aðhaldsaðgerðir lendi á réttum rekstrarlið og falli að forgangsröðun í frumvarpinu. Komið hefur í ljós að heilbrigðisstofnanir hafa fært fjármagn á milli þjónustusviða innan stofnana eftir því hver þörfin hefur verið hverju sinni og getur því niðurskurður á sjúkra- og hjúkrunarsviðum haft áhrif á aðra starfsemi stofnunarinnar, svo sem heilsugæslu og öldrunarþjónustu. Telur meiri hlutinn að í þeirri vinnu sem fram undan er sé mikilvægt að heilbrigðisstofnanir og stjórnvöld vinni saman að leiðum til að bregðast við niðurskurðarkröfum. Í viðtölum nefndarinnar við forsvarsmenn sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana kom fram sú skoðun að samráð yfirvalda við stofnanirnar hefði ekki verið nóg við undirbúning þeirra niðurskurðarkrafna sem fram koma í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur brýnt að við endurmat og gagngerar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu í landinu sé nauðsynlegt að meiri samvinna sé höfð við þær heilbrigðisstofnanir þar sem miklar breytingar eru fyrirhugaðar. Þar að auki telur meiri hlutinn ekki ráðlegt að ráðist verði í fyrirhugaðar breytingar á þeim hraða sem frumvarpið gerir ráð fyrir heldur verði farið í þá vinnu í aukinni samvinnu við þær stofnanir og sveitarfélög sem í hlut eiga. Meiri hlutinn minnir á fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í velferðarráðuneyti. Telur meiri hlutinn að við þá sameiningu gefist frekar tækifæri til endurskipulagningar og samþættingar í velferðarþjónustu.
    Mjög hörð mótmæli hafa orðið víða um land vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu. Hafa mótmælin beinst að byggðasjónarmiðum, atvinnuöryggi, skerðingu á þjónustu, áhyggjum af öryggi, auknum ferðakostnaði, tilflutningi og fækkun starfa. Meiri hlutinn ítrekar þá skoðun sína að ýmsu má breyta í heilbrigðisþjónustu á landinu en nauðsynlegt er að hægar sé farið í þær breytingar og nánara samstarf sé haft við stjórnendur sjúkrahúsa og aðrar heilbrigðisstofnanir, starfsfólk og notendur. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að ekki sé gengið svo hart fram við niðurskurð að rekstrargrundvelli að fótum sé kippt undan þjónustueiningum.
    Nefndin ræddi uppbyggingu heilsugæslunnar hér á landi en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hún verði styrkt á landsvísu. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að átak verði gert í eflingu heilsugæslunnar. Á fundum nefndarinnar kom fram að skortur á sérfræðimenntuðum heilsugæslulæknum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, leiðir til þess að fólk leitar oftar en ekki beint til sérfræðinga utan heilsugæslunnar. Til að hægt sé að tryggja að sjúklingar leiti á eðlilegt þjónustustig, t.d. með eins konar tilvísunarkerfi, þarf að fara í sérstakt átak til að laða lækna í sérnám í heimilislækningum og gera ráð fyrir einhverjum kostnaði því tengdu á fjárlögum ef ekki á að koma til varanlegs læknaskorts um allt land innan fárra ára. Aldurssamsetning innan greinarinnar gerir slíkt átak enn mikilvægara en ella.
    Meiri hlutinn telur að þrátt fyrir þá niðurskurðarkröfu sem heilbrigðisþjónustan í landinu stendur frammi fyrir sé nauðsynlegt að standa vörð um velferðarþjónustuna í þeim efnahagsþrengingum sem blasa við í náinni framtíð. Þrátt fyrir þær miklu skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar eru á heilbrigðisþjónustu í landinu er nauðsynlegt að gera stofnunum á landsbyggðinni mögulegt að bjóða sérfræðiþjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilsugæsluumdæmi eða þjónustusvæði. Koma þarf á skipulagðri nærþjónustu sérfræðinga með því til dæmis að binda ákveðinn einingafjölda við skilgreindar stofnanir.
    Í viðtölum nefndarinnar við forstöðumenn heilbrigðisstofnana og fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins kom fram að huga þyrfti að frekari sameiningum stofnana bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að ráðist verði í þá vinnu og að það verði gert í samráði við viðkomandi stofnanir ef rekstrarforsendur eru fyrir hendi. Sameiningar stofnana auka og styrkja þjónustu við íbúana, auka öryggi og nýta betur þekkingu fagfólks um leið og þær skapa sterkari rekstrareiningar. Er það skilningur meiri hlutans að sameining heilbrigðisstofnana geti jafnframt skapað sóknarfæri fyrir viðkomandi stofnun. Þar sem hvorki er rekstrarleg hagræðing né faglegur ávinningur af sameiningu ber að stuðla að auknu svæðisbundnu samstarfi stofnana. Í viðtölum nefndarinnar við fagfélög lækna og hjúkrunarfræðinga kom fram að forgangsröðun frumvarpsins sé í samræmi við þá þróun sem heilbrigðisþjónustan hefur tekið og stefnt er að í lögum nr. 40/2007. Fagfólkið telur hins vegar augljóst að vinnubrögð við undirbúning frumvarpsins hefðu mátt vera faglegri og breytingarnar markvissari. Ekki hafi verið farið í þarfagreiningu og skilgreint hvaða þjónusta sé nauðsynleg á hverjum stað og hvað felist í hugtökum eins og grunnþjónusta, umdæmissjúkrahús, heilsugæslusjúkrahús og fleira. Áréttar meiri hlutinn enn og aftur að nauðsynlegt sé að við aðdraganda og undirbúning að skipulagsbreytingum í heilbrigðiskerfinu séu fagleg vinnubrögð höfð í heiðri, sérstaklega með tilliti til þess hve viðkvæm þjónusta á í hlut. Sparnaðarkrafa ráðuneytisins kemur þungt niður á mörgum heilbrigðisstofnunum en eins og fram hefur komið þarf að fara í vandaða stefnumótunarvinnu og frekari útfærslu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem hugtök eru skýrð, byggt er á þarfagreiningu og tekið er tillit til sérstöðu hvers landssvæðis eins og hægt er um leið og hagræðis er gætt.
    Sjúkratryggingastofnun Íslands er ætlað veigamikið hlutverk í lögum. Áætlun stofnunarinnar um útgjöld sjúkratrygginga árið 2011 er nokkuð hærri en kemur fram í fyrirliggjandi frumvarpi. Meiri hlutinn telur ljóst að stofnunin geti gegnt mikilvægu hlutverki við að ná fram aukinni hagræðingu innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta á meðal annars við um samninga við heilbrigðisstarfsmenn um kaup á þjónustu, í lyfjamálum, og í vinnu stofnunarinnar á þarfagreiningu á þessum þjónustuliðum. Fram kom í máli forstjóra stofnunarinnar að ein áhrifaríkasta leiðin til að ná fram sparnaði í heilbrigðisþjónustunni væri að koma sem fyrst á rafrænni sjúkraskrá. Meiri hlutinn hvetur til þess að unnið verði markvisst að því að innleiða rafræna sjúkraskrá á öllum heilbrigðisstofnunum og í sérfræðigreinum.
    Í frumvarpinu kemur fram að unnið er áfram að áformum um aðhaldsaðgerðir og við nánari útfærslu kunni að reynast ástæða til að gera einhverjar tilfærslur eða breytingar í fjárheimildum sem yrðu lagðar fram við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins. Telur meiri hlutinn að í ljósi alls ofangreinds verði að leita allra leiða til að auka fjárframlög til málaflokksins á fjárlögum 2011.
    Í umræðu hefur verið að breyta skuli undirbúningi og gerð fjárlaga. Meiri hlutinn áréttar að við þá endurskoðun verði afgreiðslu safnliða breytt. Telur meiri hlutinn að í stað safnliða sé æskilegt að styrkja til þess bært sjóðakerfi til að taka við núverandi safnliðum. Við afgreiðslu fjárlaga verði tryggt að sjóðirnir geti staðið undir þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna, ef ekki., leitar afgreiðsla styrkbeiðna aftur í sama farið. Úthlutun úr viðkomandi sjóðum ætti að fara eftir faglegu mati.
    Nefndinni hafa borist þrjátíu og átta umsóknir um fjárveitingu af safnlið 08-399-1.90, Ýmis verkefni, og komu þrettán aðilar á fund nefndarinnar. Meiri hlutinn gerir að tillögu sinni að tuttugu og sjö verkefni fái styrk. Við skiptingu styrkja var lögð áhersla á að fjármagn færi til þeirra sem standa fyrir öflugu fræðslu- og kynningarstarfi ekki síst fyrir börn og ungmenni, almannafræðslu og fræðslu fyrir aðstandendur. Gerir meiri hlutinn tillögu að endurhæfingarhúsið Hver fái aukið framlag til reksturs og að Akraneskaupstaður fái einnig styrk vegna reksturs hússins en áréttar jafnframt að nauðsynlegt sé að samningur ráðuneytisins við húsið sé endurnýjaður, en núverandi samningur rennur út í apríl 2011. Leggur meiri hlutinn til að Blóðgjafafélag Íslands verði styrkt og áréttar að styrkurinn renni til átaksverkefnis á meðal ungra blóðgjafa. Meiri hlutinn eykur framlag til félags aðstandenda Alzheimerssjúklinga, en félagið ætlar að ráðast í mikið fræðslustarf vegna barna yngri heilabilaðra sjúklinga og m.a. ráða fræðslufulltrúa til að sinna því starfi. Sömuleiðis eykur meiri hlutinn framlag til Gigtarfélags Íslands en þörfin á ráðgjöf þess hefur aukist þar sem meðferð gigtarsjúklinga er í meira og meira mæli að færast út af legudeildum og inn á göngudeildir og í bæjarþjónustu.
    Meiri hlutinn gerir að tillögu sinni að framlag til HIV-Ísland, alnæmissamtakanna á Íslandi, verði aukið þar sem félagið hefur hug á að ráðast í mikið átak vegna þess að nýsmituðum einstaklingum hefur fjölgað mikið hér á landi. Einnig leggur meiri hlutinn til að Hugarafl, félag notenda geðheilbrigðiþjónustu, verði styrkt með framlagi. Félagið er í miklu fræðslusamstarfi við skóla og stefnir á að efla starf félagsins á landsbyggðinni. Meiri hlutinn leggur jafnframt til að tvö félög sem sinna jafningjafræðslu verði styrkt með auknu framlagi, Kraftur stuðningsfélag og Parkinsonsamtökin á Íslandi. Einnig telur meiri hlutinn mikilvægt að hækka framlag til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra vegna sumar- og helgardvala í Reykjadal og gerir tillögu þar að lútandi.
    Meiri hlutinn gerir tillögu að styrk til PKU-félagsins á Íslandi en áréttar að styrkurinn sé ætlaður í útgáfu matreiðslubókar, námskeiðshalds og þýðingu á barnabók. Er það skilningur meiri hlutans að þörf félagsins fyrir framlag úr fjárlögum muni minnka í framtíðinni þegar útgáfu bókanna er lokið. Samtök psoriasis- og exemsjúklinga fá einnig aukið framlag í tillögu meiri hlutans þar sem félagsmenn samtakanna eru margir og félagið stefnir á þýðingu og útgáfu fræðsluefnis.
    Meiri hlutinn lýsir yfir stuðningi við umsókn Þrautar ehf., miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma, en vísar henni til fjárlaganefndar til sérstakrar skoðunar. Telur meiri hlutinn að verkefnið sé einstaklega vandað og þörfin brýn. Í ljósi þess að styrkbeiðnin er hærri en ráðstöfunarfé nefndarinnar telur meiri hlutinn að eðlilegt sé að vísa umsókninni til fjárlaganefndar. Jafnframt áréttar meiri hlutinn að í ljósi umræddra breytinga við afgreiðslu safnliða sé mikilvægt að verkefni komist á varanlegan fjárlagalið eða um þau sé gerður sérstakur samningur.
    Tillögur meiri hlutans um skiptingu safnliðarins koma fram í sérstöku fylgiskjali.

Alþingi, 18. nóvember 2010.

Þuríður Backman, með fyrirvara,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Helgi Hjörvar,
Ólafur Þór Gunnarsson,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.




Fylgiskjal XIV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (08 Heilbrigðisráðuneyti).

Frá 1. minni hluta heilbrigðisnefndar.



    Heilbrigðisnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um heilbrigðismálakafla fjárlagafrumvarpsins og var að venju einnig beðin um tillögu að skiptingu á einstökum safnliðum.
    Á fund nefndarinnar komu Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra, Sveinn Magnússon, Anna Sigrún Baldursdóttir, Hrönn Ottósdóttir, Dagný Brynjólfsdóttir og Guðríður Þorsteinsdóttir frá heilbrigðisráðuneytinu, Björn Zoëga og Anna Lilja Gunnarsdóttir frá Landspítala, Sigríður Snæbjörnsdóttir, Elís Reynarsson, Þórunn Benediktsdóttir og Sigurður Þór Sigurðarson frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Lúðvík Ólafsson og Svanhvít Jakobsdóttir frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Magnús Skúlason, Óskar Reykdalsson, Esther Óskarsdóttir og Anna María Snorradóttir frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Jón Helgi Björnsson frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Steingrímur Ari Arason frá Sjúkratryggingum Íslands, Elsa Friðfinnsdóttir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Birna Jónsdóttir og Sólveig Jóhannsdóttir frá Læknafélagi Íslands. Einnig átti nefndin símafundi með Vigni Sveinssyni, Sigurði E. Sigurðssyni og Ólínu Torfadóttur frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Konráð Baldvinssyni frá Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar og Einari Rafni Haraldssyni frá Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Heildargjöld ráðuneytisins árið 2011 eru áætluð um 103.098 m.kr. á rekstrargrunni. Í frumvarpinu dragast útgjöld ráðuneytisins saman um 3.818 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga árið 2010, en að teknu tilliti til áhrifa almennra verðlags- og gengisbreytinga lækka útgjöldin um 4.762 m.kr. milli ára eða sem svarar til 4,7%. Sparnaðaráformin á árinu 2011 kalla á umtalsverðar hagræðingaraðgerðir og forgangsröðun verkefna. Samkvæmt frumvarpinu er sagt að leggja skuli áherslu á að efla grunnþjónustu einkum á sviði heilsugæslunnar, m.a. með því að efla sálfélagslega þjónustu við börn og ungmenni, efla sjúkraflutninga og auka framlag til heimahjúkrunar þar sem hjúkrunarrýmum er fækkað. Sagt er að heilsugæslan verði sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Á móti auknu framlagi til heilsugæslu, sjúkraflutninga og heimahjúkrunar er ráðgert að draga úr starfsemi sjúkrasviða heilbrigðisstofnana og einnig draga úr þjónustustigi á sjúkrasviðum þeirra. Gert er ráð fyrir að starfsemi þessara stofnana verði breytt í eins konar heilsugæslusjúkrahús sem veiti almenna heilbrigðisþjónustu. Ekki er samt búið að skilgreina hvaða lagt er til grundvallar hugtakinu heilsugæslusjúkrahús.
    Í máli gesta kom fram hörð gagnrýni á hvernig undirbúningi fyrir fjárlagagerðina hafi verið háttað. Samráð við sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir hafi skort og ekki hafi farið fram þarfagreining á því hvaða þjónustu eigi að veita og hver skuli veita hana. 1. minni hluti tekur heilshugar undir þessa gagnrýni og telur að ekki sé forsvaranlegt að ganga eins hart og hratt fram í hagræðingu heilbrigðisstofnana og frumvarpið gerir ráð fyrir. Tryggja þarf áframhaldandi grunnþjónustu um allt land og að stærstu sjúkrahúsin, Landspítalinn og FSA, geti áfram sinnt sérhæfðustu þjónustunni á framsækinn hátt. 1. minni hluti telur að með samráði og betri undirbúningi megi ná fram talsverðri hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni ásamt því að viðhalda og styrkja faglega þjónustu. Einnig telur 1. minni hluti að undirbúa þurfi frekari sameiningu heilbrigðisstofnana, bæði á landsbyggðinni og á Suðvesturhorninu til að treysta rekstrargrundvöll og bæta faglega þjónustu. 1. minni hluti telur sóknarfæri felast í frekari sameiningu stofnana.
    Nefndin fjallaði um þau áform að fækka heilsugæslustöðum á höfuðborgarsvæðinu með því að stækka þær og gera öflugri, en sýnt hefur verið fram á að stærri heilsugæslustöðvar eru hagkvæmari einingar í rekstri auk þess sem auðveldara er að manna slíkar einingar og halda uppi öflugri þjónustu og heilsuvernd. Telur 1. minni hluti að slíkar aðgerðir mundu efla heilsugæsluna.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að efla heilsugæsluna, en draga úr þjónustustigi á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana og einnig úr umfangi á hjúkrunarsviðum þeirra. Við undirbúning frumvarpsins var metin þörf fyrir fjölda sjúkrarýma á þjónustusvæðum stofnananna þar sem miðað er við fjölda íbúa og nýtingu rýma. Á grundvelli þeirrar vinnu er lagt til að sjúkrarýmum verði fækkað um samtals 91, fari úr 362 niður í 235. Einnig er einingaverð sem notað er við útreikning á greiðslum fyrir hvert sjúkrarými samræmt. Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir því að hjúkrunarrýmum verði fækkað um 34 og þau fari úr 458 í 424. Eru þær tölur reiknaðar út frá mati ráðuneytisins á þörf fyrir fjölda rýma eftir svæðum og reynslutölur um nýtingu rýma hjá viðkomandi stofnun. Telur 1. minni hluti að leiðrétta þurfi þessar tölur út frá staðbundnum þáttum, sérlega þar sem um mikið dreifbýli er að ræða. Einnig er ljóst að í nokkrum tilfellum hafa forstöðumenn heilbrigðisstofnana fært fjármuni af einu sviði yfir á annað og geta því tillögur ráðuneytisins komið niður á þjónustunni þar sem síst skyldi. Þannig hefur til að mynda fjármagn flætt á milli sjúkrasviðs, hjúkrunarsviðs og heilsugæslu til að hægt væri að reka öflugri heilsugæslu. Niðurskurður á sjúkrasviði kemur þannig út í raun að heilsugæslan skerðist, þvert á forsendur fjárlagafrumvarpsins. Telur 1. minni hluti mikilvægt að fjárveitingar séu nýttar í það sem til er ætlast. Ef það er ekki gert ættu heilbrigðisstofnanirnar að skila fjármagninu og fá það síðan aftur endurúthlutað á réttum forsendum. Mikilvægt er að gagnsæi ríki við nýtingu fjármagns heilbrigðisstofnana.
    Í forsendum fjárlagafrumvarpsins kemur fram að ætlunin sé að auka heimaþjónustu á móti því að sjúkra- og hjúkrunarrýmum verði fækkað. Í viðtölum við gesti nefndarinnar kom fram að heimahjúkrun ríkisins og félagsleg heimaþjónusta sveitarfélaga sé mjög mislangt á veg komin eftir landshlutum. Er það skoðun 1. minni hluta að bæði þurfi að auka heimahjúkrunina sem ríkið fjármagnar og félagsþjónustuna sem sveitarfélögin fjármagna. Fagnar 1. minni hluti áætlunum um eflingu heimahjúkrunar. Samkvæmt svari félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn frá 16. júní 2010 eru hjúkrunarrými á aldraða hér á landi fleiri en annars staðar á Norðurlöndunum fyrir utan Svíþjóð.
    Hér eru rýmin 2.529, en samkvæmt tölum frá Hagstofunni frá árinu 2007 gerir það 8,2 rými á 1.000 íbúa og 70,1 rými á 1.000 íbúa 65 ára og eldri. Samkvæmt sama svari er meðallegutími í hjúkrunarrými 3,32 ár hér á landi en einungis 2 ár á Norðurlöndunum. Þessar tölur benda til þess að aldraðir einstaklingar fari of snemma á öldrunarheimili hér á landi og dvelji þar lengur en í nágrannalöndunum, líklega vegna þess að ekki er boðið upp á nauðsynlega heimahjúkrun frá ríki og félagslega heimaþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt upplýsingum frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu er einungis í fáum sveitarfélögum unnt að fá heimahjúkrun eða félagslega heimaþjónustu á kvöldin, um nætur eða um helgar og einnig er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum hvaða þjónusta er veitt. Telur 1. minni hluti að aukin áhersla á heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu hafi í för með sér fjárhagslega hagkvæmni fyrir íslenska ríkið þar sem kostnaður við vikudvöl í hjúkrunarrými er sambærilegur við 25–26 heimsóknir heimahjúkrunar fyrir sama tímabil og er þá miðað við að hver heimsókn reiknist 30 mínútur. Enn fleiri heimsóknir væru mögulegar ef félagsleg heimaþjónusta sveitarfélaga væri nýtt að hluta til í stað heimahjúkrunar.
    Nefndin ræddi um skipulagsbreytingar sem gætu sparað fjármagn án þess að skerða þjónustu. Er það skilningur 1. minni hluta að huga þurfi að kerfisbreytingu til að nýta almannafé betur og að rétt sé að koma á tilvísanakerfi, t.d. valfrjálsu tilvísanakerfi að danskri fyrirmynd. Í Danmörku getur sjúklingur valið um tvær leiðir. Annars vegar getur hann farið til heilsugæslunnar til að fá úrbót meina sinna og eftir atvikum fengið tilvísun til sérfræðings ef á þarf að halda. Þessi leið ætti að vera ódýr kostur. Hins vegar gæti hann valið að fara hina leiðina, þ.e. farið beint til sérfræðilæknis en þá mundi hann ekki njóta niðurgreiðslu frá ríkinu eins og í dag heldur borga reikninginn upp í topp sjálfur. Með þessum hætti væri þjónustuflæði milli þjónustustiga eðlilegra og hagkvæmara en í dag, þ.e. fyrsti viðkomustaður yrði oftast heilsugæslan. 98% Dana velja að fara fyrst til heilsugæslunnar. Líklegt er að það tæki nokkur ár að koma framangreindri skipulagsbreytingu á þar sem styrkja þarf afl heilsugæslunnar til að taka við auknum fjölda sjúklinga. Líklega þarf að fjölga heimilislæknum um 20–30 vegna þessa á næstu árum. 1. minni hluti saknar þess að ekki skuli hafa verið lagt til hliðar fjármagn í fjárlagafrumvarpinu til að undirbúa slíka skipulagsbreytingu af krafti. Er þetta eftirtektarvert í ljósi þess að talsmenn flestra flokka á Alþingi hafa lýst vilja til að endurskipuleggja sérfræðiþjónustuna til að nýta fjármagn betur en gert er nú.
    1. minni hluti bendir á að þar sem skorið verður niður fjármagn til heilbrigðismála á næstu árum þarf sérstaklega að gæta að og vakta hvort niðurskurðurinn auki opinber útgjöld annars staðar, svo sem í formi örorkubóta, atvinnuleysisbóta eða félagslegra útgjalda sveitarfélaga.
    Við afgreiðslu safnliða skipti nefndin sér niður í hópa og tók viðtöl við aðila sem sótt höfðu um fjárveitingu af safnlið 08-399-1.90, Ýmis verkefni. Var rætt að endurskoða þyrfti vinnubrögð við afgreiðslu safnliða og þeim breytt. Er sú umræða ekki ný af nálinni og telur 1. minni hluti að í stað þess að alþingismenn velti fyrir sér hvort og þá hvaða félagasamtök og verkefni eigi að styrkja af safnliðum eigi sjóðir eða ráðuneytin að afgreiða slík mál. Fagnefndir ættu frekar að gefa sjóðunum eða ráðuneytum tilmæli um helstu áherslur við úthlutunina en ættu ekki sjálfar að úthluta fé til einstakra verkefna og félaga. Núverandi úthlutun er ómarkviss. Einnig telur 1. minni hluti að ekki hefði átt að hækka safnliði í ljósi efnahagskreppunnar sem nú ríkir, heldur lækka. Nefndin hafði 43,7 milljónir til úthlutunar samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2011. Á tímabilinu 2004–2010 var úthlutunin eftirfarandi:

2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 Frv. 2011
22.800 32.700 34.100 44.000 77.000 50.000 38.000 43.700

    1. minni hluti telur að breyta eigi vinnubrögðum við úthlutun safnliða í grundvallaratriðum þar sem um töluverða fjármuni er að ræða en árin 2004–2010 hafði nefndin samtals 348,3 m.kr til úthlutunar.

Alþingi, 19. nóv. 2010.

Siv Friðleifsdóttir.



Fylgiskjöl með álitinu:
     1.      Minnisblað frá heilbrigðisráðuneytinu.
     2.      Svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um störf á heilbrigðisstofnunum. Þskj. 138. í 51. máli á 139. löggjafarþingi.
     3.      Yfirlit heilbrigðisráðuneytis yfir áætlaða fækkun starfa á heilbrigðisstofnunum.
     4.      Svar félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um hjúkrunarrými, heimahjúkrun og heimaþjónustu. Þskj. 1406 í 541. máli á 138. löggjafarþingi.
     5.      Minnisblöð frá ýmsum heilbrigðisstofnunum.



Fylgiskjal XV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (08 Heilbrigðisráðuneyti).

Frá 2. minni hluta heilbrigðisnefndar.



    Frumvarp þetta er mikill áfellisdómur yfir núverandi ríkisstjórn. Fram hefur komið í umfjöllun heilbrigðisnefndar að frumvarpið er ekki framkvæmanlegt á ýmsum stöðum á landinu. Ekki var haft samráð við stofnanir. Er því ekki ljóst hvernig á að framkvæma niðurskurðinn á einstökum svæðum eða hvernig á að sinna þeirri þjónustu sem óhjákvæmilega mun flytjast á milli stofnana.
    Ráðherra hefur boðað til breytinga á frumvarpinu en nefndin hefur ekki fengið þær til umfjöllunar. Það er því mjög erfitt að gefa umsögn um þessi fjárlög þar sem ekki er vitað hvernig á að framkvæma þau eða hvaða breytingar eru í farvatninu.
    Það er algerlega óskiljanlegt af hverju við stöndum í þessum sporum nú. Öllum var ljóst haustið 2008 að minni fjármunir yrðu til að heilbrigðismála 2009–2012. Þáverandi ríkisstjórn brást strax við og samþykkti að fara í skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustunni um allt land.
    Það er ekki úr vegi að rifja þetta upp nú. Markmiðið með breytingunum, sem voru eðlilegt framhald af heilbrigðislögum, nr. 40/2007, var betri nýting fjármuna í heilbrigðisþjónustunni. Miklar breytingar voru fyrirhugaðar á skipulagi og stjórnun en grunnþættir þjónustunnar voru varðir. Markmiðin voru að:
          viðhalda eða auka þjónustu,
          tryggja öryggi sjúklinga,
          tryggja gæði þjónustu,
          tryggja magn þjónustu.
    Gert var ráð fyrir að sameina heilbrigðisumdæmin eins og lagt var upp með í heilbrigðislögunum í samræmi við heilbrigðisumdæmin. Einnig var lagt upp með að sameina skurðstofur á stórhöfuðborgarsvæðinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Breytingar sem fyrirhugaðar voru á landsbyggðinni.
Helstu aðgerðir:
          Yfirsýn varðandi starfsemi í einstökum heilbrigðissvæðum yrði aukin með samræmdri stýringu.
          Aukið vald fært frá ráðuneyti út í umdæmin.
          Innkaup, starfsmannamál, kynningarmál, tæknimál, fjármál og gæðamál samræmd og rafræn samskipti aukin.
          Fagleg og rekstrarleg yfirstjórn einfölduð.
          Rannsóknarstofum fækkað.
          Vaktsvæði heilsugæslu sameinuð til að draga úr álagi á fagfólk og ná fram sparnaði.
          Rekstur sjúkraflutninga endurskoðaður.
          Leitast við að fækka sjúkradeildum til að draga úr vaktakostnaði og bindingu starfsfólks.
          Sérfræðiþekking samnýtt enn frekar.
          Nánari útfærsla yrði í höndum vinnuhópa fagfólks sem þá voru að störfum.

Breytingar sem fyrirhugaðar voru á Suðvesturlandi.
Helstu aðgerðir:
          Heilsugæslan enn frekar kynnt sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga.
          Bráða- og slysamóttaka á HSS, HSU og SHA efld til að draga úr þörf á þjónustu slysa- og bráðamóttöku LSH og tvíverknaði.
          Verkefni sem kalla á minni sérhæfingu færð út af LSH.
          Komið á auknu samstarfi á sviði innkaupa og samnýtingu upplýsingatækni.
          LSH tæki yfir rekstur skurðdeildar á Selfossi.
          Vaktþjónusta á skurðdeildum í Keflavík og á Selfossi lögð af.
          Verktökum á St. Jósefsspítala boðið að færa starfsemi sína í nýjar skurðstofur í Keflavík.
          Göngudeild meltingasjúkdóma og lyflækningar St. Jósefsspítala færðar í samstarfi við LSH.
          Meltingasjúkdómadeild færð í breytt húsnæði LSH og tæki við þróun LSH á því sviði.
          St. Jósefsspítali sérhæfður í öldrunarlækningum með áherslu á hvíldarinnlagnir.
          Nánari útfærsla yrði í höndum vinnuhópa fagfólks sem þá voru að störfum.

Verkefnisstjórnir skipuðu:
          Hanna Katrín Friðriksson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra,
          Sveinn Magnússon, yfirlæknir HBR,
          Hallgrímur Guðmundsson, framkvæmdastjóri stefnumótunarsviðs HBR,
          Ragnar Þ. Guðgeirsson, ráðgjafi hjá HBR,
Í einstökum verkefnum:
          Árni Sverrisson, forstjóri St. Jósefsspítala,
          Halldór Jónsson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri,
          Guðjón Brjánsson, forstjóri SHA,
          Magnús Skúlason, forstjóri HSU,
          röstur Óskarsson, forstjóri HSV.

Vinnuhópur um skurðstofur.
          Ragnar Þ. Guðgeirsson, ráðgjafi hjá HBR, hópstjóri,
          Ragnhildur Jóhannsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar á skurðdeild STJÓ,
          Sveinn Geir Einarsson, svæfingarlæknir á STJÓ,
          Oddur Fjalldal, sviðsstjóri hjá LSH,
          Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS,
          Elís Reynarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs HSS,
          Árni Sverrisson, forstjóri STJÓ sem á sæti í verkefnisstjórn, sat einnig fundi hópsins.

Vinnuhópur um flutning meltinga- og lyflækningadeildar St. Jósefsspítala.
          Björn Zoega, lækningaforstjóri LSH, hópstjóri,
          Ásgeir Theodórs, lækningaforstjóri St. Jósefsspítala – Sólvangs,
          Kristín Ólafsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar hjá St. Jósefsspítala – Sólvangi,
          Guðmundur Þorgeirsson, sviðsstjóri LSH,
          Vigdís Hallgrímsdóttir, HBR,
          Gunnar Magnússon, fulltrúi úr LSH-nefnd, sat einnig fundi með hópnum.

Vinnuhópur um öldrunarlækningar í Hafnarfirði.
          Margrét Björnsdóttir, HBR, hópstjóri,
          Gunnar Valtýsson, yfirlæknir á Sólvangi,
          Gunnar Rafn Sveinbjörnsson, Hafnarfjarðarbæ,
          Birna G. Flygenring, hjúkrunarforstjóri St. Jósefsspítala – Sólvangs,
          Ólafur Þór Gunnarsson, yfirlæknir LSH,
          Helgi Freyr Kristinsson, fjármálastjóri St. Jósefsspítala – Sólvangs,
          Dagný Brynjólfsdóttir, HBR.

Vinnuhópur um fæðingarþjónustu á Suðurlandi og Suðurnesjum.
          Guðrún Sigurjónsdóttir, HBR, hópstjóri,
          Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS,
          Anna María Snorradóttir, HSU,
          Rannveig Rúnarsdóttir, sviðstjóri LSH,
          Hildur Harðardóttir, LSH.

Stuðningshópur ráðuneytisins.
          Guðríður Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri HBR,
          Hrönn Ottósdóttir, sviðsstjóri fjármála og rekstrar HBR,
          Sveinn Magnússon, yfirlæknir HRB.

Norðurland.
Vinnuhópur um heilsugæslu.
          Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSÞ, formaður,
          Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri HS,
          Bjarni Jónasson, starfsmannastjóri FSA,
          Anna Gilsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Siglufirði,
          Unnsteinn Júlíusson, heilsugæslulæknir Húsavík (HSÞ),
          Sveinfríður Sigurpálsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Blönduósi,
          Örn Ragnarsson, yfirlæknir HS,
          Ásgeir Bjarnason, læknir Ólafsfirði,
          Guðmundur Pálsson, læknir Dalvík,

Vinnuhópur um skipulag sérhæfðrar þjónustu og hjúkrunardeilda.
          Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri lækninga á FSA, formaður,
          Ólína Torfadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á FSA,
          Herdís Klausen, framkvæmdastjóri hjúkrunar HSS,
          Óskar Jónsson, yfirlæknir HSS,
          Ásgeir Böðvarsson, framkvæmdastjóri lækninga HSÞ,
          Áslaug Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Húsavík,
          Andrés Magnússon, yfirlæknir Siglufirði,
          Anna Gilsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar Siglufirði,
          Sveinfríður Sigurpálsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Blönduósi,
          Héðinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Blönduósi.

Vinnuhópur um sjúkraflutninga.
          Hildigunnur Svavarsdóttir, formaður,
          Björn Gunnarsson,
          Konráð Karl Baldvinsson,
          Sigurður Halldórsson,
          Sveinbjörn Dúason,
          Vernharð Guðnason.

Vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu.
          Ólöf Sigurðardóttir, yfirlæknir rannsóknadeildar FSA, formaður,
          Hallgrímur Hreiðarsson, læknir á Húsavík,
          Elvar Örn Birgisson, yfirgeislafræðingur á FSA,
          Orri Einarsson, yfirlæknir myndgreiningardeildar FSA,
          Þorsteinn Þorsteinsson, læknir HSS,
          Valþór Stefánsson, læknir,
          Andrés Magnússon yfirlæknir Siglufirði,
          Héðinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Blönduósi.

Vinnuhópur um stoðdeildarþjónustu.
          Vignir Sveinsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs á FSA, formaður,
          Konráð Karl Baldvinsson, forstjóri á Siglufirði,
          Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri HSS,
          Sigurður E. Sigurðsson, yfirlæknir á FSA,
          Valbjörn Steingrímsson, forstjóri á Blönduósi,
          Regína Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála á HÞ,
          Bjarni Jónasson, starfsmannastjóri FSA .

Suðurland.
Vinnuhópur um heilsugæslu.
          Óskar Reykdalsson, Hsu,
          Eydís Ósk Sigurðardóttir, HSV,
          Ester Þorvaldsdóttir, HSSA.

Vinnuhópur um sérhæfða starfsemi sjúkradeilda.
          Anna María Snorradóttir, Hsu,
          Ásgerður K. Gylfadóttir, HSSA,
          Hjörtur Kristjánsson, HSV.

Vinnuhópur um sjúkraflutningar, röntgen, rannsóknir og stoðdeildir.
          Magnús Skúlason, Hsu,
          Esther Óskarsdóttir, Hsu,
          Gunnar K. Gunnarsson, HSV,
          Guðrún Júlía Jónsdóttir, HSSA.

Vesturland.
Vinnuhópur um sjúkraflutninga.
          Linda Kristjánsdóttir, læknir, hópstjóri,
          Gísli Björnsson, deildarstjóri sjúkraflutninga hjá SHA, Akranesi,
          Eyþór Garðarsson, sjúkraflutningamaður, Grundafirði,
          Gunnar S. Jónsson, sjúkraflutningamaður, Hólmavík.

Vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu.
          Gróa Þorsteinsdóttir geislafræðingur, deildarstjóri myndgreiningardeildar SHA,
          Erla Bragadóttir lífeindafræðingur, Heilsugæslustöð Ólafsvíkur,
          Eyjólfur Harðarson lífeindarfæðingur, deildarstjóri rannsóknarstofu SHA,
          Hafdís Bjarnadóttir yfirlífeindafræðingur, deildarstjóri rannsóknarstofu St. Franciskuspítala.

Vinnuhópur um heilsugæslu.
          Rósa Marinósdóttir, hjúkrunarfræðingur Heilsugæslustöðinni Borgarnesi,
          Reynir Þorsteinsson, læknir Heilsugæslustöðinni Akranesi,
          Fanný Berit Sveinbjörnsdóttir, hjúkrunarfræðingur/ljósmóðir Heilsugæslustöðinni Ólafsvík,
          Þórður Ingólfsson, Heilsugæslustöðinni Búðardal,
          Guðmundur Sigurðsson, Heilbrigðisstofnuninni Hólmavík,Ágúst Oddson, Heilbrigðsstofnuninni Hvammstanga.

Vinnuhópur um sérhæfða þjónustu, sjúkra- og hjúkrunardeilda.
          Björn Gunnarsson, yfirlæknir á Akranesi,
          Helga Hreiðarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Hvammstanga,
          Jóhanna F. Jóhannesdóttir, verkefnastjóri á Akranesi,
          Jósep Ó. Blöndal, yfirlæknir í Stykkishólmi.

    Hópavinna á Vestfjörðum var ekki komin í gang en gert var ráð fyrir að hún yrði í höndum framkvæmdastjórnar auk fulltrúa frá Patreksfirði og Bolungarvík.

Hóparnir leystir upp og ekkert kom í staðinn.
    Þáverandi heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson leysti upp þessa hópa og skipaði ekki aðra í staðinn. Reyndar hafa engir komið í stað þessara hópa frá því að ný ríkisstjórn tók við og ekkert samráð verið haft við þær stofnanir sem að eiga að sinna heilbrigðisþjónustu. Ekki hafa heldur fundist þau fagfélög eða sérfræðingar sem komið hafa að undirbúningi fjárlaga eða skipulagsbreytinga á heilbrigðisþjónustunni.
    Fjárlögin fyrir yfirstandandi ár einkenndust af flötum niðurskurði. Í áliti 1. minni hluta heilbrigðisnefndar um fjárlagafrumvarpið í fyrra er þessu ágætlega lýst en þar segir (fskj. XV með þskj. 383 á 138. löggjafarþingi):
    „Fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins kynntu hugmyndir um svæðisbundna sameiningu heilbrigðisstofnana og aukin samstarfsverkefni heilbrigðisstofnana. Kynnt var vinnuskjal um verkefnið „Frá orðum til athafna – Radíusverkefnið“ […] sem Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítala, vann ásamt sérfræðingum um skipulag heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, samstarf og verkaskiptingu milli Landspítala, St. Jósefsspítala, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Heilbrigðisstofnunarinnar á Akranesi sem verður, ásamt sjö öðrum heilbrigðisstofnunum, hluti af Heilbrigðisstofnun Vesturlands 1. janúar 2010. Skýrslan hefur legið fyrir um skeið en heilbrigðisráðherra hefur ekki enn tekið pólitíska afstöðu um hvort fara eigi að tillögunum sem þar voru settar fram. Forstöðumenn viðkomandi stofnana gagnrýndu seinaganginn og ákvarðanafælnina með réttu því niðurstaðan kemur til með að hafa mikil áhrif á rekstraráætlanir stofnana þeirra. Því er svo komið að mikil óvissa ríkir um hvernig svokölluð kragasjúkrahús eigi að mæta niðurskurðarkröfunni sem nú er gerð. Pólitísk ákvarðanafælni virðist hafa einkennt störf heilbrigðisráðherra í sumar og haust í aðdraganda fjárlagagerðarinnar eins og glöggt má sjá í viðtali í Fréttablaðinu 1. október er þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, hljóp úr ríkisstjórninni. Svo segir í Fréttablaðinu: „Ögmundur segist skilja heilbrigðisráðuneytið eftir í góðum höndum þess starfsfólks sem þar vinnur, sem og í heilbrigðisgeiranum. Spurður út í þá stefnumörkun sem hann skilur eftir sig segir hann hana aðallega lúta að vinnubrögðum.“ Og síðar er haft eftir ráðherranum: „Stefnumótunin í þessu ráðuneyti og stofnunum þess er að verulegu leyti óháð ríkisstjórnum og ráðherrum. Hún snýr að framtíðarskipan heilbrigðismála í landinu. Ég hef hins vegar getað komið að málum sem lúta að vinnubrögðum og áherslum.“ Hér heldur ráðherrann því fram að stefnumörkunin sé óháð ráðherranum. Þessi fullyrðing stenst enga skoðun og er kolröng. Hins vegar sýnir þessi fáheyrða yfirlýsing að skort hefur pólitískt þrek til að taka ákvarðanir um forgangsröðun í málaflokknum í aðdraganda fjárlagagerðarinnar. Í kjölfarið gagnrýndi Hulda Gunnlaugsdóttir harkalega í fjölmiðlum áform um flatan niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni og sagði í Morgunblaðinu: „Það liggur því fyrir aðgerðaáætlun með sparnaðartölum sem hægt er að vinna eftir og draga þannig úr þeirri þjónustuskerðingu sem ella þyrfti að ráðast í. En ef farið verður í flatan niðurskurð án þess að ráðast í þær hagræðingaraðgerðir sem við höfum lagt til þá er það hættulegt …“ Um flatan niðurskurð sagði hún: „Það er auðveldasta leiðin en þá er ekki tekið á vandanum. Það þarf að gera stærri breytingar á þjónustu spítalanna og auðvitað er Landspítalinn þar ekki undanskilinn. En ef ráðist er í uppsagnir á 450–500 manns á Landspítalanum þá hefur það áhrif á öryggisnetið.““
    Starfsfólki hefur fækkað um 627 á Landspítalanum og launakostnaður hefur lækkað um 1100 m.kr. Markmiðið með núverandi frumvarpi er að hverfa frá flötum niðurskurði og hlífa Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og heilsugæslunni.
    Fjárlagatillögurnar hafa hins vegar ekki verið unnar með þeim aðilum sem að eiga að framkvæma þær og kom fram í nefndinni bæði frá fulltrúum ráðherra og stofnunum að þær væru ekki framkvæmanlegar.
    Alþingi er mikill vandi á höndum. Ríkisstjórnin hefur ekki undirbúið fjárlagafrumvarpið hvað þetta varðar og sameining stærstu ráðuneytanna auðveldar ekki þetta erfiða verkefni.
    Það er fullkomlega útilokað að koma á breytingum í heilbrigðisþjónustunni án samráðs við þá sem starfa við hana.

Sjúkratryggingar.
    Í áliti 2. minni hluta heilbrigðisnefndar síðan í fyrra um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010 segir (fskj. XVI með þskj. 383 á 138. löggjafarþingi):
    „Annar minni hluti bendir á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til sjúkratrygginga lækki um 20%. Ljóst er að hér er um mikla lækkun að ræða en hvorki hefur verið kynnt fyrir nefndinni né rætt innan hennar hvernig ætlað er að ná fram fyrirhuguðum sparnaði.“
    Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að hallinn á Sjúkratryggingum verður 1.800 m.kr. á þessu ári. Hann hefði verið 2.800 m.kr. ef ekki hefði komið til gengishagnaður upp á 1000 m.kr.
    Ráðherra og ríkisstjórn útfærði aldrei hvernig ætti að ná fram þessum sparnaði. Ráðherra hótaði hins vegar að vísa úr starfi forstjóra stofnunarinnar fyrir nákvæmni og dugnað, mun það vera einsdæmi í Íslandssögunni. Þegar það gekk ekki eftir vék hún stjórn stofnunarinnar frá. Eftir stendur að sama sparnaðarkrafa er fyrir næstu fjárlög, það er að segja krafan hljóðar upp á 3.134 m.kr. Það eru fjórar leiðir til að mætu þessari sparnaðarkröfu.
                  i.      Minnka þá þjónustu sem að sjúkratryggingar greiða fyrir.
                  ii.      Auka kostnaðarþátttöku.
                  iii.      Ná niður kostnaði.
                  iv.      Auka framleiðni.
    Ríkisendurskoðandi hefur bent á hið augljósa að ráðherra er sá sem verður að móta stefnu um það hvernig þessum sparnaði verður náð. Ekkert hefur verið upplýst um það í nefndinni hvernig það verður gert.
    Fyrir liggur frumvarp frá heilbrigðisráðherra um sjúkratryggingar. Í athugasemdum með frumvarpinu segir : „Nú er ljóst að enn vantar talsvert upp á að Sjúkratryggingar Íslands verði í stakk búnar að semja við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, svo og sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur orðið ákveðinn forsendubrestur að því er varðar hugmyndafræði þá sem liggur að baki lögum um sjúkratryggingar. Stofnunin hefur ekki fengið þær fjárveitingar sem nauðsynlegar eru til að hún geti sinnt að fullu því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt IV. kafla laga um sjúkratryggingar og ekki er fyrirsjáanlegt að breyting geti orðið þar á á næstu missirum. Nauðsynlegt þykir því að fresta enn um sinn gildistöku ákvæða um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili. Af því leiðir að framlengja þarf heimild ákvæðis til bráðabirgða IV til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð. Lagt er til að gildistöku verði frestað um þrjú ár. Fyrirhugað er á því tímabili að taka lög um sjúkratryggingar til endurskoðunar með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem orðið hafa frá því lögin tóku gildi.“ Hér er um að ræða grundvallarmisskilning og mátti skilja ráðherrann þannig í umræðu um málið að við hefðum ekki lengur „efni“ á að láta Sjúkratryggingar semja um þessa þjónustu. Formaður félags hjúkrunarfræðinga benti nefndinni á að aldrei hefði verið meiri þörf en nú að semja um þessa þjónustu og gæti það bæði leitt til sparnaðar og betri þjónustu.
    Skýringar á frestuninni er rakin í minnisblaði forstjóra Sjúkratrygginga en þar segir:
    „Sá forsendubrestur sem vitnað er til í athugasemdum með frumvarpinu til skýringar á frestun umræddrar samningsgerðar á vegum SÍ má fyrst og fremst rekja til þess að stofnunin hefur ekki fengið nauðsynlegar fjárveitingar til að sinna verkefninu. Það hefur á hinn bóginn ekki með aukinn kostnað fyrir ríkið að gera heldur það að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki fylgt eftir tilflutningi starfa og fjárveitinga til SÍ eins og til stóð þegar lögin um sjúkratryggingar voru samþykkt. Í því sambandi má nefna:
          Ekki er enn lokið við áformaða fjárhagslega uppskiptingu milli TR og SÍ í samræmi við niðurstöðu ráðgjafanna sem unnu að aðskilnaðnum fyrir forsætisráðuneytið. (Kostnaðargreining TR, dags. 6. maí 2008, lögð fyrir heilbrigðisnefnd Alþingis í aðdraganda laga nr. 112/2008).
          Ekki hefur enn orðið af tilflutningi 5–6 starfsmanna frá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins til stofnunarinnar vegna samningamálanna, sbr. til dæmis umsögn fjármálaráðuneytis um frumvarp til laga um sjúkratryggingar. (Þskj. 955, 613. mál).
          Ekki hefur enn orðið af tilflutningi starfsmanna frá heilsugæslunni og Landspítalanum sem sinnt hafa samningsgerð og öðrum verkefnum sem SÍ var ætlað að sinna, sbr. til dæmis ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingarnar. „

Lyf.
    Mikilvægt er að halda áfram að lækka lyfjakostnað á Íslandi án þess að draga úr faglegum kröfum. Fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar að hægt er að ná auknum árangri með því að efla Sjúkratryggingar á því sviði.

Kostnaðargreining.
    Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að nær öll vinna við kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustunni hefur legið niðri ef undan er skilin vinna á Landspítalanum. Það nýtist spítalanum fyrst og fremst í eigin rekstri.
    Öllum er ljóst að það verður að taka erfiðar ákvarðanir í heilbrigðismálum næstu misserin. Þær þjóðir sem við berum okkur saman við nýta kostnaðargreiningu til að nýta takmarkaða fjármuni sem best. Ef ríkisstjórn Íslands ætlar að nota aðrar aðferðir er brýnt að það verði upplýst hvaða aðferðir er um að ræða.

Þjónustusamningar.
    Til að tryggja gæði og nýta fjármuni sem best er mikilvægt að fjölga þjónustusamningum við þá aðila sem veita heilbrigðisþjónustu. Þjónustusamningar krefjast þess að þjónustan sé skilgreind með tilliti til hagsmuna sjúkratryggðra og kosnaðargreind.
    Mikilvægt er auka framleiðnitengdar greiðslur til stofnana. Það er sérstaklega áríðandi til að minnka líkur á biðlistum. Forystumenn Landspítala hafa lýst sig áhugasama um að hrinda þessu í framkvæmd.

Málefni aldraða.
    Stefnt er að flutningi málaflokksins málefni aldraða til sveitrafélaga. Brýnt er að skilgreina hvað fellur undir málaflokkinn.

Stjórnsýslustofnanir.
    Gert er ráð fyrir að sameina stjórnsýslustofnanir í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Það er skemmst frá því að segja að undirbúningur þess máls er í skötulíki. Engin fjárhagsleg úttekt var gerð á fyrirhugaðri sameiningu og ekki hefur verið svarað spurningum um hvers vegna Lyfjastofnun og Lyfjafgreiðslunefnd eru ekki með í fyrirhugaðri sameiningu, eins og lagt var upp með í byrjun árs 2009. Þar eru miklir möguleikar á hagræðingu.
    Fyrri hugmyndir miðuðu að því að setja landlæknisembættið, Lyfjastofnun, Lýðheilsustofnun og lyfjagreiðslunefnd í tvær stofnanir. Önnur hefði með höndum eftirlitshlutverk en hin forvarnarhlutverk.
    Bæði hlutverkin eru innan þessara stofnana núna og mikilvægt að skerpa áherslurnar á hvoru sviði fyrir sig.

Heilsustefnan.
    Heilbrigðismál eru langtímamál og það er mjög mikilvægt að skipuleggja þjónustuna til langs tíma. Þess vegna var samin heilsustefna í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hún hafði það að markmiði að efla forvarnir, sérstaklega hjá börnum og ungmennum. Áhersluþættirnir voru: heilsuefling, hreyfing, næring og geðvernd.
    Tilgreindur var fjöldi aðgerða og mælanlega markmið. Fjöldi aðila kom að þessari stefnumótun sem kynnt var 19. nóvember 2008.
    Ögmundur Jónasson stakk stefnunni ofan í skúffu og hefur henni ekkert verið fylgt eftir ef undan er skilið bann við transfitusýrum. Það mál hefur þó fyrst og fremst með að gera frumkvæði Sifjar Friðleifsdóttur frekar en áhuga núverandi ríkisstjórnar á forvarnarmálum. Hvatt er til að heilsustefnunni verði komið í framkvæmd.

Rafræn sjúkraskrá.
    Á árinu 2008 samþykkti Alþingi lagaramma sem ruddi úr vegi öllum hindrunum fyrir rafrænni sjúkraskrá. Hópur undir forystu Þorvaldar Ingvarssonar, lækningaforstjóra á Sjúkrahúsinu á Akureyri, hafði unnið framkvæmdaráætlun um uppbyggingu skrárinnar. Mikilvægt er að fara yfir það mál núna og kanna hvar það er statt. Rafræn sjúkraskrá eykur öryggi sjúklinga og minnkar kostnað. Ein af forsendum fyrir kerfinu er færri og öflugri stofnanir.

Endurgreiðslukerfi sjúklinga.
    Hópur undir forystu Péturs Blöndals og Ástu R. Jóhannesdóttur var langt kominn með breytt endurgreiðslukerfi fyrir sjúklinga. Markmiðið var að lækka greiðslubyrði langveikra og aðstandenda þeirra en færa greiðslubyrðina þess í stað til þeirra sem minna þurfa á þjónustunni að halda. Nýtt fyrirkomulag hefur líka þann kost að það eykur fjárhagslegt hagræði í þjónustunni.
    Ögmundur Jónasson stöðvaði þá vinnu en Álfheiður Ingadóttir hóf aftur starf í tengslum við lyfjakostnað. Mikilvægt er að klára þá vinnu sem fyrst og innleiða nýtt fyrirkomulag.

Fjárhagsmódel fyrir heilbrigðisstofnanir.
    Eitt af deilumálum innan heilbrigðisþjónustunnar hefur verið fjárframlög til stofnana. Ein af ástæðunum er að fjárhagsmódelið sem notað er til að skipta fjármunum á milli stofnana er barn síns tíma. Mikilvægt er að fjárframlög byggi á skýrum og samhæfðum reglum. Grunnur að nýju módeli er til staðar í ráðuneytinu. Það er einfaldara og gagnsærra og byggt upp á skýrari forsendum. Ljúka þarf þessari vinnu.

Sameining ráðuneytanna.
    Enginn vafi er á að það var mjög óskynsamlegt að sameina tvö stærstu ráðuneytin. Heilbrigðismálin eru yfirgripsmikill málaflokkur sem verður að sinna. Það hefur ekki verið gert eins og öllum er ljóst sem kynnt sér hafa heilbrigðiskafla fjárlaga. Stefnumótun er nauðsynleg og hún verður ekki framkvæmd án samráðs og samvinnu við það fólk sem starfar við þjónustuna. Allar fullyrðingar um samstarf á milli stofnana innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar hafa reynst innantómar.

Samningar við sveitarfélög.
    Stærri sveitarfélög eru vel í stakk búin til að taka að sér fleiri verkefni. Reykjavíkurborg hefur tekið að sér heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu. Akureyri og Höfn í Hornafirði hafa á sinni könnu heimahjúkrun, heilsugæslu og hjúkrunarheimili. Mörg önnur sveitarfélög hafa lýst yfir áhuga á að koma að slíkum verkefnum og er það skoðun 2. minnihluta að ekkert komi í veg fyrir það ef samningar eru vel skilgreindir.

Heilsugæslan.
    Ekkert er ofsagt um mikilvægi heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga. Mikilvægt er að vinna skipulega að stefnumótun á því sviði. Er hér bent á skýrslu vinnuhóps undir forystu Guðjóns Magnússonar frá desember 2008. Þar komu að málum ekki eingöngu fagfólk í heilbrigðisgeiranum heldur einnig forystumenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Áherslur þessara aðila voru mjög svipaðar. Ekki hefur enn verið tekin afstaða til þeirrar vinnu hjá ráðherrum vinstri stjórnarinnar.

Heilsusvæði.
    Áherslur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var að undirbúa eitt norrænt heilsusvæði. Það hefði þýtt möguleika á að fólk leitaði sér lækninga á milli Norðurlandanna. Var þetta eitt af áherslumálum Íslands sem forystulands í Norðurlandaráði 2009. Einnig var hafið samstarf á milli Íslands og Svíþjóðar á sviði lyfjamála. Þessu hefur ekki verið fylgt eftir og að auki bannaði Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, útleigu á skurðstofum til að þjónusta erlenda sjúklinga. Mikilvægt er að Íslendingar nýti sér þá möguleika sem eru fyrir hendi á sviði ferðatengdrar heilbrigðisþjónustu. Hér er til staðar mannauður og aðstaða.

Misrétti í heilbrigðisþjónustu.
    Formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga benti á að hættan á misrétti í heilbrigðisþjónustunni hefði aldrei verið meiri. Þetta er rétt hjá formanninum. Það hefur aldrei verið meiri hætta á tvöföldu heilbrigðiskerfi en núna. Hættan á tvöföldu heilbrigðiskerfi skapast þegar að framboð er ekki nægjanlegt. Við þær aðstæður skapast svigrúm fyrir aðila að vera utan kerfis og við þessu verður að bregðast.

Alþingi, 30. nóv. 2010.

Guðlaugur Þór Þórðarson.



Fskj. 1

Minnisblað frá heilbrigðisráðuneytinu um skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu.
(27. janúar 2009.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fskj. 2.

Stofnanir í rekstri á árinu 2003 og 2009.


Raðað eftir hlutfallslegum frávikum.


KD L/H Fjárlög
2009
Ríkisreikn
2009
Fjárlög
2008
Ríkisreikn
2008
SV H St. Jósefsspítali, Sólvangur 1.469.500 1.512.966 1.363.500 1.637.454
NA L Heilbrigðisstofnun Austurlands 2.112.600 2.281.039 1.761.900 2.260.152
S L Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.824.400 1.899.459 1.609.800 1.884.786
RVK H Múlabær, Reykjavík 78.600 72.693 59.900 69.057
NA L Uppsalir, Fáskrúðsfirði 126.800 137.120 118.200 135.438
NA L Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 1.013.100 1.013.639 907.100 1.008.694
RVK H Fríðuhús, Reykjavík 39.100 39.660 32.000 36.595
SV H Sunnuhlíð, Kópavogi 557.600 560.117 504.200 566.194
S L Hjallatún, Vík 103.300 102.834 86.200 105.438
RVK H Hlíðarbær, Reykjavík 52.600 51.329 42.500 47.205
RVK H Landspítali 35.553.800 38.975.695 35.565.500 40.626.114
S L Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 702.500 725.513 640.300 746.316
RVK H Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 656.600 667.700 602.200 661.000
NA L Sjúkrahúsið á Akureyri 4.497.500 4.725.093 4.264.000 4.766.926
NV L Höfði, Akranesi 457.300 457.765 402.400 463.033
S L Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 228.300 215.972 214.100 224.425
S L Garðvangur, Garði 290.400 288.695 257.200 285.094
NV L Barmahlíð, Reykhólum 104.700 108.170 90.500 99.757
RVK H Hjúkrunarheimilið Eir 1.336.700 1.380.511 1.193.600 1.357.164
RVK H Sóltún, Reykjavík 993.000 1.025.226 894.500 1.008.081
RVK H Lindargata, Reykjavík 47.300 46.568 39.500 42.388
RVK H Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 95.200 87.173 92.100 111.652
RVK H Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 621.500 640.956 563.200 616.950
RVK H Hjúkrunarheimilið Skjól 786.300 791.087 702.400 797.745
NV L Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 280.800 274.062 225.800 241.190
SV H Reykjalundur, Mosfellsbæ 1.352.900 1.387.000 1.236.900 1.349.100
RVK H Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 577.100 596.586 549.400 625.571
NA L Dalbær, Dalvík 247.100 252.714 212.900 237.194
NV L Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 278.600 283.010 241.700 268.858
NA L Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 164.400 156.807 140.900 149.050
SV H Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 108.400 111.100 98.800 105.500
SV H Holtsbúð, Garðabæ 319.700 315.530 276.100 301.325
S L Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 555.100 562.800 500.400 525.500
SV H Hrafnista, Hafnarfirði 1.379.400 1.377.641 1.253.300 1.365.124
RVK H Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 457.400 465.900 407.600 434.900
SV H Vistheimilið Bjarg 55.100 55.800 49.200 51.600
NA L Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 478.800 483.800 438.200 470.400
S L Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 266.200 253.217 238.300 246.158
NA L Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 182.600 181.638 168.800 163.104
RVK H Grund, Reykjavík 1.470.300 1.428.977 1.321.900 1.381.484
SV H Hlaðgerðarkot 85.800 86.300 78.300 79.700
NV L Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 102.400 100.156 87.800 90.762
S L Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 209.000 205.220 215.800 241.255
NA L Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 1.369.300 1.312.337 1.286.600 1.262.928
RVK H Heilsugæslustöðin Lágmúla 156.300 162.900 142.500 147.500
S L Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 681.200 620.190 582.200 557.355
RVK H Seljahlíð, Reykjavík 153.700 158.872 183.700 178.813
S L Kumbaravogur, Stokkseyri 317.700 267.750 295.500 295.196
RVK H Hrafnista, Reykjavík 1.904.000 1.679.676 1.865.400 1.761.274
S L Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 131.700 89.771 123.300 110.954
NV L Fellsendi, Búðardal 190.800 185.220 170.900 175.789
NV L Jaðar, Ólafsvík 88.500 68.735 72.800 67.267
RVK H Læknavaktin 284.800 279.200 246.400 254.000
NV L Fellaskjól, Grundarfirði 82.600 64.804 79.600 73.043
NA L Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 103.100 79.473 96.800 92.289
RVK H Vesturhlíð, Reykjavík 15.000 4.993 13.000 6.956
Framhald
Fjárlög
2007
Ríkisreikn
2007
Fjárlög
2006
Ríkisreikn
2006
Fjárlög
2005
Ríkisreikn
2005
St. Jósefsspítali, Sólvangur 1.120.200 1.444.646 666.400 1.271.146 609.200 715.720
Heilbrigðisstofnun Austurlands 1.661.800 1.995.408 1.481.400 1.695.838 1.388.800 1.603.218
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.367.800 1.546.298 1.225.700 1.384.823 1.128.500 1.270.600
Múlabær, Reykjavík 58.000 66.225 52.600 62.979 49.900 59.596
Uppsalir, Fáskrúðsfirði 105.400 122.697 92.800 119.271 90.500 96.605
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 832.300 942.133 751.000 850.407 710.000 807.442
Fríðuhús, Reykjavík 31.000 34.121 28.100 31.690 26.700 29.775
Sunnuhlíð, Kópavogi 470.400 511.642 401.600 463.540 381.300 409.760
Hjallatún, Vík 86.300 87.018 69.800 80.333 66.400 68.939
Hlíðarbær, Reykjavík 41.100 45.691 37.300 41.928 35.400 39.995
Landspítali 32.939.900 35.899.856 29.767.200 32.255.858 27.749.000 29.100.434
Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 618.500 653.105 558.100 591.640 516.100 547.900
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 576.200 657.248 507.300 516.976 471.300 509.400
Sjúkrahúsið á Akureyri 3.836.800 4.328.292 3.549.900 3.873.630 3.315.000 3.467.800
Höfði, Akranesi 370.300 386.578 306.300 351.598 294.500 327.224
Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 182.700 201.624 150.900 185.780 142.500 148.719
Garðvangur, Garði 245.400 264.205 224.600 259.214 210.700 216.611
Barmahlíð, Reykhólum 79.800 86.630 69.700 75.855 67.000 68.616
Hjúkrunarheimilið Eir 1.131.700 1.208.103 979.800 1.053.345 925.400 937.216
Sóltún, Reykjavík 819.700 909.830 783.900 924.853 734.800 709.414
Lindargata, Reykjavík 38.300 40.378 34.700 37.863 32.900 35.655
Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 74.600 77.924 67.600 72.721 64.200 67.862
Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 549.400 570.840 465.800 507.789 442.300 461.825
Hjúkrunarheimilið Skjól 688.600 729.999 591.200 633.966 537.700 563.720
Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 199.300 209.389 175.300 200.854 170.700 175.710
Reykjalundur, Mosfellsbæ 1.196.500 1.262.479 1.079.800 1.108.600 971.400 1.034.400
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 536.600 584.913 452.600 464.591 432.400 374.728
Dalbær, Dalvík 208.800 223.058 182.800 192.678 172.900 170.654
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 226.700 229.821 203.100 211.165 191.300 195.314
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 121.900 129.566 104.700 128.481 99.500 101.246
Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 95.400 96.300 86.800 88.900 81.000 82.600
Holtsbúð, Garðabæ 251.700 255.211 213.200 225.741 201.300 199.174
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 473.000 476.969 420.500 426.700 397.800 408.700
Hrafnista, Hafnarfirði 1.170.000 1.187.676 997.000 1.080.634 933.400 942.428
Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 403.200 395.800 375.100 372.600 355.200 352.300
Vistheimilið Bjarg 47.600 47.800 42.200 43.400 40.100 40.600
Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 450.400 444.600 424.900 413.308 401.700 381.200
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 235.200 230.897 190.900 212.047 178.300 167.939
Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 150.700 151.771 133.000 141.277 125.800 123.067
Grund, Reykjavík 1.305.300 1.281.651 1.119.900 1.121.258 1.051.100 1.041.121
Hlaðgerðarkot 75.800 75.800 69.900 69.900 65.600 66.900
Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 86.400 87.899 74.200 76.501 68.300 67.314
Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 255.300 215.679 220.800 221.642 212.700 206.848
Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 1.226.600 1.184.132 963.100 948.692 883.100 836.439
Heilsugæslustöðin Lágmúla 148.900 141.483 140.700 126.542 132.700 118.300
Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 532.600 506.619 465.700 481.524 441.400 434.193
Seljahlíð, Reykjavík 207.500 180.606 178.400 197.346 167.700 162.931
Kumbaravogur, Stokkseyri 300.600 266.729 264.100 254.336 254.500 229.017
Hrafnista, Reykjavík 1.830.500 1.649.151 1.593.000 1.539.877 1.537.400 1.388.767
Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 112.300 103.490 98.000 105.012 91.500 87.862
Fellsendi, Búðardal 155.300 114.828 138.900 96.349 96.900 79.921
Jaðar, Ólafsvík 74.500 64.599 66.100 57.699 52.500 52.642
Læknavaktin 296.100 247.600 282.200 239.100 267.700 211.100
Fellaskjól, Grundarfirði 77.400 66.392 65.900 52.037 64.500 43.952
Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 96.900 83.437 87.200 71.412 83.200 43.272
Vesturhlíð, Reykjavík 12.600 6.780 11.400 6.436 10.800 5.962


Framhald Fjárlög
2004
Ríkisreikn
2004
Fjárlög
2003
Ríkisreikn
2003
St. Jósefsspítali, Sólvangur 588.400 679.653 566.700 636.270
Heilbrigðisstofnun Austurlands 1.236.900 1.420.211 1.140.900 1.376.645
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.046.800 1.250.679 949.600 1.107.960
Múlabær, Reykjavík 46.800 56.788 45.500 52.545
Uppsalir, Fáskrúðsfirði 82.700 85.858 55.900 56.177
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 669.100 763.958 615.900 736.613
Fríðuhús, Reykjavík 25.000 28.361 24.300 26.779
Sunnuhlíð, Kópavogi 356.000 402.895 336.600 381.309
Hjallatún, Vík 62.900 70.946 44.800 53.099
Hlíðarbær, Reykjavík 33.200 38.159 32.300 35.890
Landspítali 26.255.900 27.902.626 25.358.700 27.636.839
Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 491.200 527.959 460.500 527.307
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 453.500 482.200 399.600 468.912
Sjúkrahúsið á Akureyri 3.142.400 3.230.191 2.864.000 3.102.273
Höfði, Akranesi 275.600 283.718 183.600 198.385
Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 137.400 146.212 99.500 120.016
Garðvangur, Garði 197.800 210.834 187.400 209.442
Barmahlíð, Reykhólum 61.600 63.552 51.400 57.196
Hjúkrunarheimilið Eir 833.100 879.735 586.700 620.312
Sóltún, Reykjavík 706.500 709.955 679.000 675.713
Lindargata, Reykjavík 30.900 33.759 30.000 31.402
Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 60.300 65.068 58.600 59.051
Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 417.800 426.802 387.800 413.968
Hjúkrunarheimilið Skjól 502.600 534.643 503.500 497.428
Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 157.900 168.441 84.300 91.834
Reykjalundur, Mosfellsbæ 903.800 936.700 868.500 922.100
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 333.100 355.335 307.700 343.368
Dalbær, Dalvík 159.700 160.909 107.000 113.771
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 185.100 192.287 173.200 188.310
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 95.500 94.534 75.400 79.457
Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 72.300 84.700 69.800 69.900
Holtsbúð, Garðabæ 187.400 181.472 122.600 160.329
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 390.700 432.400 369.800 405.200
Hrafnista, Hafnarfirði 872.400 895.154 672.400 704.249
Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 316.900 310.400 300.400 338.200
Vistheimilið Bjarg 37.700 38.300 36.600 36.600
Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 374.100 365.400 310.200 361.102
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 155.800 157.555 110.600 117.413
Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 117.600 119.974 88.900 93.145
Grund, Reykjavík 1.007.500 996.094 780.500 858.013
Hlaðgerðarkot 63.600 63.600 61.800 61.800
Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 63.300 60.187 41.200 41.183
Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 199.600 213.227 161.700 169.081
Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 679.200 748.043 494.900 518.347
Heilsugæslustöðin Lágmúla 122.800 114.400 107.300 112.360
Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 410.800 416.210 261.700 260.285
Seljahlíð, Reykjavík 186.900 161.175 128.800 127.192
Kumbaravogur, Stokkseyri 238.900 216.953 174.900 183.257
Hrafnista, Reykjavík 1.312.300 1.156.026 820.400 859.429
Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 85.000 85.222 68.400 73.309
Fellsendi, Búðardal 75.800 75.883 55.900 72.595
Jaðar, Ólafsvík 49.800 45.807 20.800 26.019
Læknavaktin 258.100 209.700 196.600 195.240
Fellaskjól, Grundarfirði 56.700 40.661 40.200 28.659
Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 71.000 35.104 30.600 36.369
Vesturhlíð, Reykjavík 10.200 6.565 9.900 9.588
Framhald Ríkisreikn
2003–2009
Fjárlög
2003–2009
Frávik
í fjárh.
Frávik
%
St. Jósefsspítali, Sólvangur 7.897.855 6.383.900 1.513.955 23,7%
Heilbrigðisstofnun Austurlands 12.632.511 10.784.300 1.848.211 17,1%
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 10.344.605 9.152.600 1.192.005 13,0%
Múlabær, Reykjavík 439.883 391.300 48.583 12,4%
Uppsalir, Fáskrúðsfirði 753.166 672.300 80.866 12,0%
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 6.122.886 5.498.500 624.386 11,4%
Fríðuhús, Reykjavík 226.981 206.200 20.781 10,1%
Sunnuhlíð, Kópavogi 3.295.457 3.007.700 287.757 9,6%
Hjallatún, Vík 568.607 519.700 48.907 9,4%
Hlíðarbær, Reykjavík 300.197 274.400 25.797 9,4%
Landspítali 232.397.422 213.190.000 19.207.422 9,0%
Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 4.319.740 3.987.200 332.540 8,3%
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 3.963.436 3.666.700 296.736 8,1%
Sjúkrahúsið á Akureyri 27.494.205 25.469.600 2.024.605 7,9%
Höfði, Akranesi 2.468.301 2.290.000 178.301 7,8%
Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 1.242.748 1.155.400 87.348 7,6%
Garðvangur, Garði 1.734.095 1.613.500 120.595 7,5%
Barmahlíð, Reykhólum 559.776 524.700 35.076 6,7%
Hjúkrunarheimilið Eir 7.436.386 6.987.000 449.386 6,4%
Sóltún, Reykjavík 5.963.072 5.611.400 351.672 6,3%
Lindargata, Reykjavík 268.013 253.600 14.413 5,7%
Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 541.451 512.600 28.851 5,6%
Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 3.639.130 3.447.800 191.330 5,5%
Hjúkrunarheimilið Skjól 4.548.588 4.312.300 236.288 5,5%
Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 1.361.480 1.294.100 67.380 5,2%
Reykjalundur, Mosfellsbæ 8.000.379 7.609.800 390.579 5,1%
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 3.345.092 3.188.900 156.192 4,9%
Dalbær, Dalvík 1.350.978 1.291.200 59.778 4,6%
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 1.568.765 1.499.700 69.065 4,6%
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 839.141 802.300 36.841 4,6%
Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 639.000 612.500 26.500 4,3%
Holtsbúð, Garðabæ 1.638.782 1.572.000 66.782 4,2%
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 3.238.269 3.107.300 130.969 4,2%
Hrafnista, Hafnarfirði 7.552.906 7.277.900 275.006 3,8%
Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 2.670.100 2.615.800 54.300 2,1%
Vistheimilið Bjarg 314.100 308.500 5.600 1,8%
Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 2.919.810 2.878.300 41.510 1,4%
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 1.385.226 1.375.300 9.926 0,7%
Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 973.976 967.400 6.576 0,7%
Grund, Reykjavík 8.108.598 8.056.500 52.098 0,6%
Hlaðgerðarkot 504.000 500.800 3.200 0,6%
Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 524.002 523.600 402 0,1%
Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 1.472.952 1.474.900 -1.948 -0,1%
Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 6.810.918 6.902.800 -91.882 -1,3%
Heilsugæslustöðin Lágmúla 923.485 951.200 -27.715 -2,9%
Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 3.276.376 3.375.600 -99.224 -2,9%
Seljahlíð, Reykjavík 1.166.935 1.206.700 -39.765 -3,3%
Kumbaravogur, Stokkseyri 1.713.238 1.846.200 -132.962 -7,2%
Hrafnista, Reykjavík 10.034.200 10.863.000 -828.800 -7,6%
Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 655.620 710.200 -54.580 -7,7%
Fellsendi, Búðardal 800.585 884.500 -83.915 -9,5%
Jaðar, Ólafsvík 382.768 425.000 -42.232 -9,9%
Læknavaktin 1.635.940 1.831.900 -195.960 -10,7%
Fellaskjól, Grundarfirði 369.548 466.900 -97.352 -20,9%
Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 441.356 568.800 -127.444 -22,4%
Vesturhlíð, Reykjavík 47.280 82.900 -35.620 -43,0%
415.824.316 386.985.200 28.839.116 7,5%

Stofnanir í rekstri á árinu 2003 og 2009.


Höfuðborgarsvæði og landsbyggð, raðað eftir hlutföllum.


KD L/H Fjárlög
2009
Ríkisreikn
2009
Fjárlög
2008
Ríkisreikn
2008
Höfuðborgarsvæðið
SV H St. Jósefsspítali, Sólvangur 1.469.500 1.512.966 1.363.500 1.637.454
RVK H Múlabær, Reykjavík 78.600 72.693 59.900 69.057
RVK H Fríðuhús, Reykjavík 39.100 39.660 32.000 36.595
SV H Sunnuhlíð, Kópavogi 557.600 560.117 504.200 566.194
RVK H 52.600 51.329 42.500 47.205
RVK H Landspítali 35.553.800 38.975.695 35.565.500 40.626.114
RVK H Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 656.600 667.700 602.200 661.000
RVK H Hjúkrunarheimilið Eir 1.336.700 1.380.511 1.193.600 1.357.164
RVK H Sóltún, Reykjavík 993.000 1.025.226 894.500 1.008.081
RVK H Lindargata, Reykjavík 47.300 46.568 39.500 42.388
RVK H Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 95.200 87.173 92.100 111.652
RVK H Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 621.500 640.956 563.200 616.950
RVK H Hjúkrunarheimilið Skjól 786.300 791.087 702.400 797.745
SV H Reykjalundur, Mosfellsbæ 1.352.900 1.387.000 1.236.900 1.349.100
RVK H Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 577.100 596.586 549.400 625.571
SV H Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 108.400 111.100 98.800 105.500
SV H Holtsbúð, Garðabæ 319.700 315.530 276.100 301.325
SV H Hrafnista, Hafnarfirði 1.379.400 1.377.641 1.253.300 1.365.124
RVK H Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 457.400 465.900 407.600 434.900
SV H Vistheimilið Bjarg 55.100 55.800 49.200 51.600
RVK H Grund, Reykjavík 1.470.300 1.428.977 1.321.900 1.381.484
SV H Hlaðgerðarkot 85.800 86.300 78.300 79.700
RVK H Heilsugæslustöðin Lágmúla 156.300 162.900 142.500 147.500
RVK H Seljahlíð, Reykjavík 153.700 158.872 183.700 178.813
RVK H Hrafnista, Reykjavík 1.904.000 1.679.676 1.865.400 1.761.274
RVK H Læknavaktin 284.800 279.200 246.400 254.000
RVK H Vesturhlíð, Reykjavík 15.000 4.993 13.000 6.956
Landsbyggðin
NA L Heilbrigðisstofnun Austurlands 2.112.600 2.281.039 1.761.900 2.260.152
S L Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.824.400 1.899.459 1.609.800 1.884.786
NA L Uppsalir, Fáskrúðsfirði 126.800 137.120 118.200 135.438
NA L Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 1.013.100 1.013.639 907.100 1.008.694
S L Hjallatún, Vík 103.300 102.834 86.200 105.438
S L Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 702.500 725.513 640.300 746.316
NA L Sjúkrahúsið á Akureyri 4.497.500 4.725.093 4.264.000 4.766.926
NV L Höfði, Akranesi 457.300 457.765 402.400 463.033
S L Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 228.300 215.972 214.100 224.425
S L Garðvangur, Garði 290.400 288.695 257.200 285.094
NV L Barmahlíð, Reykhólum 104.700 108.170 90.500 99.757
NV L Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 280.800 274.062 225.800 241.190
NA L Dalbær, Dalvík 247.100 252.714 212.900 237.194
NV L Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 278.600 283.010 241.700 268.858
NA L Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 164.400 156.807 140.900 149.050
S L Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 555.100 562.800 500.400 525.500
NA L Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 478.800 483.800 438.200 470.400
S L Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 266.200 253.217 238.300 246.158
NA L Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 182.600 181.638 168.800 163.104
NV L Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 102.400 100.156 87.800 90.762
S L Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 209.000 205.220 215.800 241.255
NA L Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 1.369.300 1.312.337 1.286.600 1.262.928
S L Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 681.200 620.190 582.200 557.355
S L Kumbaravogur, Stokkseyri 317.700 267.750 295.500 295.196
S L Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 131.700 89.771 123.300 110.954
NV L Fellsendi, Búðardal 190.800 185.220 170.900 175.789
NV L Jaðar, Ólafsvík 88.500 68.735 72.800 67.267
NV L Fellaskjól, Grundarfirði 82.600 64.804 79.600 73.043
NA L Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 103.100 79.473 96.800 92.289
Framhald Fjárlög
2007
Ríkisreikn
2007
Fjárlög
2006
Ríkisreikn
2006
Fjárlög
2005
Ríkisreikn
2005
Höfuðborgarsvæðið:
St. Jósefsspítali, Sólvangur 1.120.200 1.444.646 666.400 1.271.146 609.200 715.720
Múlabær, Reykjavík 58.000 66.225 52.600 62.979 49.900 59.596
Fríðuhús, Reykjavík 31.000 34.121 28.100 31.690 26.700 29.775
Sunnuhlíð, Kópavogi 470.400 511.642 401.600 463.540 381.300 409.760
41.100 45.691 37.300 41.928 35.400 39.995
Landspítali 32.939.900 35.899.856 29.767.200 32.255.858 27.749.000 29.100.434
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 576.200 657.248 507.300 516.976 471.300 509.400
Hjúkrunarheimilið Eir 1.131.700 1.208.103 979.800 1.053.345 925.400 937.216
Sóltún, Reykjavík 819.700 909.830 783.900 924.853 734.800 709.414
Lindargata, Reykjavík 38.300 40.378 34.700 37.863 32.900 35.655
Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 74.600 77.924 67.600 72.721 64.200 67.862
Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 549.400 570.840 465.800 507.789 442.300 461.825
Hjúkrunarheimilið Skjól 688.600 729.999 591.200 633.966 537.700 563.720
Reykjalundur, Mosfellsbæ 1.196.500 1.262.479 1.079.800 1.108.600 971.400 1.034.400
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 536.600 584.913 452.600 464.591 432.400 374.728
Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 95.400 96.300 86.800 88.900 81.000 82.600
Holtsbúð, Garðabæ 251.700 255.211 213.200 225.741 201.300 199.174
Hrafnista, Hafnarfirði 1.170.000 1.187.676 997.000 1.080.634 933.400 942.428
Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 403.200 395.800 375.100 372.600 355.200 352.300
Vistheimilið Bjarg 47.600 47.800 42.200 43.400 40.100 40.600
Grund, Reykjavík 1.305.300 1.281.651 1.119.900 1.121.258 1.051.100 1.041.121
Hlaðgerðarkot 75.800 75.800 69.900 69.900 65.600 66.900
Heilsugæslustöðin Lágmúla 148.900 141.483 140.700 126.542 132.700 118.300
Seljahlíð, Reykjavík 207.500 180.606 178.400 197.346 167.700 162.931
Hrafnista, Reykjavík 1.830.500 1.649.151 1.593.000 1.539.877 1.537.400 1.388.767
Læknavaktin 296.100 247.600 282.200 239.100 267.700 211.100
Vesturhlíð, Reykjavík 12.600 6.780 11.400 6.436 10.800 5.962
Landsbyggðin:
Heilbrigðisstofnun Austurlands 1.661.800 1.995.408 1.481.400 1.695.838 1.388.800 1.603.218
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.367.800 1.546.298 1.225.700 1.384.823 1.128.500 1.270.600
Uppsalir, Fáskrúðsfirði 105.400 122.697 92.800 119.271 90.500 96.605
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 832.300 942.133 751.000 850.407 710.000 807.442
Hjallatún, Vík 86.300 87.018 69.800 80.333 66.400 68.939
Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 618.500 653.105 558.100 591.640 516.100 547.900
Sjúkrahúsið á Akureyri 3.836.800 4.328.292 3.549.900 3.873.630 3.315.000 3.467.800
Höfði, Akranesi 370.300 386.578 306.300 351.598 294.500 327.224
Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 182.700 201.624 150.900 185.780 142.500 148.719
Garðvangur, Garði 245.400 264.205 224.600 259.214 210.700 216.611
Barmahlíð, Reykhólum 79.800 86.630 69.700 75.855 67.000 68.616
Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 199.300 209.389 175.300 200.854 170.700 175.710
Dalbær, Dalvík 208.800 223.058 182.800 192.678 172.900 170.654
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 226.700 229.821 203.100 211.165 191.300 195.314
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 121.900 129.566 104.700 128.481 99.500 101.246
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 473.000 476.969 420.500 426.700 397.800 408.700
Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 450.400 444.600 424.900 413.308 401.700 381.200
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 235.200 230.897 190.900 212.047 178.300 167.939
Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 150.700 151.771 133.000 141.277 125.800 123.067
Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 86.400 87.899 74.200 76.501 68.300 67.314
Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 255.300 215.679 220.800 221.642 212.700 206.848
Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 1.226.600 1.184.132 963.100 948.692 883.100 836.439
Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 532.600 506.619 465.700 481.524 441.400 434.193
Kumbaravogur, Stokkseyri 300.600 266.729 264.100 254.336 254.500 229.017
Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 112.300 103.490 98.000 105.012 91.500 87.862
Fellsendi, Búðardal 155.300 114.828 138.900 96.349 96.900 79.921
Jaðar, Ólafsvík 74.500 64.599 66.100 57.699 52.500 52.642
Fellaskjól, Grundarfirði 77.400 66.392 65.900 52.037 64.500 43.952
Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 96.900 83.437 87.200 71.412 83.200 43.272
Framhald Fjárlög
2004
Ríkisreikn
2004
Fjárlög
2003
Ríkisreikn
2003
Höfuðborgarsvæðið:
St. Jósefsspítali, Sólvangur 588.400 679.653 566.700 636.270
Múlabær, Reykjavík 46.800 56.788 45.500 52.545
Fríðuhús, Reykjavík 25.000 28.361 24.300 26.779
Sunnuhlíð, Kópavogi 356.000 402.895 336.600 381.309
33.200 38.159 32.300 35.890
Landspítali 26.255.900 27.902.626 25.358.700 27.636.839
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 453.500 482.200 399.600 468.912
Hjúkrunarheimilið Eir 833.100 879.735 586.700 620.312
Sóltún, Reykjavík 706.500 709.955 679.000 675.713
Lindargata, Reykjavík 30.900 33.759 30.000 31.402
Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 60.300 65.068 58.600 59.051
Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 417.800 426.802 387.800 413.968
Hjúkrunarheimilið Skjól 502.600 534.643 503.500 497.428
Reykjalundur, Mosfellsbæ 903.800 936.700 868.500 922.100
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 333.100 355.335 307.700 343.368
Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 72.300 84.700 69.800 69.900
Holtsbúð, Garðabæ 187.400 181.472 122.600 160.329
Hrafnista, Hafnarfirði 872.400 895.154 672.400 704.249
Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 316.900 310.400 300.400 338.200
Vistheimilið Bjarg 37.700 38.300 36.600 36.600
Grund, Reykjavík 1.007.500 996.094 780.500 858.013
Hlaðgerðarkot 63.600 63.600 61.800 61.800
Heilsugæslustöðin Lágmúla 122.800 114.400 107.300 112.360
Seljahlíð, Reykjavík 186.900 161.175 128.800 127.192
Hrafnista, Reykjavík 1.312.300 1.156.026 820.400 859.429
Læknavaktin 258.100 209.700 196.600 195.240
Vesturhlíð, Reykjavík 10.200 6.565 9.900 9.588
Landsbyggðin:
Heilbrigðisstofnun Austurlands 1.236.900 1.420.211 1.140.900 1.376.645
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.046.800 1.250.679 949.600 1.107.960
Uppsalir, Fáskrúðsfirði 82.700 85.858 55.900 56.177
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 669.100 763.958 615.900 736.613
Hjallatún, Vík 62.900 70.946 44.800 53.099
Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 491.200 527.959 460.500 527.307
Sjúkrahúsið á Akureyri 3.142.400 3.230.191 2.864.000 3.102.273
Höfði, Akranesi 275.600 283.718 183.600 198.385
Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 137.400 146.212 99.500 120.016
Garðvangur, Garði 197.800 210.834 187.400 209.442
Barmahlíð, Reykhólum 61.600 63.552 51.400 57.196
Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 157.900 168.441 84.300 91.834
Dalbær, Dalvík 159.700 160.909 107.000 113.771
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 185.100 192.287 173.200 188.310
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 95.500 94.534 75.400 79.457
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 390.700 432.400 369.800 405.200
Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 374.100 365.400 310.200 361.102
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 155.800 157.555 110.600 117.413
Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 117.600 119.974 88.900 93.145
Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 63.300 60.187 41.200 41.183
Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 199.600 213.227 161.700 169.081
Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 679.200 748.043 494.900 518.347
Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 410.800 416.210 261.700 260.285
Kumbaravogur, Stokkseyri 238.900 216.953 174.900 183.257
Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 85.000 85.222 68.400 73.309
Fellsendi, Búðardal 75.800 75.883 55.900 72.595
Jaðar, Ólafsvík 49.800 45.807 20.800 26.019
Fellaskjól, Grundarfirði 56.700 40.661 40.200 28.659
Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 71.000 35.104 30.600 36.369
Framhald Ríkisreikn
2003–2009
Fjárlög
2003–2009
Frávik
í fjárh.
Frávik
%
St. Jósefsspítali, Sólvangur 7.897.855 6.383.900 1.513.955 23,7%
Múlabær, Reykjavík 439.883 391.300 48.583 12,4%
Fríðuhús, Reykjavík 226.981 206.200 20.781 10,1%
Sunnuhlíð, Kópavogi 3.295.457 3.007.700 287.757 9,6%
300.197 274.400 25.797 9,4%
Landspítali 232.397.422 213.190.000 19.207.422 9,0%
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 3.963.436 3.666.700 296.736 8,1%
Hjúkrunarheimilið Eir 7.436.386 6.987.000 449.386 6,4%
Sóltún, Reykjavík 5.963.072 5.611.400 351.672 6,3%
Lindargata, Reykjavík 268.013 253.600 14.413 5,7%
Dagvist og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 541.451 512.600 28.851 5,6%
Hjúkrunarheimilið Skógarbæ 3.639.130 3.447.800 191.330 5,5%
Hjúkrunarheimilið Skjól 4.548.588 4.312.300 236.288 5,5%
Reykjalundur, Mosfellsbæ 8.000.379 7.609.800 390.579 5,1%
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum 3.345.092 3.188.900 156.192 4,9%
Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða 639.000 612.500 26.500 4,3%
Holtsbúð, Garðabæ 1.638.782 1.572.000 66.782 4,2%
Hrafnista, Hafnarfirði 7.552.906 7.277.900 275.006 3,8%
Sjálfsbjörg, hjúkrunar-og endurhæfingarstofnun 2.670.100 2.615.800 54.300 2,1%
Vistheimilið Bjarg 314.100 308.500 5.600 1,8%
Grund, Reykjavík 8.108.598 8.056.500 52.098 0,6%
Hlaðgerðarkot 504.000 500.800 3.200 0,6%
Heilsugæslustöðin Lágmúla 923.485 951.200 -27.715 -2,9%
Seljahlíð, Reykjavík 1.166.935 1.206.700 -39.765 -3,3%
Hrafnista, Reykjavík 10.034.200 10.863.000 -828.800 -7,6%
Læknavaktin 1.635.940 1.831.900 -195.960 -10,7%
Vesturhlíð, Reykjavík 47.280 82.900 -35.620 -43,0%
Höfuðborgarsvæðið samtals 317.498.668 294.923.300 22.575.368 7,7%
Heilbrigðisstofnun Austurlands 12.632.511 10.784.300 1.848.211 17,1%
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 10.344.605 9.152.600 1.192.005 13,0%
Uppsalir, Fáskrúðsfirði 753.166 672.300 80.866 12,0%
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 6.122.886 5.498.500 624.386 11,4%
Hjallatún, Vík 568.607 519.700 48.907 9,4%
Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 4.319.740 3.987.200 332.540 8,3%
Sjúkrahúsið á Akureyri 27.494.205 25.469.600 2.024.605 7,9%
Höfði, Akranesi 2.468.301 2.290.000 178.301 7,8%
Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu 1.242.748 1.155.400 87.348 7,6%
Garðvangur, Garði 1.734.095 1.613.500 120.595 7,5%
Barmahlíð, Reykhólum 559.776 524.700 35.076 6,7%
Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi 1.361.480 1.294.100 67.380 5,2%
Dalbær, Dalvík 1.350.978 1.291.200 59.778 4,6%
Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði 1.568.765 1.499.700 69.065 4,6%
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði 839.141 802.300 36.841 4,6%
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands 3.238.269 3.107.300 130.969 4,2%
Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu 2.919.810 2.878.300 41.510 1,4%
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 1.385.226 1.375.300 9.926 0,7%
Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði 973.976 967.400 6.576 0,7%
Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi 524.002 523.600 402 0,1%
Samningur við Svf. Hornafjörð um öldrunarþjónustu 1.472.952 1.474.900 -1.948 -0,1%
Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu 6.810.918 6.902.800 -91.882 -1,3%
Ás/Ásbyrgi, Hveragerði 3.276.376 3.375.600 -99.224 -2,9%
Kumbaravogur, Stokkseyri 1.713.238 1.846.200 -132.962 -7,2%
Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 655.620 710.200 -54.580 -7,7%
Fellsendi, Búðardal 800.585 884.500 -83.915 -9,5%
Jaðar, Ólafsvík 382.768 425.000 -42.232 -9,9%
Fellaskjól, Grundarfirði 369.548 466.900 -97.352 -20,9%
Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn 441.356 568.800 -127.444 -22,4%
Landsbyggðin samtals 98.325.648 92.061.900 6.263.748 6,8%
415.824.316 386.985.200 28.839.116 7,5%
Fylgiskjal XVI.


Álit



um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011 (10 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.



    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar, dags. 21. október 2010. Nefndin fékk á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Ingilín Kristmannsdóttur og Hermann Sæmundsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Gerðu gestirnir grein fyrir þeim liðum fjárlagafrumvarpsins sem snúa að ráðuneytinu.
    Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá vormánuðum 2009 er m.a. sett fram sú stefna er varðar ríkisfjármálin að jöfnuði verði náð í rekstrarafkomu ríkisins eigi síðar en árið 2013. Er sú stefna sett fram í skugga mikils verðfalls og eyðingar peningalegra verðmæta og löskunar efnahagslífs þjóðarinnar sem átti rætur sínar að rekja til falls íslensku bankanna haustið 2008. Í því skyni að takmarka tjón ríkissjóðs og draga úr áhrifum bankahrunsins á komandi kynslóðir er þannig stefnt að því að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun ríkisins svo ríkisstarfsemin verði aftur sjálfbær. Er það mat höfunda frumvarpsins að gangi ríkisfjármálastefnan upp verði að fáeinum árum liðnum unnt að verja rekstrarafgangi ríkisins til þess að grynnka á skuldum ríkissjóðs. Í takt við framangreint voru við gerð fjárlagafrumvarpsins sett ákveðin markmið um samdrátt í rekstrarútgjöldum ríkissjóðs árið 2011. Fela téð markmið nánar tiltekið í sér að ná fram 9% lækkun á veltu stjórnsýslu- og eftirlitsstofnana, 7,5% lækkun á veltu hjá háskólum og 5% hjá framhaldsskólum, heilbrigðisstofnunum, stofnunum fyrir fatlaða og lögregluembættum.
    Nefndin vekur athygli á því að þeir málaflokkar sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið urðu fyrir miklum niðurskurði á yfirstandandi ári og eru áfram þeir málaflokkar sem verða fyrir einna mestum niðurskurði. Því er nauðsynlegt að vanda vel til verka og tryggja eins og framast er unnt að þjónusta skerðist sem minnst. Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs liggur fyrir að hann hefur ekki bolmagn til að standa undir áframhaldandi uppbyggingu í samgöngumálum og því er óhjákvæmilegt að hægja verulega á nýframkvæmdum. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að fjármagn verði áfram veitt til að viðhalda samgöngumannvirkjum. Telur nefndin sérstaklega mikilvægt að við útfærslu stjórnsýsluverkefna á málefnasviði ráðuneytisins verði horfa til öryggis íbúa og aðgengis þeirra að nauðsynlegri grunnþjónustu. Þá vill nefndin árétta það sjónarmið að gætt sé jafnræðis við niðurskurð á rekstrarfé stofnana.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að heildarútgjöld samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins árið 2011 eru áætluð 40.586,2 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 6.844,4 m.kr. en þær nema 16,9% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 33.741,8 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 16.725,7 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 16.941,7 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Mismunurinn, 75 m.kr., færist til hækkunar á viðskiptahreyfingum ríkissjóðs. Í frumvarpinu dragast útgjöld samgöngu- og sveitarstjónarráðuneytisins saman um 6.603,4 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2010.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 7.262,7 m.kr. og lækka því um 572,4 m.kr. Í frumvarpsumfjöllun kemur fram að rekstrarfjárveitingar flestra stofnana og verkefna sem heyra undir ráðuneytið séu lækkaðar vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Fram kemur að lækkunin hjá ráðuneytinu nemi 9% af rekstrarveltu að raungildi og þrátt fyrir að markmiðið hafi verið sett miðað við veltu þá sé það útfært eftir forgangsröð og áherslum ráðuneytisins.
    Neyslu- og rekstrartilfærslur lækka um 1.717,6 m.kr. og verða 14.734,7 m.kr. en eru 16.452,3 m.kr. í fjárlögum síðasta árs. Gert er ráð fyrir að viðhalds- og stofnkostnaður verði 11.744,4 m.kr. og er það 3.823,3 m.kr. lækkun milli ára til þess að mæta áformum um samdrátt í ríkisútgjöldum en sett var markmið um 10% lækkun. Þar vegur þyngst 3 ma.kr. lækkun á framlagi til vegaframkvæmda. Gert er ráð fyrir auknum útgjaldaskuldbindingum í viðhalds- og stofnkostnaði sem samtals nema 5,8 m.kr. Nefndin áréttar þá áherslu sem hún lagði á síðasta ári á mikilvægi þess að við skipulag þjónustu í ljósi niðurskurðar, svo sem við snjómokstur, verði leitast við að tryggja greiðar og öruggar samgöngur. Skuldbindandi samningar sem ráðuneytið hefur gert nema um 4.474,3 m.kr. á yfirstandandi ári. Samtals munu samningarnir því nema um 10,3% af heildarútgjöldum ráðuneytisins á næsta ári.
    Samkvæmt lögum nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, verða samgönguneyti og dóms- og mannréttindamálaráðuneyti sameinuð í eitt ráðuneyti, innanríkisráðuneyti, frá og með 1. janúar 2011. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011 tekur ekki mið af þeirri breytingu og því þarf að flytja breytingartillögu við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins til að sameina framangreinda fjárlagaliði.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgir framangreindu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands er gert ráð fyrir að fækkun starfsmanna vegna sameiningar ráðuneyta geti orðið nálægt 10% af núverandi starfsmannafjölda allra ráðuneyta stjórnarráðsins. Er áætlað að við það lækki launakostnað um 160 m.kr. á ári. Nefndin leggur áherslu á að allra leiða verði leitað til að tryggja að kostnaðarauki hljótist ekki af breytingunum og að niðurstaðan verði skilvirkari og hagkvæmari stjórnsýsla fyrir almenning og ríkissjóð.
    Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt frumvarpinu er ráðgert að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækki um sem nemur um 1.906 m.kr. að raungildi frá fjárlögum þessa árs sem skýrist fyrst og fremst af áformum stjórnvalda um lækkun ríkisútgjalda. Kemur téð lækkun að stærstum hluta fram sem lækkun á sérstökum viðbótarframlögum til sjóðsins. Þess má geta að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2010 var gert ráð fyrir að framlög til Jöfnunarsjóðsins næmu 11.653 m.kr. en við afgreiðslu málsins á Alþingis var sú tala fjárhæð hækkuð í 13.645 m.kr. í þeim tilgangi að mæta hækkun launakostnaðar sveitarfélaga og hliðaráhrifum skattkerfisbreytinga. Kom stærstur hluti hækkunarinnar fram í aukningu á sérstökum viðbótarframlögum til sjóðsins. Mat nefndarinnar er að eðli viðbótarframlaganna sé slíkt að koma verði til móts við óskir sveitarfélaga um að draga úr lækkun þeirra. Nú rúmum tveimur árum frá falli íslensku bankanna hefur fjárhagsstaða sveitarfélaganna síst af öllu batnað og er það verulegt efni til áhyggna að mati nefndarinnar. Telur nefndin að þeim markmiðum sjóðsins, að bæta sveitarfélögum upp lágar tekjur í samanburði við sambærileg sveitarfélög og jafna aðstöðu sveitarfélaga vegna mismikilla verkefna, verði vart náð nema auknum framlögum verði ráðstafað til þeirra sveitarfélaga sem búa við hvað veikasta fjárhagslega stöðu, þ.e. sé von til þess að framlagið verði til þess að koma þeim á réttan kjöl. Má benda á í þessu sambandi að aukin fjárhagsleg umsvif margra sveitarfélaga á meðan góðæri ríkti leiddu ekki endilega til aukinnar og betri þjónustu fyrir íbúa heldur var framtíðartekjum ráðstafað til uppbyggingar sem ekki er fyrirsjáanlegt að skili tekjuaukningu í náinni framtíð. Nefndin telur engu að síður sérstakt tilefni til þess að fagna þeim merka árangri sem náðst hefur varðandi tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða var undirritað hinn 6. júlí sl. og er fjárhagslegur grundvöllur þeirra verkefna því væntanlega tryggður.
    Í kjölfar falls íslensku bankanna versnaði afkoma ríkissjóðs m.a. í ljósi útgjaldaaukningar vegna húsaleigubóta. Á árinu 2010 hækkuðu tilfærsluframlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um rúmar 640 m.kr. vegna stigvaxandi útgjalda við húsaleigubætur sveitarfélaga. Samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er gert ráð fyrir því að ríkið taki áfram þátt í að fjármagna slíkar bætur. Þá kemur fram að horfur séu á að kostnaður í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá apríl 2008 aukist um 556 m.kr en á er móti nefnt að gert sé ráð fyrir því að gripið verði til aðhaldsráðstafana sem leiði til þess að framlagið geti verið óbreytt frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 2010. Alþingi hefur komið því til leiðar að tekjur einstaklinga við útgreiðslur úr séreignarsjóðum skerða ekki húsaleigubætur. Er það hluti af aðgerðum hennar til að koma á betra jafnvægi á skulda- og eignastöðu, greiðslugetu og fjárskuldbindingu einstaklinga. Verulegar breytingar hafa orðið á hlutverki sveitarfélaga á sviði húsnæðismála undanfarna tvo áratugi. Þróunin hefur aðallega verið í þá átt að fækka félagslegum íbúðum í eigu sveitarfélaga en í staðinn hefur einstaklingsbundinn stuðningur í húsnæðismálum færst yfir í húsaleigubætur. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa heildarútgjöld vegna húsaleigubóta hækkað verulega frá upphafi. Árið 1995 námu þau 0,2 ma.kr. á verðlagi þess árs. Árið 2007 námu þau 1,5 ma.kr. en 2,2 ma.kr. árið 2008. Útgjöldin hafa áfram hækkað og árið 2010 er gert ráð fyrir að þau verði 4,4 ma.kr. Markmið húsaleigubótakerfisins er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Því er ljóst að húsaleigubótum er ætlað að nýtast þeim best sem lægst hafa launin og lökust kjörin. Sé litið m.a. til spáa fagaðila hvað varðar kaupmátt ráðstöfunartekna og stig atvinnuleysis er ekkert sem bendir til annars en að tekjulágt fólk muni áfram þurfa á leiguhúsnæði að halda eins og verið hefur. Af framangreindum sökum telur nefndin að ekki verði hjá því komist að auka framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu.
    Nefndin bendir á að samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2010 til 2011 er áætlað að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggi á 139. löggjafarþingi fram frumvarp til breytinga á sveitarstjórnarlögum. Meðal þeirra meginsjónarmiða sem lágu til grundvallar endurskoðun laganna eru að sveitarfélögin þurfi að eflast frekar og öðlast þá stöðu að geta staðið faglega og rekstrarlega á eigin fótum. Er í því skyni m.a. áætlað að leggja til breytingar á reglum um fjármál sveitarfélaga og eftirliti með því. Væntir nefndin þess að í slíku frumvarpi felist að stjórnvöldum verði falið að koma að koma að úrlausn þeirra álitamála er upp kunna að koma varðandi fjárhag sveitarfélaga.
    Það er ljóst að á komandi missirum verður enn frekari niðurskurður sem verður mörgum erfiður. Nefndin ítrekar því að lokum mikilvægi þess að við niðurskurð verði lögð áhersla á að styrkja og efla grunnþjónustu við íbúa landsins ásamt þeim þáttum sem líklegir eru til að tryggja öryggi, skapa atvinnu, spara gjaldeyri og auka gjaldeyristekjur.
    Björn Valur Gíslason, Ásbjörn Óttarsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    

Alþingi, 15. nóvember 2010.

Björn Valur Gíslason, form., með fyrirvara,
Róbert Marshall,
Guðmundur Steingrímsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Ásbjörn Óttarsson, með fyrirvara,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, með fyrirvara.




Fylgiskjal XVII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Iðnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010. Nefndin hefur fengið á sinn fund Ingu Ósk Jónsdóttur og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti.
    Heildarútgjöld iðnaðarráðuneytisins árið 2011 eru áætluð 5.501,8 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 773,1 m.kr. sem nema 14% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 4.728,7 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 4.672,5 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 56,2 m.kr. innheimtar af ríkistekjum.
    Útgjöld iðnaðarráðuneytisins dragast saman um 1.145,5 m.kr. á verðlagi fjárlaga 2010. Eins og fram kemur í frumvarpinu má segja að breytingum á útgjöldum megi skipta í þrennt. Í fyrsta lagi eru gerðar ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 454 m.kr. í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í öðru lagi falla til nokkrar nýjar útgjaldaskuldbindingar sem nema 43,5 m.kr. Í þriðja lagi falla niður ýmis tímabundin framlög að fjárhæð 644 m.kr.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að nefndinni. Gert er ráð fyrir því að fjárheimild liðanna 11-299-1.50 Nýsköpun og markaðsmál og 11-599-1.90 falli niður vegna hagræðingar í ríkisútgjöldum. Gert er ráð fyrir því að samkeppnissjóðir á vegum iðnaðarráðuneytisins verði hinn faglegi vettvangur fyrir styrkúthlutanir sem þessar. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 eru framlög til allra safnliða lækkuð um 34,5%. Meiri hlutinn vill vekja sérstaka athygli á því að Iðnaðarráðuneytið er eina ráðuneytið sem gerir tillögu um niðurfellingu safnliða þar sem skoðun ráðuneytisins á styrkúthlutunum frá ýmsum sjóðum á vegum ráðuneytisins leiddi í ljós að verkefni sem fengu úthlutanir af safnliðum voru í flestum tilfellum einnig að fá úthlutanir úr samkeppnissjóðum. Iðnaðarráðuneytinu var gert að skera niður um 454 m..kr. á fjárlögum ársins 2011. Með því að fella niður safnliði með fjárheimildum upp á 79,5 m.kr. var ætlun ráðuneytisins að verja samkeppnissjóðina fyrir niðurskurði. Þessir samkeppnissjóðir eru tækniþróunarsjóður, átak til nýsköpunar, vaxtarsamningar, menningarsamningar og Impra – frumkvöðlastuðningur. Meiri hlutinn vill árétta að með þessari ákvörðun ráðuneytisins er skref stigið í átt til þess að færa styrkúthlutanir frá ráðuneytinu alfarið í vaxtar- og menningarsamninga. Tryggja þarf að úthlutun fjármuna verði byggð á faglegum forsendum, gagnsæi, svæðisbundnum þörfum og virku eftirliti með nýtingu fjármuna.
    Iðnaðarráðuneytið hefur á síðustu árum gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um ýmis verkefni sem áætlað er að nemi samtals 392,5 m.kr. árið 2011. Ekki er gert ráð fyrir því að samningar um Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslunet Austurlands, sem renna út á þessu ári, verða endurnýjaðir. Meiri hluti nefndarinnar vill benda á að fjármagn úr byggðaáætlun á fimm ára tímabili, árin 2006–2010, var nýtt til að hjálpa fyrrgreindum þekkingarsetrum við að stíga sín fyrstu skref. Fyrrgreind áætlun hafi verið í samræmi við eina af tuttugu og þremur aðgerðum sem ráðist var í að hrinda í framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 samkvæmt ályktun Alþingis frá 3. júní 2006. Þingsályktunin stefndi m.a. að því að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og bæta samkeppnisstöðu landsins með það að meginmarkmiði m.a. að styrkja menntunarlegt jafnræði með stóreflingu menntunar á landsbyggðinni. Var áskilið að téðu markmiði áætlunarinnar skyldi náð að stórum hluta í gegnum uppbyggingu háskóla- og þekkingarsetra. Frá upphafi var gert ráð fyrir því að fyrrgreindar stofnanir nýttu þennan fimm ára samningstíma til að tryggja framtíðarfjármögnun fyrir starfsemina en að þeim tíma loknum yrði fjárveitingum hætt. Meiri hlutinn bendir á að iðnaðarráðuneytið gerði einungis tímabundna samninga við fyrrgreind þekkingarnet en ekki önnur sem starfrækt eru víða um land. Mennta- og menningarmálaráðuneytið var jafnframt aðili að þessum samningum og njóta þessar stofnanir framlaga samkvæmt sérstökum liðum fjárlaga undir því ráðuneyti eða um 104 m.kr. á fjárlögum ársins 2011. Meiri hlutinn vekur athygli á því með hliðsjón af yfirvofandi niðurskurði að mikilvægt er að standa vörð um starfsemi þekkingarsetra um land allt og hvetur til þess að samræmd stefna verði mörkuð um framlög til rekstrar þeirra. Meiri hlutinn beinir því til iðnaðarráðuneytisins að mikilvægt er að tryggja rekstrargrundvöll fyrrgreindra þekkingarsetra þar sem samningur sem gerður var við ráðuneytið rennur út um áramót en hefur ekki verið endurnýjaður. Í því sambandi áréttar meiri hlutinn að sé um að ræða verkefni sem tengjast nýsköpun og þróun þá geti Þekkingarnet Austurlands og Háskólasetur Vestfjarða sótt um fjármagn til þeirra úr viðeigandi samkeppnissjóðum en fyrrgreindar stofnanir fengu samtals 10,5 m.kr. úthlutað af vaxtarsamningum á árinu 2009.
    Gert er ráð fyrir 81,7 m.kr. raunlækkun á fjárveitingum til Byggðastofnunar og skýrist sú lækkun af sparnaðaráætlunum stjórnvalda. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir 10,1 m.kr. lækkun á fjárveitingum til atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni af þessum sökum. Þar sem hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni leggur meiri hlutinn áherslu á að þrátt fyrir almennan niðurskurð á fjárlögum ársins 2001 er brýnt að forgangsraða í þágu þeirra greina sem veitt geta samfélaginu viðspyrnu til nýrrar atvinnusóknar. Meiri hlutinn áréttar að nauðsynlegt er að fara vel yfir lánveitingar Byggðastofnunar í heild sinni sem og fjárstýringu hjá stofnuninni með það fyrir augum hvernig stofnunin geti sem best mætt áhættu vegna gengis, vaxta og fjármögnunar. Einnig vill meiri hlutinn benda á að rétt sé að taka til endurskoðunar þá löggjöf sem nú gildir um starfsemi Byggðastofnunar. Heildarfjárveiting til orkumála lækkar um 559 m.kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar. Gert er ráð fyrir því að draga úr útgjöldum málaflokksins sem nemur 232,2 m.kr. til að mæta markmiðum um aðhald í útgjaldaramma ráðuneytisins. Fjárveiting á fjárlagalið 11-373 Niðurgreiðslur á húshitun, er 974 m.kr. ef halda á algjörlega óbreyttum niðurgreiðslum til raf- og olíuhitunar og er það 188,5 m.kr. lækkun frá síðustu fjárlögum eða 13,8%. Fjárveitingin skiptist á fimm verkefnaliði en í lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, er nánar mælt fyrir um úthlutun þessa fjár. Byggist lækkunin á aðhaldsaðgerðum sem ráðist verði í þar sem horft verði til sjónarmiða um bætta orkunýtni og orkusparnað, einföldun og forgangsröðun sem grundvallist á að hitun íbúðarhúsnæðis gangi fyrir. Iðnaðarráðuneytið á í viðræðum við sveitarfélög á köldum svæðum um að útfæra blandaða leið sem felur í sér lækkun á öllum verkefnaliðum. Hún byggist á því sjónarmiði að stuðla að bættri orkunýtni og orkusparnaði og eiga framlög til hitunar íbúðarhúsnæðis þar sem um er að ræða fasta búsetu að njóta forgangs. Meiri hlutinn tekur undir þessar viðræður ráðuneytisins og áréttar mikilvægi jöfnunar lífsskilyrða á Íslandi og ítrekar að mikilvægt sé að ráðuneytið leiti allra leiða til þess að mæta þeim aðilum sem búa við hvað mesta skerðingu varðandi niðurgreiðslur á húshitun.

Alþingi, 22. nóv. 2010.

Kristján Möller, form.,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Lilja Mósesdóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, með fyrirvara,
Magnús Orri Schram,
Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara.




Fylgiskjal XVIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Iðnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010. Nefndin hefur fengið á sinn fund Ingu Ósk Jónsdóttur og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti.
    Heildarútgjöld iðnaðarráðuneytisins árið 2011 eru áætluð 5.501,8 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 773,1 m.kr. sem nema 14% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 4.728,7 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 4.672,5 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 56,2 m.kr. innheimtar af ríkistekjum.
    Útgjöld iðnaðarráðuneytisins dragast saman um 1.138,4 m.kr. á verðlagi fjárlaga 2010.
    Eins og fram kemur í frumvarpinu má segja að breytingum á útgjöldum megi skipta í þrennt. Í fyrsta lagi eru gerðar ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 346,9 m.kr. í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í öðru lagi falla til nokkrar nýjar útgjaldaskuldbindingar sem nema 43,5 m.kr. Í þriðja lagi falla niður ýmis tímabundin framlög að fjárhæð 791,5 m.kr.
    Sparnaður frá fjárlögum 2010 nemur rúmum 1.138 m.kr. Þar munar mest um að samningsbundnum verkefnum er lokið. Þannig verður ekki lengur innheimt iðnaðarmálagjald (420 m.kr.), framlögum til djúpborunarverkefnisins við Leirhnjúk er lokið (162 m.kr.), framlög vegna Veðurstofu eru færð yfir til Umhverfisráðuneytis (98,6 m.kr.), framlögum vegna landgrunnsverkefni SÞ er lokið (57 m.kr.), samningum vegna háskólaseturs á Vestfjörðum og Fræðslunets Austfjarða er lokið (35,8 m.kr.), Norrænu verkefni er lokið (3 m.kr.) og samningi um framlög til markaðsstarfs og gestastofa er lokið (15,1 m.kr.).
    Raunsparnaður vegna hagræðingar í ríkisrekstri er rétt tæpar 350 millj.kr. sem er um 5,9% sparnaður frá fjárlögum 2010 en ekki 19% eins og gefið er til kynna í fjárlagafrumvarpinu, sjá töflu.
    Þrátt fyrir að flestir skilji nauðsyn þess að spara í ríkisrekstri er mikilvægt að það sé gert á þann hátt að ekki sé skemmt það sem vel hefur verið gert eða að niðurskurður bitni ekki á ósanngjarnan hátt á landsmönnum. Þannig er nauðsynlegt að fært verði til á milli viðfangsefna innan liðarins 11-373-1.98 Niðurgreiðslur á húshitun, þannig að ekki komi til þess að húshitunarkostnaður heimila á köldum svæðum hækki eða hækki framlögin ella. Þá er einnig mikilvægt að áfram verði stutt við nýveituframkvæmdir og að styrkir sem veittir eru vegna stofnunar nýrra hitaveitna á grundvelli laga nr. 78/2002 um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðs verði hækkaðir. Samkvæmt núgildandi lögum nemur fjárhæð styrksins allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni en ákjósanlegt væri að hækka hann svo hann nemi 12 ára áætluðum niðurgreiðslum.
    Nauðsynlegt er að ekki komi til þess að framlögum til Háskólaseturs á Vestfjörðum og Fræðslunets Austfjarða verði hætt. Verkefnin hafa sýnt og sannað að árangur fyrir atvinnu og atvinnulíf í fjórðungunum hefur verið mikill síðan samningurinn gekk í gildi og líklegt er að það mundi fljótlega leiða til meiri kostnaðar fyrir ríkið að draga sig út úr verkefnunum. Því er hér lagt til að framlögum til Háskólaseturs á Vestfjörðum og Fræðslunets Austfjarða verði ekki hætt.
    Samkvæmt ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins er talið að um 1.000 milljónir vanti inn í Byggðastofnun til að standast lögbundið lágmark um eigið fé. Þessu er ekki gerð grein fyrir í fjárlögum. Þannig þarf að bæta stofnuninni um 300 milljónir vegna afskrifta útlána og aðrar 700 milljónir vegna afskrifta sem ráðast þurfti í síðasta sumar vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar um að gefa rækjuveiðar frjálsar – aðgerð sem orkar tvímælis hvort að standis lög. Mikilvægt er að útgjöld sem þegar er vitað að ríkissjóður standi frammi fyrir séu á fjárlögum. Það er í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins, marg ítrekaðar ábendingar Ríkisendurskoðunar, góða starfshætti og gagnsægi.
    Að teknu tillits til nauðsynlegs framlags til Byggðastofnunar (1.000 milljónir) og tillögu um að ekki verði skorin niður framlög til Fræðslunets Austurlands og Háskólaseturs á Vestfjörðum (35,8 milljónir) aukast raunútgjöld Iðnaðarráðuneytisins (að teknu tilliti til verkefna sem er lokið) um 688,9 í stað þess að raunsparnaður verði 346,9 milljónir króna eins og stefnt er að í fjárlagafrumvarpinu.
    

Alþingi, 17. nóvember 2010.

Tryggvi Þór Herbertsson,
Jón Gunnarsson.



Fylgiskjal XIX.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Iðnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 21. október 2010. Nefndin hefur fengið á sinn fund Ingu Ósk Jónsdóttur og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti.
    Heildarútgjöld iðnaðarráðuneytisins árið 2011 eru áætluð 5.501,8 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 773,1 m.kr. sem nema 14% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 4.728,7 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 4.672,5 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 56,2 m.kr. innheimtar af ríkistekjum.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að nefndinni. 2. minni hluti iðnaðarnefndar getur ekki tekið undir álit meiri hlutans og telur að lækkun fjármuna til Háskólaseturs Vestfjarða og Fræðslunets Austurlands hafi neikvæð áhrif á verkefnin og svæðin í heild nema menntamálaráðuneytið bæti upp það sem iðnaðarráðuneytið tekur út í frumvarpi þessu. Jafnvel má fullyrða að grundvelli þessara verkefna sé stefnt í hættu. Svo virðist sem ráðuneyti menntamála og iðnaðaráðuneyti hafi ekki sameiginlega sýn með þessi verkefni.
    Annar minni hluti telur að fyrirhuguð lækkun á framlagi til niðurgreiðslu húshitunar geti m.a. haft þær afleiðingar að það dregst að hitaveituvæða þau svæði sem eftir eru og þar sem hagkvæmt er að gera slíkt. Það er óhagkvæmt fyrir alla aðila því hitaveita er miklu hagkvæmari til lengri tíma og sparar þannig öllum fjármuni. Þá er augljóst að verði minna niðurgreitt af orkunotkun þýðir það kjaraskerðingu fyrir þau heimili og fyrirtæki sem njóta niðurgreiðslu. Með þessu er aukið á mismun í samfélaginu milli heitra svæða og kaldra sem nógur er fyrir.
    Þá gagnrýnir 2. minni hluti þá ráðstöfun að fella niður fjárheimild liðanna 11-299-1.50 og 11-599-1.90. Svo og virðist sem iðnaðarráðuneytið sé eina ráðuneytið sem grípur til slíkra aðgerða og nær með því stórum hluta niðurskurðar ráðuneytisins. Þær 79,5 m.kr. sem teknar eru af safnliðum virðast ekki hækka aðra sambærilega liði s.s. sjóði sem veita fé í hin ýmsu verkefni. Þetta er mjög sérstakt í ljósi þess að önnur ráðuneyti fara ekki þessa leið, mörg þörf verkefni hafa fengið fjármögnun í gegnum iðnaðarnefnd og ljóst að samræming er engin milli ráðuneyta og nefnda varðandi þessi mál.
    Á árinu 2010 var varið 400 m.kr. í markaðssetningu Íslands vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Meðal þess sem ráðist var í er verkefnið „Inspired by Iceland“. Fullyrða má að Eyjafjallajökull hafi athygli á Íslandi og tekist hafi að snúa vörn í sókn með því að nýta athyglina. Mikil tækifæri eru í því að halda áfram á sömu braut og nýta meðbyrinn. Stjórnvöld virðast hins vegar ekki ætla að nýta hann þar sem 400 m.kr. framlagið er skorið af ásamt 100 m.kr. til viðbótar. 2. minni hluta þykir það afar undarleg ráðstöfun þegar tækifæri er að fylgja eftir athyglinni sem landið hefur fengið og tryggja þannig auknar gjaldeyrisstekjur af ferðamönnum.
    Byggðastofnun hefur fengið aukningu á eigin fé vegna þess taps sem stofnunin hefur orðið fyrir enda ríkisstofnun sem vinnur samkvæmt. lögum og stefnu ríkisvaldsins. Ef um hlutafélag væri að ræða hefði þurft að auka hlutafé eða fara í þrot. Rekstur Byggðastofnunar er skorinn niður um 81 m.kr. og vísað til taps á rekstri lánasviðs stofnunarinnar sem gert er að standa undir þeim rekstri. Byggðastofnun er í eðli sínu áhættulánastofnun og ekki óeðlilegt að áhætta af verkefnum sé meiri en hjá öðrum enda spila önnur atriði inn í lánamatið svo sem byggðasjónarmið, atvinnusjónarmið o.fl. Stofnunin hefur trúlega um tvo kosti að velja til að mæta þessum niðurskurði, annars vegar að minnka umsvif með fækkun starfsfólks eða hins vegar að hækka vexti til að standa undir rekstrinum. Hvorugt er í raun gott þar sem full þörf er á öflugu lánasviði og fjármunum á kjörum sem gagnast þeim sem stofnunin á að þjóna. Mikilvægt er að ríkisvaldið sé á hverjum tíma með skýra stefnu í byggðamálum en slíkt skortir algjörlega. Líkt og aðrar lánastofnanir hefur Byggðastofnun þurft að afskrifa töluvert af útlánum og nemur afskrift stofnunarinnar um 300 m.kr. Þá hefur komið fram að vegna ákvörðunar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að gefa rækjuveiðar frjálsar þarf stofnunin að afskrifa um 700 m.kr. Ákvörðunin ber vott um skort á yfirsýn og mati á afleiðingum stjórnvaldsákvarðana. Fram hefur komið að leggja þarf stofnuninni til aukið eigið fé sem nemur um milljarði króna. Ekki virðist gert ráð fyrir þeim fjármunum í frumvarpinu og er það ámælisvert.

Alþingi, 19. nóvember 2010.

Gunnar Bragi Sveinsson.




Fylgiskjal XX.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (12 Efnahags- og viðskiptaráðuneyti).

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Viðskiptanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 19. október 2009. Eftirtaldir gestir komu á fund nefndarinnar: Helga Óskarsdóttir og Þóra Hjaltested frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Borghildur Erlingsdóttir frá Einkaleyfastofu, Gunnar Þ. Andersen, Ragnar Hafliðason og Þorsteinn Marinósson frá Fjármálaeftirliti og Páll Gunnar Pálsson og Rögnvaldur J. Sæmundsson frá Samkeppniseftirliti.
    Heildargjöld efnahags- og viðskiptaráðuneytis árið 2011 eru áætluð um 3.296,8 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 92,5 m.kr. sem nema 2,8% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 3.204,3 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 1.280,5 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 1.923,8 m.kr. innheimtar af ríkistekjum.
    Samkvæmt frumvarpinu aukast útgjöld ráðuneytisins um 135,4 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2010 en með tilliti til áhrifa almennra verðlags- og gengisbreytinga hækka útgjöldin 146,5 m.kr. milli ára, þ.e. 4,8%. Breytingum útgjalda má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 228 m.kr. Í öðru lagi er um að ræða ýmsar breytingar á útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2011 sem nema 365,4 m.kr. Í þriðja lagi falla niður ýmis tímabundin framlög að fjárhæð 2 m.kr.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins að frátöldum sértekjum eru áætluð 2.735 m.kr. og hækka um 240.3 m.kr. frá fjárlögum þessa árs. Fjárveitingar til reksturs flestra stofnana lækka um alls 224 m.kr. vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Hins vegar er gert ráð fyrir auknum eða nýjum útgjaldaskuldbindingum í rekstri sem nema 455 m.kr. og munar þar helst um 397,4 m.kr. hækkun framlaga til Fjármálaeftirlitsins. Nokkur framlög til tímabundinna verkefna að fjárhæð 2 m.kr. falla niður. Verðlagshækkun fjárveitinga til rekstrar nemur um 10,9 m.kr.
    Á vegum ráðuneytisins er unnið að tveimur tilraunaverkefnum í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð. Um er að ræða annars vegar verkefni sem lýtur að styrkúthlutun af ráðstöfunarfé ráðherra og hins vegar verkefni sem verður unnið í tengslum við rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.
    Einkaleyfastofa og Fjármálaeftirlit eru tvær af fjórum stofnunum sem heyra undir ráðuneytið. Þær fjármagna starfsemi sína með sérstöku gjaldi sem þær innheimta. Einkaleyfastofan innheimtir þjónustugjöld sem standa undir rekstri hennar. Innheimtum tekjum er varið til að sinna þeirri þjónustu sem er greitt fyrir og hefur því ekki þurft beint framlag úr ríkissjóði vegna stofnunarinnar. Undantekning frá þessu er faggildingarsvið en ríkisframlag hefur verið nauðsynlegt til reksturs þess. Fjármálaeftirlitið innheimtir svonefnt eftirlitsgjald sem leggst á eftirlitsskylda og gjaldskylda aðila, sbr. 1. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Skv. 2. mgr. sömu greinar skal gjaldið renna beint til reksturs eftirlitsins. Meiri hlutinn bendir á að e.t.v. væri nauðsynlegt að aðgreina slíkar stofnanir sérstaklega í fjárlagafrumvarpinu og færa til bókar bæði væntanlegan kostnað og innheimtar tekjur.
    Bent skal á að til stendur að fjölga stöðugildum hjá Samkeppniseftirlitinu um tvö til þrjú til að standa straum af kostnaði vegna aukinna rannsóknarverkefna stofnunarinnar en tillagan byggist á frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005, sem hefur það að markmiði að veita aukið aðhald á samkeppnismörkuðum.
    Hjá Hagstofunni mun stöðugildum fækka um fimm til sex. Raunlækkun til Hagstofunnar frá fjárlögum þessa árs nemur 64 m.kr. sem skýrist af aðhaldsaðgerðum í ríkisútgjöldum.
    Í athugasemdum við frumvarpið er (á bls. 413) kveðið á um að fjárveiting til Einkaleyfastofu hækki um 26,8 m.kr. Hið rétta er að fjárveitingin lækkar samkvæmt frumvarpinu um sömu fjárhæð.
    Þá er (á bls. 410) getið um helstu breytingar á málaflokkum og stofnunum sem heyra undir samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti. Þar hlýtur að vera átt við efnahags- og viðskiptaráðuneyti.
    Eygló Harðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. nóvember 2010.

Lilja Mósesdóttir, form.,
Magnús Orri Schram,
Skúli Helgason,
Arndís Soffía Sigurðardóttir,
Valgerður Bjarnadóttir,
Margrét Tryggvadóttir.

Fylgiskjal XXI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og bréf fjárlaganefndar til umhverfisnefndar dagsett 21. október 2010.
    Á fund nefndarinnar kom Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir frá umhverfisráðuneyti.
    Heildarútgjöld umhverfisráðuneytis árið 2011 eru áætluð um 8.945 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 2.006 m.kr. en þær nema 22% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Útgjöld ráðuneytisins dragast saman samkvæmt frumvarpinu um 101,5 m.kr. Útgjaldabreytingunni milli ára má skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi verða gerðar ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 416 m.kr. í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin hefur sett í áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í öðru lagi er um að ræða ýmsar breytingar á útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2011 en þær nema 586,3 m.kr. Þar af eru 148 m.kr. vegna breytinga á fjárheimildum verkefna sem fjármögnuð eru að fullu með ríkistekjum og hafa þar með ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs og 142,5 m.kr. millifærð fjárheimild frá iðnaðarráðuneytinu sem veldur þá jafn mikilli lækkun þar. Á móti því vega, í þriðja lagi, tímabundin framlög til ýmissa verkefna sem falla niður en þau nema 271,8 m.kr. Nettóhækkun vegna breytinga á útgjaldaskuldbindingum er því alls 314,5 m.kr. Loks bætast við verðlagshækkanir ársins 2011, sem eru áætlaðar 38,9 m.kr., þannig að heildargjöldin verða 6.939 m.kr.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 4.553,6 m.kr. og hækka um 362,5 m.kr. frá fjárlögum þessa árs. Rekstrarfjárveitingar flestra stofnana og verkefna sem heyra undir ráðuneytið eru lækkaðar alls um 261 m.kr. vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir auknum eða nýjum útgjaldaskuldbindingum í rekstri sem nema 774,5 m.kr. Þar munar mest um 310 m.kr. vegna aukinnar veltu Úrvinnslusjóðs og 100 m.kr. hækkun á framlagi vegna nýrrar Byggingarstofnunar, samkvæmt frumvarpi til laga um mannvirki, auk þess sem 142,5 m.kr. fjárheimildir eru fluttar til umhverfisráðuneytis frá öðrum ráðuneytum vegna tilflutnings á verkefnum. Á móti falla niður nokkur framlög sem veitt voru til tímabundinna verkefna að fjárhæð 188 m.kr. Loks nemur verðlagshækkun fjárveitinga til rekstrar um 37 m.kr. Neyslu- og rekstrartilfærslur lækka um 230,1 m.kr. og verða 2.059,2 m.kr. en eru 2.289,3 m.kr. í fjárlögum þessa árs. Vegur þar þyngst 170 m.kr. lækkun á framlagi til Endurvinnslunnar hf. og 47 m.kr. hækkun á framlagi til skipulagsmála sveitarfélaga. Viðhalds- og stofnkostnaður er áætlaður 326,2 m.kr. og er það 195 m.kr. lækkun milli ára. Munar þar mest um framlög til framkvæmda í Vatnajökulsþjóðgarði um 55 m.kr. og framlög til Ofanflóðasjóðs um 53 m.kr.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að málefnasviði nefndarinnar og kynnt sér samdráttartillögur umhverfisráðuneytisins. Meiri hlutinn telur sýnt að ráðuneytið hefur mætt þeim samdráttarmarkmiðum sem gerð var krafa um með því að skera niður útgjöld til einstakra liða. Skerðingin er þó mismikil eftir einstökum stofnunum og verkefnum enda var hún útfærð eftir forgangsröð og áherslum ráðuneytisins.
    Meiri hlutinn áréttar einnig nauðsyn þess í efnahagsþrengingum að ekki sé gengið of nærri stofnunum og verkefnum og að reynt sé til þrautar að forðast fækkun starfa. Meiri hlutinn telur einnig nauðsynlegt að ráðuneyti og ríkisstjórn beiti sér fyrir því að bæta rekstrarskilyrði frjálsra félagasamtaka sem starfa við umhverfismál á Íslandi. Meiri hlutinn leggur einnig áherslu á að endurskoða þurfi fyrirkomulag við úthlutun fjárveitinga af safnliðum í fjárlagafrumvarpinu. Mögulegt væri að stofna umhverfisverndarsjóð með faglegri stjórn sem gerði tillögur til fjárveitingavaldsins um úthlutun fjár á grundvelli umsókna frá frjálsum félagasamtökum, opinberum aðilum og einkaaðilum. Slík ráðstöfun yrði til þess fallin að stuðla að faglegra og fræðilegra mati á verkefnum sem ráðstafað yrði til. Meiri hlutinn telur hins vegar að nauðsynlegt væri að tryggja að ákvarðanir um skiptingu fjármuna á milli sjóða og mótun reglna um úthlutanir yrði áfram á valdi þingsins þar sem fjárveitingavald er á höndum þess.
    Nefndinni hafa borist þrjátíu og tvær umsóknir um fjárveitingu af safnlið 14-190-1.90, Ýmis verkefni, og komu níu aðilar á fund nefndarinnar. Meiri hlutinn gerir að tillögu sinni að tuttugu umsóknir fái styrk. Við skiptingu styrkja var lögð áhersla á að fjármagn færi til þeirra sem standa fyrir fræðsluverkefnum ekki síst gagnvart börnum og ungmennum, atvinnusköpun, almannafræðslu og nýsköpun á sviði umhverfisverndar. Auk þess telur meiri hlutinn mikilvægt að styrkja Náttúrufræðistofu Kópavogs, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og áframhaldandi uppbyggingu náttúruseturs á Húsabakka í Svarfaðardal. Meiri hlutinn áréttar að sótt hafi verið um til margra mikilvægra verkefna en ekki sé svigrúm til að veita öllum styrk en samkvæmt tillögum hans er auk þess víða skorið niður frá fyrri árum. Gerð er tillaga að framlagi til Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs vegna uppgræðslu með áherslu á nýtingu lífrænna úrgangsefna og hækkun á framlagi til verkefnis samtakanna Skólar á grænni grein í ljósi þess hversu mikið verkefnið hefur vaxið og þeirra vinsælda sem það nýtur. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að styrkja verkefnið, sem eflir umhverfisfræðslu og styrkir stöðu umhverfismenntar og menntunar til sjálfbærrar þróunar á Íslandi til framtíðar. Þátttakendur í verkefninu eru neytendur framtíðarinnar og mikilvægt að umhverfisfræðsla gegni lykilhlutverki í menntun þeirra.
    Einnig gerir meiri hlutinn tillögu að áframhaldandi framlagi til tveggja verkefna við gerð hættumats og viðbragðsáætlana vegna gróðurelda, annars vegar í Skorradal og hins vegar Hafnarfirði. Telur meiri hlutinn rétt að benda á að verkefnið í Skorradal gæti nýst öllum sveitarfélögum á landinu. Hins vegar, í ljósi umræðu um breytingar á fyrirkomulagi við úthlutun fjárveitinga af safnliðum, er mikilvægt að finna verkefninu annan stað í framtíðinni til að tryggja framgang þess. Þá gerir meiri hlutinn tillögu að framlagi til þriggja aðila á Eyjafjarðarsvæðinu vegna verkefna til að hefta útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils. Er sú tillaga í samræmi við stefnu stjórnvalda um að setja útbreiðslu tegundanna strangar skorður til þess að takmarka neikvæð áhrif þeirra á íslenska náttúru, en jafnframt að nýta kosti alaskalúpínu á völdum svæðum til landgræðslu og ræktunar.
    Meiri hlutinn telur rétt að ítreka þau sjónarmið sem komið hafa fram í álitum umhverfisnefndar vegna frumvarpa til fjárlaga fyrir árið 2010, 2009 og 2008 að rétt sé að íhuga vandlega hvort ekki sé ástæða til að Náttúrufræðistofa Kópavogs fái lögformlega stöðu og verði látin heyra undir lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992.
    Meiri hlutinn lýsir yfir stuðningi við umsókn framkvæmdaráðs Snæfellsness en vísar henni til fjárlaganefndar til sérstakrar skoðunar. Telur meiri hlutinn að verkefnið sé mjög vandað og nauðsynlegt sé að styrkja áfram umhverfisvottun sveitarfélaga. Í ljósi hversu umfangsmikið verkefnið er og styrkbeiðnin nálægt því að vera helmingur af ráðstöfunarfé nefndarinnar, telur meiri hlutinn eðlilegra að vísa umsókninni til fjárlaganefndar með þeim skilaboðum að það verðskuldi stuðning.
    Tillögur meiri hlutans um skiptingu safnliðarins koma fram í sérstöku fylgiskjali.

Alþingi, 16. nóvember 2010.

Skúli Helgason,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Auður Lilja Erlingsdóttir,
Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara,
Ólafur Þór Gunnarsson.